Heimilið Hjónin Sveinbjörg Gunnarsdóttir og Heiðar P. Breiðfjörð búa í fallegri íbúð sem er á efri hæð hesthúss þeirra í Almannadal. Íbúðin er með sérinngangi. Á neðri hæðinni er tíu hesta hesthús, kaffistofa, hnakkageymsla og aðstaða fyrir heyrúllur og fleira. Engin lykt berst úr hesthúsinu upp í íbúðina.
Heimilið Hjónin Sveinbjörg Gunnarsdóttir og Heiðar P. Breiðfjörð búa í fallegri íbúð sem er á efri hæð hesthúss þeirra í Almannadal. Íbúðin er með sérinngangi. Á neðri hæðinni er tíu hesta hesthús, kaffistofa, hnakkageymsla og aðstaða fyrir heyrúllur og fleira. Engin lykt berst úr hesthúsinu upp í íbúðina. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Við eigum tvö fullkomin heimili en getum á hvorugum staðnum átt lögheimili,“ sagði Heiðar P. Breiðfjörð.

Viðtal

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Við eigum tvö fullkomin heimili en getum á hvorugum staðnum átt lögheimili,“ sagði Heiðar P. Breiðfjörð. Hann býr ásamt Sveinbjörgu Gunnarsdóttur, konu sinni, í íbúð sem er á rishæð hesthúss þeirra hjóna í Almannadal ofan við Reykjavík. Hitt heimilið er frístundahús með gesta húsi austur í sveit. Sú eign er á svæði sem er skipulagt fyrir frístundabyggð og þar má ekki heldur skrá lögheimili. Félag hesthúsaeigenda í Almannadal hefur óskað eftir því að skipulagsyfirvöld í Reykjavík heimili lögheimilisskráningu á efri hæð hesthúsa í Almannadal.

Heiðar og Sveinbjörg keyptu fokhelt hesthús með rishæð í Almannadal. Það er byggt samkvæmt nýjustu kröfum. Hjónin fluttu inn í íbúðina um áramótin 2012 og 2013. Íbúðin mælist vera um 70 fermetrar en gólfflöturinn er um 90 fermetrar. Á húsinu framanverðu er sérinngangur inn í íbúðina og er gengið upp stiga á efri hæðina. Þar hafa hjónin komið sér vel fyrir.

Gengið er inn í hesthúsið bakatil og þar er einnig gerði fyrir hestana. Hestarnir komu í húsið í apríl og maí í fyrra. Þar er rúm fyrir tíu hesta. Hesthúsið er mjög snyrtilegt og hestarnir una sér vel í rúmgóðum stíum. Innstu stíunni hefur verið breytt í kaffikrók. Taðið fer í safnstíu e ða gám. Ekki vottaði fyrir lykt úr hesthúsinu í íbúðinni, enda er lokað þar á milli. En hvers vegna ákváðu þau að flytja í hesthúsið?

„Við erum dýrafólk,“ sagði Sveinbjörg. Auk hesta eiga þau lassie-tík sem heitir Búska og áttu lengi kött. „Ég gæti ekki hugsað mér betra umhverfi. Það er bæði rólegt og svo er svo mikið líf hérna. Fólk að ríða út alla daga.“ Heiðar sagði að Sveinbjörg þekkti nú orðið flesta hestana í hverfinu með nafni og einnig reiðmennina. Þau hafa útsýni yfir Rauðhólana og Heiðmörkina til suðurs.

Hjónin segja það vera mjög þægilegt hvað stutt er í hesthúsið. Gegningarnar útheimta ekki neina bensíneyðslu. Þau bentu á að þetta væri mjög umhverfisvænt samanborið við að margir ækju tugi kílómetra tvisvar á dag til að fara í hesthús. Hestum á fóðrum er gefið tvisvar á dag og eins þarf að hleypa þeim út, kemba og hreyfa svo þeir hlaupi ekki í spik.

Vilja fá lögheimilisrétt

Heiðar og Sveinbjörg hafa barist fyrir því að geta skráð lögheimili sitt á efri hæð hesthússins. Þau sáu möguleika á að sameina tómstundaiðjuna og heimili þegar þau skoðuðu kaup á húsinu í Almannadal. Hjónin ræddu við skipulagsyfirvöld í Reykjavík haustið 2012 og fengu þau svör að þetta gæti verið sniðug lausn, en fengu ekki nein fyrirheit um að fá að skrá lögheimilið þarna. Umsókn þess efnis er nú til meðferðar í borgarkerfinu. Hjónin fá póstinn sinn í pósthólf og segjast ekki gera kröfur um meiri þjónustu en veitt er nú þegar í hverfinu fái þau lögheimili þar. Heiðar kvaðst telja að núgildandi reglur um skráningu lögheimila væru út í hött. Fólk ætti að geta átt lögheimili þar sem það svæfi! Hann benti á að allt í kring byggi fólk í húsum sem voru byggð sem sumarbústaðir. Svæðið væri ekki skipulagt sem frístundabyggð og því væri hægt að skrá lögheimili í þeim húsum.

Heiðar taldi hugmyndir Reykjavíkurborgar um hina nýju Vogabyggð við Elliðaár, þar sem blanda á saman búsetu og atvinnu, jákvæð merki um breytta hugsun í skipulagsmálum. Vel mætti hafa einhverja starfsemi á neðri hæðum og íbúðir á efri hæðum húsa eins og áformað væri í Vogabyggð. Hvers vegna ekki þá íbúð á efri hæð og hesthús á þeirri neðri? Öldum saman var búið í fjósbaðstofum þar sem fjósið var undir baðstofunni!

Heiðar telur að það muni greiða fyrir uppbyggingu hverfisins í Almannadal verði leyft að skrá lögheimili á efri hæðum hesthúsanna. Með því aukist lánshæfi húsanna og það muni hraða uppbyggingu hverfisins.

Nú býr fólk á efri hæð fjögurra hesthúsa í Almannadal. Hestar eru í mun fleiri húsum og rýmin á efri hæðunum notuð sem kaffistofur. „Borgin fær fullt af aurum þegar húsin verða fullbyggð,“ sagði Heiðar.

Íbúar auka á öryggið í hverfinu

Heiðar, Sveinbjörg og Bjarni Jónsson, formaður Félags hesthúsaeigenda í Almannadal, telja mikilvægt að fólk búi í hesthúsahverfinu.

„Við erum framverðir svo eru bakverðir þarna í innsta húsinu. Við fylgjumst með. Það voru innbrot áður en fólk flutti hingað,“ sagði Sveinbjörg. Bjarni taldi það auka á öryggið, yrðu óhöpp eða slys, að hafa fólk í hverfinu. Hann sagði að ekki hefði verið tilkynnt um nein innbrot síðan fólk flutti í hverfið. „Það var stanslaust brotist inn. Það var brotist átta sinnum inn í húsið mitt og stolið og skemmt fyrir yfir tvær milljónir.“

Bjarni sagði að heildartekjur borgarinnar á ári af hverfinu gætu verið um 35 milljónir króna af fasteigna- og fráveitugjöldum væri það fullbyggt. Nú séu árlegar tekjur borgarinnar um þrjár milljónir af húsum í byggingu. Borgin verði því af 30-32 milljóna árlegum tekjum miðað við óbreytta stöðu bygginga í Almannadal. Búið er að borga gatnagerðargjöld af öllum húsunum en framkvæmdir eru ekki byrjaðar við 37 hús sem skiptast í marga eignarhluta.

Bjarni kvaðst vera ánægður með þá þjónustu sem borgin veitir varðandi snjóhreinsun og hálkuvarnir í hverfinu.