Kristján Hall
Kristján Hall
Eftir Kristján Hall: "Þykjast niðursetningarnir eiga einhvern rétt hér á Góða búinu?"

Þið skiluðuð góðu búi, þið segið það sjálf, en við, vinnufólkið á góða býlinu, höfðum þann lúxus einan að horfa á ykkur, fína fólkið í þinginu, gegn um sjónvarpið og hlusta á ykkur, stjórnvitringana, ausa af viskubrunni skynseminnar. Og þá vaknar spurningin: „Hvers vegna fyrirlítið þið okkur svona ?“

Nú, þegar við, sem lækkuðum í launum um helming eða jafnvel misstum vinnuna alveg ásamt því að sjá skuldir okkar vaxa yfir höfuð, og skattana hækka upp fyrir eyru, sjáum vonarneista kvikna í myrkrinu, einhvern sem vill bæta okkur að einhverju leyti þau áföll, sem við urðum fyrir, þá tryllist þú og þínir flokksfélagar og rifnið hreinlega á límingunum. „Þykjast niðursetningarnir eiga einhvern rétt hér á Góða búinu?“ Það vantar ekki rökin hjá ykkur gegn þessari ósvinnu. „Þetta fólk fer á eyðslufyllerí og verðbólgan gleypir okkur, við verðum að hafa vit fyrir þessum lýð sem kann ekkert með peninga að fara.“

Þið, sem allt vissuð, fenguð tvö ár til að búa samfélagið undir kreppuna, þið sögðuð að þetta yrði mjúk lending og séð yrði fyrir öllu. Síðan fenguð þið fjögur ár til enduruppbyggingar eftir mjúku lendinguna, þið fenguð að velja ykkur samstarfsflokk og voruð varin falli, gegn þremur loforðum – sem að sjálfsögðu voru svikin – og síðan fenguð þið fullt umboð í kosningunum. Þá fengum við orðið að ofan, sem minnti á borðbæn ráðsmannsins á munaðarleysingjahælinu hans Olivers Twist; „Það sem þið nú takið á móti, megi Guð gefa að þið verðið umvafin þakklæti.“

Já, við fengum það og ekki smátt skammtað. Ó, hvað við fengum það! Og við fengum þrjá skriflega samninga um kjarabætur fyrir milligöngu ASÍ og þið svikuð þá alla líka, þau einu sem fengu eitthvað í mallakútinn sinn voru litlu svöngu börnin í Brussel, að ógleymdum ríflega björguðum bönkum og sparisjóðum.

Helstu rök ykkar gegn leiðréttingu á skuldum heimilanna, sem þið höfðuð engan áhuga á þegar þið voruð í stjórn, eru þau að ef ekki fái allir skuldaleiðréttingu, þá megi enginn fá. Við þessum rökum vil ég segja það, að þegar góður vinur minn datt á hausinn um daginn, þá ók ég honum á slysavarðstofuna. Þar setti hjúkrunarkonan á hann plástur og kyssti hann á illtið. Ég fékk engan plástur og því síður koss og það eina sem ég fékk, var stöðumælasekt, því eins og Dagur B. segir: „Enginn má fara á slysavarðstofuna, án þess að fá stöðumælasekt.“ Samt var ég glaður yfir því að vinur minn fengi bót sinna meina.

Góða búið ykkar er undarleg samsetning gjaldþrota heilbrigðiskerfis, ólæsra unglinga, láglaunafólks, glæsilegra bankastofnana, sem þið standið svo dyggilega vörð um, og örvasa gamalmenna bundinna á klafa skulda, eða bara í rúmin sín.

Hvers vegna lítið þið svona niður á okkur?

Höfundur er atvinnulaus eftirlaunaþegi.