Ný skoðanakönnun Gallup sýnir það sem ýmsa hefur grunað að fylgi Besta flokksins var að miklu leyti Jóni Gnarr að þakka. Nú virðist sem fylgi Besta flokksins ætli ekki að skila sér að fullu til Bjartrar framtíðar.

Ný skoðanakönnun Gallup sýnir það sem ýmsa hefur grunað að fylgi Besta flokksins var að miklu leyti Jóni Gnarr að þakka. Nú virðist sem fylgi Besta flokksins ætli ekki að skila sér að fullu til Bjartrar framtíðar. Maðurinn sem átti að vera arftaki Jóns Gnarrs, aðstoðarmaðurinn Björn Blöndal, hefur ekki persónufylgi borgarstjórans núverandi og fjölmargir hafa reyndar enga hugmynd um það hver hann er eða hvernig hann lítur út. Björn Blöndal þarf nauðsynlega að kynna sig fyrir borgarbúum og helst áður en kappræður fyrir borgarstjórnarkosningar hefjast. Það er ekki gott fyrir stjórnmálamann ef kjósendur vita fyrst af honum korteri fyrir kosningar.

Stór hluti kjósenda er þannig gerður að hann bindur ekki trúss sitt við einn ákveðinn flokk heldur er sveigjanlegur og færir sig óhikað á milli flokka. Þessi hópur virðist vera að færa sig frá Bjartri framtíð og yfir til Pírata en sá flokkur er óskrifað blað í borgarmálum, svona rétt eins og Besti flokkurinn var á sínum tíma. Þessir kjósendur eru greinilega tilbúnir að prófa eitthvað nýtt og frumlegt og vilja kjósa öðruvísi en venjan er. Í hugum þeirra er samruni Besta flokksins við Bjarta framtíð ekki lokkandi. Samfylkingin og Vinstri grænir eru of ráðsettir flokkar fyrir þennan hóp og Sjálfstæðisflokkurinn síðan alltof stofnanalegur og hægri sinnaður.

Stjórnmálaflokkar sækjast eftir áhrifum og völdum. Það gerir Sjálfstæðisflokkurinn svo sannarlega og Samfylkingin er líka afar upptekin af stærð sinni eða réttara sagt stærðarleysi. Flokkurinn lét sig dreyma glæsta stórveldisdrauma um hlutverk sitt í íslenskri pólitík en fór að hagræða stefnu sinni í takt við öfgafulla stefnu Vinstri grænna og glataði um leið erindi sínu. Staða Samfylkingarinnar í borginni er ekki góð samkvæmt þessari nýjustu Gallup-könnun og mun ekki styrkjast fyrr en flokkurinn verður stærri en Björt framtíð. Það væri beinlínis auðmýkjandi fyrir Samfylkinguna að vera komin upp á og miskunn Bjartrar framtíðar eftir næstu borgarstjórnarkosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn getur verið sáttur við þessa síðustu skoðanakönnun því samkvæmt henni er hann stærsti flokkurinn í borginni, þótt ekki hafi hann enn náð fyrri styrk. Sjálfstæðisflokknum hefur stundum verið talið það til tekna að þar geti menn staðið saman út á við þrátt fyrir innbyrðis ósamkomulag, en ekki verður séð að sú regla eigi við nú þegar sjálfstæðismenn sem fylgt hafa flokknum í áratugi lýsa yfir efasemdum um forystuna og segjast ekki sjá af hverju borgarbúar eigi að kjósa flokkinn. Ef innvígðir og innmúraðir sjálfstæðismenn hafa ekki trú á forystu flokksins í borginni af hverju ættu aðrir þá að hafa það? Það verður erfitt fyrir borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins að sigra hjörtu þeirra innvígðu og innmúruðu ekki síður en hjörtu borgarbúa. Það stefnir í spennandi kosningar. kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir