Frumkvöðull Jón von Tetzchner stofnar samfélagsmiðilinn Vivaldi.net
Frumkvöðull Jón von Tetzchner stofnar samfélagsmiðilinn Vivaldi.net — Morgunblaðið/Eggert
Jón von Tetzchner, stofnandi Opera og fjárfestir, hefur stofnað nýjan samfélagsmiðil sem kallast Vivaldi.net, samkvæmt því sem fram kom á mbl.is í gær.

Jón von Tetzchner, stofnandi Opera og fjárfestir, hefur stofnað nýjan samfélagsmiðil sem kallast Vivaldi.net, samkvæmt því sem fram kom á mbl.is í gær. Vefurinn hefur svipaða virkni og Facebook og aðrir álíka miðlar, en Jón segir að munurinn sé fyrst og fremst sá að Facebook leggi áherslu á að tengja notendur við sem flesta en Vivaldi geri það ekki. Þá sé ekki ætlunin að hagnast á vefnum með auglýsingum eða sölu persónuupplýsinga.

Í viðtali á vefnum Spyr.is segir Jón að það muni koma í ljós fljótlega hvernig tekjumódel vefsins verður, en hann vill ekki svara því hvort fleira sé væntanlegt frá Vivaldi á næstunni. Þá ver hann nokkrum tíma í að segja frá því hversu MyOpera-samfélagsmiðillinn var mikilvægur fyrir uppbyggingu Opera-fyrirtækisins, en nú hefur verið ákveðið að leggja hann af. Jón tekur þó fram að Vivaldi-vefurinn sé ekki einungis ætlaður fyrir notendur gamla MyOpera, heldur sé þetta möguleiki fyrir fjölbreyttan hóp notenda sem vilji samfélagsmiðil með minna áreiti. „Í dag er fólk að leita að samfélags- og bloggmiðlum sem ekki eru yfirfullir af auglýsingum eða nýta sér upplýsingar um notendur í markaðsskyni. Vivaldi.net er að mæta þessum notendum,“ segir Jón.

Jón hefur verið mjög áhugasamur um íslenskt frumkvöðlastarf síðustu árin, eins og margoft hefur komið fram og opnaði nýlega frumkvöðlasetrið á Eiðistorgi. Þá á hann fyrirtækið Greitt ehf. og hefur fjárfest í fyrirtækjunum Oz, Dohop, Smart Media, Arna og Spyr.