[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.

Handbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Spænska blaðið El Mundo Deportivo , sem hefur sterk tengsl innan Barcelona, fullyrti á þriðjudaginn að Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, gengi í raðir félagsins í sumar en hann hefur nú þegar gefið það út að hann semji ekki aftur við Kiel.

Barcelona hefur í áraraðir verið eitt besta lið Evrópuboltans og státar af átta sigrum í Meistaradeildinni ofan á nær óteljandi titla heima fyrir. Liðið vann Meistaradeildina síðast 2011 og tapaði í úrslitum fyrir Hamburg í fyrra.

Barcelona-liðið er ótrúlega vel mannað og fari svo að Guðjón semji við Katalónana mæta þeir til leiks með sannkallað stjörnulið næsta vetur. Hann yrði svo sannarlega síðasta púslið í hreint ótrúlegt handboltalið.

Þrjár skærustu stjörnur heims

Það fór greinilega illa í Barcelona að tapa úrslitaleiknum í Meistaradeildinni en það er staðráðið í að vinna hann á þessu tímabili. Síðasta sumar réðst félagið af hörku á leikmannamarkaðinn og fékk til sín tvo risaspilara: Nikola Karabatic og Kiril Lazarov. Fyrir hjá liðinu var stórskyttan Siarhei Rutenka þannig þeir þrír skipa nú útilínu Barcelona. Þrjár af skærustu stjörnum handboltans. Ekki amalegt.

Í kringum þá eru svo ekki mikið slakari leikmenn. Arpad Sterbik, landsliðsmarkvörður Spánar, ver mark liðsins, Víctor Tomás stekkur inn úr hægra horninu og línunni deila þeir með sér Jesper Nöddesbo, landsliðsmaður Dana, og Cédric Sorhaindo, landsliðsmaður Frakklands.

Breiddin er svo ekkert að fara með liðið. Þegar Karabatic, Rutenka og Lazarov þreytast koma inn á sumir af efnilegustu leikmönnum spánar í bland við landsliðsmenn þjóðarinnar. Við þetta má svo bæta að varnartröllið Viran Morros er einnig á mála hjá Barcelona.

Gengur beint í liðið

Eina staðan þar sem Barcelona getur mögulega bætt sig er einmitt vinstra hornið en þar spilar Juan García, fyrrverandi landsliðsmaður Spánar, sem missti sæti sitt í spænska liðinu á síðasta ári og varð ekki heimsmeistari með liðinu. Slóvaki að nafni Martin Stranovský er svo varamaður hans.

Óhætt er að segja Guðjón Valur sé öllu betri leikmaður en þeir báðir og myndi því ganga í liðið enda kaupir Barcelona ekki slíkar stjörnur til að hafa þær á bekknum. Með Guðjón í liðinu yrði uppstilling á hálfgerðu draumaliði Evrópu fullkomnuð.

Það skondna í þessu er að Guðjón þarf mögulega að fara til best mannaða liðs heims til að fá að spila. Hjá Kiel deilir hann horninu með þýska landsliðsmanninum Dominik Klein. Maður sem er meiddur korteri fyrir stórmót en spilar svo hverja einustu sekúndu hefur lítinn áhuga á að deila stöðunni með nokkrum manni. Guðjón vill spila og það ætti hann að fá hjá Barcelona fyrir utan að væntanlega sanka að sér nokkrum titlum.