Leifur Þorsteinsson ljósmyndari fæddist í Reykjavík 27. nóvember 1933. Hann lést á krabbameinsdeild LSH 28. desember 2013.

Útför Leifs fór fram frá Grafarvogskirkju 13. janúar 2014.

Mánudaginn 13. janúar var Leifur Þorsteinsson ljósmyndari borinn til grafar.

Leifur var formaður og sat í stjórnum Ljósmyndarafélags Íslands á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og gegndi ótal trúnaðarstörfum fyrir félagið.

Leifur var alla tíð í fararbroddi ljósmyndara á Íslandi og fjótur að tileinka sér nýjungar í faginu, ekki síst um síðustu aldamót þegar stafræn ljósmyndun tók við af filmunni, þegar menn þurftu að hafa sig alla við til að halda í við tæknina og var hann fyrirmynd sér yngri manna. Leifur hafði leiftrandi metnað fyrir menntun í ljósmyndun og var fánaberi fyrir hagsmuni ljósmyndara á Íslandi.

Í dag sjáum við á eftir miklum áhrifavaldi og einu af stóru nöfnunum í faginu sem mótaði ljósmyndun á 20. öldinni á Íslandi.

Leifur starfrækti um árabil ljósmyndaþjónustu í Hlíðunum fyrir ljósmyndara og voru það ávallt einhver heilræði sem fylgdu með þegar við ungu ljósmyndararnir komum að sækja filmurnar okkar úr framköllun.

Við félagar í Ljósmyndarafélagi Íslands kveðjum góðan félaga og þökkum fyrir óeigingjörn störf fyrir okkur öll.

Fyrir hönd Ljósmyndarafélags Íslands,

Lárus Karl

Ingason.

Ég kynntist Leifi Þorsteinssyni þegar ég var að læra ljósmyndun hjá Óla Páli Kristjánssyni árið 1965. Leifur var nýkominn úr námi í Danmörku, og kom hann oft í kaffi til Óla Páls. Aldrei hafði ég hitt mann sem mér fannst fróðari og sem hafði skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Oftast var það í mótsögn við það sem almennt viðgekkst. Um þetta leyti voru þeir Leifur og Ævar Jóhannesson að stofna Myndiðn, auglýsinga- og iðnaðarljósmyndun í Skipholtinu. Oft kom maður í Myndiðn eftir venjulegan vinnutíma og um helgar, en þar virtist manni vera unnið allan sólarhringinn. Oft fékk maður að aðstoða við eitt og annað. Ef Leifur bað mann um eitthvað var alltaf sagt meistari, gerðu þetta eða hitt. Þó að manni fyndist maður kannski ekki standa undir þessum titli tók maður þessu alltaf sem hóli þegar Leifur sagði þetta. Leifur var nefnilega lærimeistari. Seinna þegar ljósmyndakennsla hófst í Iðnskólanum var ekki um marga að velja sem kennara. Leifur kenndi nær öll fögin: efnafræði, eðlisfræði, linsufræði og ef maður var ekki upplagður fyrir þessi fög fór maður bara að tala um bíómyndir, bíla eða flugvélar, listir og arkitektúr. Leifur var inni í öllu og ekki alltaf erfitt að breyta tímanum í eitthvað annað.

Áhugi Leifs beindist að mörgu. Upphafalega fór hann til Danmerkur að læra efnafræði en sneri sér svo að ljósmyndun þar sem mikið reynir á efnafræði. Flugið átti hug hans allan um tíma og var hann með einkaflugmannsréttindi. En það var ljósmyndun sem Leifur unni mest af öllu. Haustið 2013 hélt hann sýningu á Reykjavíkurmyndum teknum þá um sumarið. Þegar ég kom á opnunina hafði ég orð á því við Leif að þetta væru bara gamlar myndir sem hann hefði tekið upp úr 1960 og ekki sýnt áður. Í þessum myndum var mikil ró og fegurð og virðing fyrir því liðna. Þetta var kannski frekar sýning um Leif Þorsteinsson en Reykjavík. Seinna um haustið þegar Leifur var kominn á spítala sat maður oft hjá honum og talaði við hann og svo skýr var hann í kollinum að oft gleymdi maður veikindum hans.

Síðast þegar ég kom til Leifs, þremur dögum áður en hann dó, fann ég hann í gestaherberginu með tveimur sonarsonum sínum. Hann sat í hjólastól með fartölvu og var að horfa á Piece of Cake, heimildarmynd um breska flugherinn og aðdragandann að fyrri heimsstyrjöldinni. Þarna sat Leifur og var að fræða ungu mennina um flugvélar og flugherinn. Ég man að hann sagði að það sem hefði komið verst niður á breska flughernum hefði verið stéttaskiptingin innan hersins. Leifur var húmoristi. Eitt sinn er ég kom í heimsókn fannst mér dálítið þröngt um hann í rúminu svo ég spurði hvort hann væri ekki í allt of litlu rúmi. Hann sagði: „Geiri, það er alls staðar skorið niður.“

Ég mun sakna vinar míns Leifs eins og svo margir aðrir úr mínum hópi.

Ég votta fjölskyldu hans, Rikku, Bjössa og Steina, samúð mína.

Sigurgeir

Sigurjónsson.