[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn og handrit Alexandre Coffre. Aðalhlutverk Valérie Bonneton, Dany Boon og Denis Ménochet. Gamanmynd. 92 mínútur. Frakkland 2013.

Þau Valérie (Valérie Bonneton) og Alain (Dany Boon), fráskilin hjón, eru á leið frá Frakklandi til Korfú í Grikklandi til að vera viðstödd brúðkaup dóttur sinnar Cécile (Bérangère McNeese) þegar gos í Eyjafjallajökli grípur inn í atburðarásina, því flugvélin sem þau eru í neyðist til að lenda í Þýskalandi. Eyjafjallajökull er þó ekki aðalvandamálið, heldur það að þau Valérie og Alain skildu í svo illu að þau hata hvort annað eins og pestina. Örlögin haga því þó svo að þau ferðast saman til Korfú með ýmsum farartækjum, nauðug viljug, og gengur á ýmsu, enda reyna þau að bregða fæti hvort fyrir annað eftir því sem færi gefst.

Dany Boon er afbragðsgamanleikari, en persónan Alain býður ekki upp á mikil tilþrif; óttalegur kjáni, velviljaður og góðhjartaður. Þegar hann reynir að klekkja á eiginkonu sinni fyrrverandi, sem hann gerir oftar en einu sinni, er það eiginlega á skjön við persónuna – maður trúir því ekki að slíkur og þvílíkur lúði geti verið svo slægur. Meira er aftur á móti spunnið í persónuna Valérie og Valérie Bonneton nær að gæða hana meira lífi, túlka hana sem kaldlynda töfrandi tæfu sem áhorfandi fær nánast óbeit á fyrstu mínútu myndarinnar, þó að hún komi öðru hvoru á óvart með manngæsku og skynsemi síðar í myndinni.

Helsti galli á myndinni er reyndar sá hve þau Alain og Valérie eru ósamstæð, maður trúir því varla að þau hafi getað náð svo saman að geta barn, að eins klár kona og Valérie skuli hafa fallið fyrir aulanum Alain, en annað eins hefur nú gerst.

Aðrir leikarar eru nánast statistar utan einn, Denis Ménochet, sem á stjörnuleik sem afturbatafjöldamorðinginn Ezéchiel þann stutta tíma sem leiðir hans og þeirra Valérie og Alain liggja saman. Á þeim kafla verður gamanið grárra og skemmtilegra fyrir vikið.

Eyjafjallajökull er hæfilega skemmtilegur hrakfallabálkur kryddaður með svörtum húmor. Víst er myndin fyrirsjáanleg en prýðileg dægrastytting þó.

Árni Matthíasson