Ég ætla að spá því að Danir verji Evrópumeistaratitilinn í handknattleik karla á heimavelli sínum. Danska liðið hefur einfaldlega mestu breiddina og á svona sterku móti vegur það ansi mikið.
Ég ætla að spá því að Danir verji Evrópumeistaratitilinn í handknattleik karla á heimavelli sínum. Danska liðið hefur einfaldlega mestu breiddina og á svona sterku móti vegur það ansi mikið. Spánverjar og Frakkar gætu líka hampað gullinu en með stórskyttuna Mikkel Hansen og markvörðinn frábæra Niklas Landin í broddi fylkingar þá held ég það verði erfitt fyrir önnur lið að stöðva Danina í átt að gullinu.

Hvort sem Danir vinna Evrópumeistaratitilinn í þriðja sinn eða ekki er ljóst að Guðmundur Guðmundsson tekur við góðu búi af Ulrik Wilbek en Gummi tekur formlega við danska landsliðinu þann 1. júlí. Vissulega verður erfitt fyrir Guðmund að fylla skarð Wilbeks en Guðmundur hefur sýnt og sannað að hann er frábær þjálfari og ég hef fulla trú á að hann muni spjara sig með þá dönsku.

Ég vil nota tækifærið til að hrósa Einari Erni Jónssyni fyrir fagmannlegar sjónvarpslýsingar á leikjum Íslands á EM. Hins vegar hefur mér fundist EM-stofan svokallaða frekar litlaus. Það hefði mátt poppa hana meira upp, sýna frá gömlum leikjum og ræða við gamlar handboltahetjur.

Ég fylgdist með íslenska landsliðinu í knattspyrnu tapa fyrir Svíum í vináttuleik í Abu Dhabi. Ekki get ég sagt að neinn í íslenska liðinu hafi heillað mig en hafa ber í huga að leikmennirnir sem Ísland tefldi fram í þessum B-landsleik, eins og ég kýs að nefna hann, eru svo til nýbyrjaðir að æfa eftir frí og margir að spila saman í fyrsta sinn. Ég hefði samt viljað að þeir sem fengu að spreyta sig hefðu gefið meira af sér og gert alvöru tilraun til að banka á dyr A-landsliðsins.