Petrína Kristín Pétursdóttir fæddist hinn 22. október 1947. Hún lést 7. janúar 2014. Útför Petrínu fór fram 20. janúar 2014.

Elsku amma Peta. Við trúum því ekki ennþá að þú sért farin í burtu frá okkur. Við vitum að þú varst mikið veik og þér leið oft mjög illa og við vonum að núna líði þér betur. Langamma Dalla og langafi Pétur hafa tekið vel á móti þér, þú varst litla stelpan þeirra. Við söknum þín mikið en við eigum fullt af minningum um góða ömmu sem bakaði staflana af pönnukökum þegar við komum í heimsókn, prjónaði sokka, vettlinga og peysur á okkur og var dugleg að fylgjast með öllu sem við gerðum. Við erum viss um að þú fylgist áfram með okkur öllum.

Við ætlum að passa afa Steina vel fyrir þig því við vitum að hann saknar þín rosalega mikið. Við elskum þig endalaust mikið.

Atli Steinar og Alma Rut.

Látin er eftir stranga baráttu vinkona mín hún Petrína, Peta.

Ég minnist hennar með hlýju og söknuði. Við kynntumst 1972 þegar ég kom inn í tengdafjölskyldu hennar. Eiginmenn okkar eru bræðrasynir og hafa ávallt ræktað frændsemina og vináttuna frá barnæsku. Árin eftir 1970 einkenndust af elju og dugnaði hjá þeim Steina og Petu, dugnaði við að koma þaki yfir höfuðið og búa í haginn fyrir fjölskylduna sem stækkaði. Við hjónin vorum í sömu sporum og fylgdumst að, mennirnir hjálpuðust að við húsbyggingar og við Peta bjástruðum við heimilishald, barnauppeldi og vinnu utan heimilis.

Hún var alltaf svo myndarleg við heimilishaldið og ég sem yngri stelpa að norðan reyndi að læra og hegða mér eins og stelpurnar í Reykjavíkinni. Ég fékk að vera með og í sláturgerðinni kom tengdamamma hennar, amma Rúna, með strætó úr Skerjafirðinum upp í Breiðholt og „blandaði“. Já margt hefur breyst. Margar ljúfar og góðar minningar streyma að þessa dagana – samveran var alltaf áreynslulaus og góð. Eitt árið fórum við saman í langferð til Þýskalands, keyrðum um Svartaskóg með dæturnar í aftursætunum og gistum í heimagistingum. Þetta voru góðir tímar.

En árin líða og lífið fer í hring, fyrr en varði var kominn stór skari af barnabörnum hjá Petu og Steina, barnabörnin voru dáð og elskuð. Hún var alltaf svo mikil barnakona hún Peta! Og ekki laust við að ég öfundaði hana af öllum þessum fallega hópi.

Nú stöndum við eftir og minnumst góðrar vinkonu. Það er gott að eiga góðar minningar. Að lokum sendi ég Aðalsteini og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Maj Britt Pálsdóttir.

Það að koma inn í nýja fjölskyldu er hverjum einstaklingi lífsreynsla. Hitta fólk sem maður hefur aldrei séð áður, kynnast því, mæta viðhorfi þess og vinna sér traust þess og treysta því. Þetta kemur mér í huga núna þegar við kveðjum Petrínu Kristínu Pétursdóttur. Hún var einmitt hluti fjölskyldu sem ég hitti fyrst rétt eftir að leiðir eiginkonu minnar og mín lágu saman fyrir 40 árum. Hún var systir tengdamóður minnar og hafði dvalið eftir barnaskólann á heimili tengdaforeldra minna meðan frekara nám var stundað. Hún virkaði á mig athugul, hún virti þennan unga mann fyrir sér og það stafaði frá henni ákveðin glettni, það var mörgum spurningum ósvarað, fannst henni ef til vill. Henni var ekki sama hvernig frænku sinni reiddi af enda var hún svolítið eins og stóra systir hennar, bar heilmikla ábyrgð á henni enda höfðu þær nánast alist upp saman og héldu síðan nánu sambandi alla tíð. Þetta viðmót sótti Petla, eins og hún var ávallt kölluð af móður- og föðurfólki sínu, í sinn uppruna og það skilaði sér í umhyggju. Já, ég held að orðið „umhyggja“ sé orðið sem mér finnst lýsa henni best og kemur upp í hugann þegar horft er til baka yfir farinn veg. Það varð okkar gæfa að fá síðan að njóta þess auk fjölskyldutengslanna að eiga Petlu og hennar eiginmann, Steina, sem vini alla tíð.

Núna er hún farin frá okkur, allt of snemma, og þegar komið er að kveðjustund koma upp í hugann ferðalög, sumur í Húsafelli, utanlandsferð, ferðir með ferðavagna af ýmsum toga, hringferðir um landið, Skaftafell, Egilsstaðir, Akureyri, Mývatn, Þingvellir, æskuslóðir á Írafossi, góð samvera sem við höfum búið að alla tíð. Það eru mörg augnablikin frá þessum ferðum sem hafa gert lífið okkar betra. Öll veður, öll skilyrði, stundum svolítil veiði, stundum svolítið golf, tekið í spil, gönguferðir, landið skoðað og áð á fallegum reit, alltaf gaman. Við áttum Vestfirðina eftir en þá ferð tökum við seinna. Við sáum líka dæturnar þeirra vaxa úr grasi, stundum úr svolítilli fjarlægð, stundum í návígi, sáum nýja kynslóð verða til, allt myndarfólk sem hefði svo gjarnan viljað fá meiri tíma með mömmu og ömmu en því ráðum við ekki. Enn var það umhyggjan sem hún sýndi og ósjaldan komu dæturnar og hennar fólk til tals; hvernig ætli gangi hjá stelpunum núna, kom fyrir að maður heyrði, hvað er að frétta af Guðna? Það var komið við í Norðurfellinu í Reykjavíkurferðum okkar, drengnum skotið í pössun meðan útréttað var og við fengum að vera með í að sjá fólkið hennar dafna í skjóli hennar, skjóli sem við fengum líka að njóta. Við Dagmar þökkum samfylgdina, vináttuna, þétt en veikt handtak í lokin, góðvildina og ekki sýst umhyggjuna sem alltaf var sýnd. Megi góður Guð vera með Steina, dætrum og þeirra fjölskyldum og munum að það eru minningarnar sem verða áfram til staðar en þær tekur enginn frá okkur.

Guðmundur Eiríksson.

Það er ekki sjálfgefið að fólk sem komið er yfir miðjan aldur kynnist öðru fólki sem manni finnst sem maður hafi þekkt alla ævi, en þannig var það með Petu, eins og hún var kölluð. Þetta blíða bros sem mér fannst einkenna hana og það traust sem hún sýndi í samskiptum við aðra. Það var því mikið áfall þegar hún greindist með illvígan sjúkdóm fyrir um tveimur árum. Alltaf var haldið í vonina um að lækning fyndist, en sú von brást. Ég kveð Petu með söknuði og sendi eiginmanni, dætrum og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Hildur Jónsdóttir.

Við kveðjum nú kæra vinkonu með söknuði.

Það er margs að minnast eftir fimmtíu ára samveru. Peta var vel gerð, hafði góða nærveru og oft var stutt í hláturinn. Hennar helstu áhugamál voru útilegur með Steina sínum og stelpunum og seinna líka barnabörnunum. Skíðaferðirnar voru margar með fjölskyldu og vinum og minningarnar góðar. Allt lék í höndunum á Petu, sér í lagi handavinna og bakstur. Hún prjónaði af mikilli snilld og bakaði bestu terturnar.

Nú lýkur hetjulegri baráttu Petu við illvígan sjúkdóm. Leiðir skilur og missir og söknuður Steina, dætranna og þeirra nánustu fjölskyldu er mikill. Hugur okkar er hjá þeim og við vottum þeim okkar dýpstu samúð.

Kallið er komið,

Komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

(Vald. Briem)

Hvíldu í friði kæra vinkona. Minning þín lifir í huga okkar.

Þínar saumaklúbbsvinkonur,

Björg, Gróa, Guðborg, Jónína, Margrét, Vilborg og Þóra.