Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil,“ sungu Ný Dönsk hérna um árið, og hefur verið vísað til þessara orða margoft síðan þá.

Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil,“ sungu Ný Dönsk hérna um árið, og hefur verið vísað til þessara orða margoft síðan þá. Víkverji hefur nýverið komist að sannleiksgildi þessara orða í mjög hversdagslegum skilningi, nefnilega hvað það er yndislegt að hafa það frelsi sem fylgir því að vera á eigin bíl. Og eins og með svo margt annað, þá veit Víkverji ekki hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Svo var nefnilega mál með vexti að Víkverji tók eftir því að það var farið að vanta vatn á vatnskassann í bílnum hans. „Græna þruman,“ eins og enginn nema Víkverji kallar bílinn, er komin nokkuð til ára sinna, en var þó í merkilega góðu ástandi. Víkverji lét athuga hinn meinta leka, en var sagt að engu slíku væri til að dreifa. Hann þraukaði því áfram nokkra mánuði í viðbót, og fyllti reglulega á vatnskassann, í þeirri von að Eyjólfur myndi senn hressast.

Sá tími kom að Víkverja þótti það fremur dýrt spaug að þurfa að fylla oftar og oftar á kassann og dreif því bílinn í viðgerð. Þá var honum tjáð að heddpakkningin væri alveg farin. Slík viðgerð er heldur í kostnaðarsamari kantinum, og ákvað Víkverji því í samráði við frú sína að nú skyldi reynt að þrauka á einum bíl. Voru þau staðráðin í að láta það ganga, þó svo að frú Víkverji vinni og starfi mestmegnis miðsvæðis í Reykjavík, en Víkverji sjálfur þarf að ferðast hálfa leið að Litlu kaffistofunni að sínum vinnustað.

Þrautseigja er hins vegar ekki einn af kostum Víkverja, og eftir einungis einn dag lét hann undan. Enda hefur Víkverji nú þegar sett svo mikið í bílinn. Nýtt púst, nýja tímareim, nánast allt nýtt, nema ansans heddpakkningin. Með hverri viðgerðinni hugsar Víkverji það sama: nú sé komið nóg. Þetta verður í síðasta sinn sem Víkverji lætur lappa upp á bílinn. Þangað til hann bilar næst. Frelsið er nefnilega yndislegt.