Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason
Eftir Vilhjálm Árnason: "Hópurinn lagði áherslu á að efla löggæslu á landsbyggðinni þar sem þörfin var hvað brýnust."

Það er afar ánægjulegt að þrátt fyrir mikið aðhald í ríkisrekstrinum hafi tekist að ganga strax í það brýna verkefni að efla löggæsluna í landinu. Núverandi ríkisstjórn lagði áherslu á það í stjórnarsáttmálanum að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar. Ákveðið var að verja 500 milljónum í eflingu lögreglunnar og er það fjármagn varanlegt.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði sl. haust þverpólitískan starfshóp til að meta hvernig best væri að útdeila fjármagni þessu. Skipaði hún undirritaðan sem formann nefndarinnar og var það mér mikill heiður að fá að fara fyrir þessum hópi, sem samanstóð af öflugu fólki úr öllum flokkum. Hópurinn lagði áherslu á að efla löggæslu á landsbyggðinni þar sem þörfin var hvað brýnust. Þá var sérstaklega horft til þess að lögreglan gæti betur sinnt afbrotavörnum og tryggt öryggi íbúa og þeirra sem sinna löggæslumálum.

Nefndin byggði á forgangsröðun nefndar sem starfaði á síðasta kjörtímabili og skilaði drögum að löggæsluáætlun, en um hana ríkti þverpólitísk sátt. Tillögur okkar snúa að fjórum þáttum. Í fyrsta lagi fjölgun lögreglumanna; í öðru lagi auknum akstri ökutækja lögreglu; í þriðja lagi búnaði og þjálfun og í fjórða mannauðsmálum. Lögreglumönnum mun fjölga um 44 til viðbótar við þá 10 lögreglumenn sem gert er ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. En þeim er ætlað að hafa eftirlit með skipulagðri glæpastarfsemi annars vegar og rannsóknum á kynferðisbrotum hins vegar.

Þótti okkur rökrétt að leggja áherslu á að fjölga lögreglumönnum á þeim svæðum þar sem lengst er að sækja frekari aðstoð í neyð. Við þá vinnu höfðum við til hliðsjónar fækkun stöðugilda í umdæmum, en fengnar voru tillögur frá hverjum lögreglustjóra fyrir sig. Nauðsynlegt var að auka fjárveitingar sem varið er í akstur ökutækja lögreglu gagngert til að auka sýnilegt eftirlit á þjóðvegum landsins. Þetta var gert til stemma stigu við hraðakstri, ölvunarakstri og umferðaróhöppum. Enn fremur var ákveðið að viðbragðsgeta lögreglunnar yrði styrkt með aukinni þjálfun lögreglumanna og kaupum á nauðsynlegum búnaði. Undanfarið hefur veikindahlutfall lögreglumanna aukist samhliða auknu álagi. Reynt er að bregðast við þeirri þróun með því að ráðstafa frekari fjármunum í mannauðsmál innan lögreglunnar.

Innanríkisráðherra hefur samþykkt tillögurnar og þær verið kynntar. Nú verður hafist handa við að koma þeim í framkvæmd í samvinnu við lögregluembættin. Áhrifa þeirra ætti að gæta innan fárra mánaða. Öryggi okkar sem og gesta verður betur tryggt eftir þetta jákvæða skref í löggæslumálum. Ljóst er að þetta er aðeins fyrsta skrefið í eflingu lögreglunnar. Enn má gera betur til að efla lögregluna og að því munum við áfram vinna í sameiningu inni á Alþingi.

Lifið heil.

Höfundur er þingmaður.