Guðrún Ösp Theodórsdóttir
Guðrún Ösp Theodórsdóttir
Eftir Guðrúnu Ösp Theodórsdóttur: "Gerðar eru tilraunir með smáskammtameðölum sem duga skammt og koma of seint."

Kæra heilbrigðiskerfi. Ég trúi því varla að þú sért fallið frá. Í raun er þó ekki hægt að segja það, þú ert eiginlega í dauðadái, viðhaldið af vægum tilraunum til að halda þér gangandi. Gerðar eru tilraunir með smáskammtameðölum sem duga skammt og koma of seint. Tilraunum sem þú mátt ekki við. Ég man þegar við rugluðum saman reytum okkar, hvað ég var vongóð, hvað þú varst aðdáunarverður máttarstólpi og fyrirmynd. Ég var svo stolt af því að vera meðlimur þinn, að fá að vera hluti af hjarta þínu, sem við starfsfólk þitt erum. Þú varst svo sterkt og lifandi þrátt fyrir stöðugt litla næringu og alúð. Þú varst sko að nálgast það að vera fremst meðal jafningja á svo mörgum sviðum, eins og ég segi, þrátt fyrir allt. Ég upplifði mig örugga í návist þinni og það var gaman að vera til. Í kjölfar veikinda systur þinnar, fjármálakerfisins, sem bæði voru af andlegum og líkamlegum toga, þá varð strax ljóst að þú myndir þurfa að líða fyrir þau veikindi. Þó að okkur, hjarta þínu, hefði aldrei dottið í hug að fjarlægja líffæri úr veikburða einstaklingi þá þótti þeim er stjórnuðu þér það ekkert tiltökumál. Þetta var víst nauðsynlegt. Við mótmæltum og létum þá vita að þetta væri röng stefna að taka í meðhöndlun þinni og ekki var víst að fórnarkostnaðurinn við að reyna að bjarga systur þinni væri forsvaranlegur. Þetta hefur satt að segja verið eins og að horfa á hægfara flugslys. Eftir röð niðurskurða, þar sem snitti af þér hér og þar hafa verið skorin af, stundum smátt og smátt en stundum stórir mikilvægir þættir í þinni tilvist, hefur þú nú fallið. Þú ert ekki lengur á góðri leið eða orðið fremst meðal jafningja. Þú hefur bæði stórskaddað hjarta og heili þinn hefur gjörsamlega aftengst restinni af líkamanum. Heilmikið af hjarta þínu hefur flúið þig. Við höfum hreinlega ekki verið metin að verðleikum, álag á okkur hefur sífellt aukist og eins og við vitum þá starfar slíkt hjarta ekki ýkja vel og gefst upp að lokum. En það er eins og heili þinn skilji ekki að án hjartans lifir hann ekki né restin af kerfinu. Hjartað heldur þessu öllu saman gangandi. Nú er sú tíð að líða. Nú erum við starfsfólk þitt, hjarta þitt, hætt að vera meðvirk. Við höfum sjálfsvirðingu og getum ekki meir. Hvíl í friði, ef þú getur, við erum að pæla í að sækja um hjá systur þinni, þar fær svona hjartans fólk bónusa og jólagjafir í verðlaun fyrir álagsstundir.

Deyr fé, deyja frændur, deyr fólk ... eða eitthvað þannig.

Blessuð sé minning íslenska heilbrigðiskerfisins.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur.