Steinar Aubertsson fæddist í Reykjavík hinn 10. maí 1983. Hann lést 9. nóvember 2013.

Foreldrar hans eru Margrét S. Ísleifsdóttir, f. 20.10. 1953, og Aubert S.J. Högnason, f. 19.4. 1948. Systkini Steinars eru Guðmar Aubertsson dýralæknir, f. 19.12. 1974, kvæntur Jakobínu Agnesi Valsdóttur, f. 25.2. 1978. Þau eiga fjóra syni, þá Ómar Högna, f. 3.6. 1998, Smára Val, f. 15.12. 2000, Grétar Jóhann, f. 26.6. 2002, og Jakob Agnar, f. 29.3. 2013. Birna Aubertsdóttir sjúkraþjálfari, f. 4.2. 1977. Hennar maður er Óttarr Hrafnkelsson, f. 26.1. 1967. Þau eiga þrjá syni, þá Breka Þór, f. 2.8. 2004, Jökul Frey, f. 25.12. 2006, og Arnar Ægi, f. 26.7. 2011. Anný Tinna Aubertsdóttir háskólanemi, f. 14.1. 1993.

Unnusta Steinars var Sigríður Sunna Atladóttir, f. 4.7. 1988.

Steinar ólst upp í Kópavogi og lauk grunnskólaprófi frá Digranesskóla árið 1998. Byrjaði í Iðnskólanum í Reykjavík en hætti þar. Starfaði af og til hjá föður sínum við vélavinnu, eitt sumar í byggingarvinnu og um tíma hjá Margmiðlun. Steinar háði langvinna baráttu við fíkniefni en átti góð tímabil inn á milli og naut þess þá að vera með fjölskyldu og vinum. Steinar lærði snemma að tefla og var virkur í því bæði hjá Taflfélagi Kópavogs og í grunnskólanum. Hann var Íslandsmeistari með sinni sveit og keppti á Norðurlandamóti í skák í Danmörku. Steinar stundaði fallhlífarstökk hérlendis og erlendis sem og mótorkross.

Útför Steinars fór fram frá Digraneskirkju hinn 20. nóvember 2013.

Elskulegur sonur okkar lést hinn 9. nóvember síðastliðinn. Upp í hugann koma ótalmargar minningar. Steinar var einstakur karakter. Hann var mjög fylginn sér og ákveðinn strax í æsku, stóð fast á sínum skoðunum. Steinar var hreinn og beinn og passaði vel upp á vini sína og frændsystkini. Hann var barngóður, vel gefinn, atorkusamur, húmoristi, orðheppinn og mikill karakter sem gaf mikið af sér. Hann var mikill vinur vina sinna.

Steinar háði harða baráttu við fíkniefni, sem héldu honum í heljargreipum langtímum saman. Inn á milli átti Steinar þó góð tímabil og naut þess þá að vera með fjölskyldu sinni og vinum. Það lýsir Steinari og þeim dyggðum sem hann var gæddur að þrátt fyrir harðvítuga baráttu við fíknina missti hann aldrei tengsl við fjölskyldu og vini. Sem dæmi um atorkusemi hans var að þegar ákveðið var að byggja sumarhús sagði hann: „Við Héðinn getum gert það.“ Sem þeir og gerðu af mikilli vandvirkni. Sumarbústaðurinn varð hans eftirlætisstaður þar sem hann gat slakað á og sinnt áhugamálum sínum sem voru fjölmörg.

Ótal góðar minningar sækja á hugann. Öll símtölin sem þú byrjaðir alltaf með orðunum: „Hvað segirðu? Ertu ekki hress?“

Elsku Steinar, við söknum þín svo mikið.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Hvíldu í Guðs friði, elsku drengurinn okkar.

Mamma og pabbi.

Ég gái út um gluggann minn

hvort gangir þú um hliðið inn.

Mér alltaf sýnist ég sjái þig.

Ég rýni út um rifurnar.

Ég reyndar sé þig alls staðar.

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Þú fórst alltof fljótt úr þessum heimi elsku bróðir minn.

Ég sakna þín á hverjum degi. Stundum lít ég á símann til að gá hvort þú hafir hringt. Þú gerðir það líka reglulega, bara til að heyra í mér hljóðið og ef mér leið ekki nógu vel þá varst þú fljótur að stappa í mig stálinu. Því þannig varst þú nefnilega, þú máttir ekkert aumt sjá.

Ég minnist þeirra fjölmörgu bíóferða sem við fórum saman, og að sjálfsögðu í lúxussal þar sem þú svo sofnaðir gjarnan. Þú varst mikill nautnamaður og vildir alltaf hafa það kósí í kringum þig, enda þurfti lítið til að gleðja þig. Aðeins góða mynd í tækið og eitthvað ljúffengt að borða með.

Ég hefði ekki getað beðið um betri stóra bróður með svo stórt hjarta úr gulli. Þótt þessar minningar séu sárar núna held ég samt fast í þær því mér þykir svo óskaplega vænt um þær og þær hlýja mér um mínar dýpstu hjartarætur.

Þín litla systir,

Anný Tinna.

Þann 10. maí árið 1983 eignaðist ég lítinn bróður, hann Steinar minn. Þá var ég 6 ára hnáta og tilbúin að láta reyna á hæfileika mína sem stóra systir. Þrátt fyrir að hafa fengið ágætan undirbúningstíma og verið í startholunum allan meðgöngutímann, vaggað brúðu og skipt á bleyjum, komst ég fljótt að því að ég mátti hafa mig alla við.

Þú varst strax ákaflega bráðger drengur, kröftugur með eindæmum, ákveðinn, uppátækjasamur og fjörugur.

Þú varst ekki nema rétt þriggja ára þegar þú fannst út hvernig þú gast opnað hliðið á gæsluvellinum, alveg sjálfur. Þú beiðst færis og um leið og fóstran með kústinn lagði hann frá sér greipst þú hann og opnaðir hliðið með kústskaftinu. Ég gleymi því ekki þegar þú svo hringdir dyrabjöllunni – með kústskaftinu og sagðir: ,,Hæ, detta er Deinar.“

Og svo var það þegar mamma sótti þig til dagmömmunnar. Þú stökkst af stað á undan henni. Skelltir þér í bílstjórasætið, skelltir aftur hurðinni og smelltir í lás. Sigrihrósandi brostir þú glaðhlakkalega til mömmu sem bað þig fagurlega um að opna. En nei, núna var tækifærið. Að prófa græjuna enda búinn að fylgjast með öðrum gera þetta aftur og aftur. Og viti menn, lyklinum var snúið, gírstöngin hrist til og handbremsan tekin af... til allrar lukku rann bíllinn rólega í næsta garð þar sem hann staðnæmdist. Þetta kostaði helgarvinnu í girðingarsmíði hjá pabba en lítill drengur var ánægður og stoltur með fyrsta bíltúrinn sinn, alveg sjálfur.

Takkakarl varstu. Það skipti ekki máli hvort það var tölva, sími, talstöð, hljómflutningsgræjur, miðstöð eða bara barnalæsingin í bílnum. Allir takkar voru áhugaverðir því allir takkar hafa sinn tilgang. Stundum kemur vel út að ýta á tiltekna takka en stundum ekki. Þú varst alltaf til í að taka sénsinn. Því mun ég aldrei gleyma þegar þið feðgar fóruð í bíltúr um árið, þú þá milli 3 og 4 ára gamall. Þegar þú settist í bílinn ákvaðst þú að ráðast til atlögu á hurðina og þegar pabbi renndi úr hlaði sá hann glitta í þig í baksýnisspeglinum. Þó ekki sitjandi í aftursætinu heldur liggjandi á götunni. Þú hafðir nefnilega náð að opna dyrnar á bílnum og um leið og pabbi tók beygju rúllaðir þú út úr honum. Bíltúrinn breyttist í algjöra martröð fyrir pabba en þú komst alsæll heim með stærðarinnar sælgætispoka í fanginu. Vá, það var ekki laust við að örlaði á smá afbrýðisemi hjá minni enda nammi ekki auðfengin munaðarvara í þá dagana.

Og ákveðinn varstu, fórst þínu fram og fékkst þínu fram. Hver hefði getað trúað því að hægt væri að hnika til áratuga hefð móðurfjölskyldunnar sem hafði ætíð gefið vandaðan skrifborðsstól í fermingargjöf? Þú, elsku vinur, bara þú gast breytt skrifborðsstólnum í Lazy-boy-stól.

Sem stóra systir fékk ég að hugsa um þig, passa þig sem lítinn dreng, klippa neglurnar, bera á exemið, pússa gleraugun. Og þegar árin færðust yfir að keppa við þig í borðtennis, púkki, körfubolta og alls kyns spilum. Þú varst ákaflega fljótur að ná hlutunum, keppnismaður, og þrátt fyrir aldursmuninn þurfti ég að hafa mig alla við.

Elsku Steinar minn, það að vera stóra systir þín var í senn yndislegt og lærdómsríkt. Ég kveð þig nú með sorg í hjarta, elsku vinur, og ég veit að góður Guð geymir þig.

Þín systir,

Birna.

Elskulegur bróðir minn og vinur lést á fangelsinu á Litla-Hrauni í nóvember síðastliðnum. Eftir situr áfallið, úrræðaleysið og reiðin sem ég og allir þeir sem nákomnir honum voru þurfa að vinna með og vinna úr hver fyrir sig. Áleitnar spurningar eins og hvers vegna, hvernig getur þetta komið fyrir, þetta er ekki sanngjarnt, ekki rétt og hverju eða hverjum er um að kenna, leita á hugann. Við þessum spurningum fást að öllum líkindum engin svör en eftir situr sár missir en einnig minning, minning um góðan dreng.

En hvaða mann hafði Steinar að geyma, hvaða orð koma upp í hugann þegar maður hugsar til hans? Orð eins og léttlyndur og kátur, örlátur, barngóður og vinur vina sinna eru orð sem fyrst koma upp í huga minn.

Steinar var mjög kátur og hress. Alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt ekki bara fyrir sjálfan sig heldur eitthvað sem hann taldi og vissi að myndi skemmta öðrum. Gott dæmi um það er að þegar við hjónin fórum að nálgast Reykjavík þá byrjuðu synir mínir alltaf að spyrja um hvort þeir myndu ekki örugglega hitta Steinar í þessari bæjarferð og ef svarið var nei þá leyndu vonbrigðin sér ekki. Ástæðan var sú að Steinar var alltaf tilbúinn að gera eitthvað með þeim sem þeim þótti og þykir skemmtilegt. Hvort sem það var að spila tölvuleiki,fara í gokart, keyra um á mótorhjóli eða fara á skyndibitastaði til að nefna eitthvað, svo ekki sé minnst á ófáar ferðir í bíó sem þeir frændurnir fóru saman. Sérstaklega minnisstæð er mótorhjólaferð sem við feðgarnir fórum með Steinari og Sunnu unnustu hans síðastliðið sumar um syðra Fjallabak og það stóð til að fara aðra slíka næsta sumar. Við bræðurnir vorum búnir að ákveða það nokkrum dögum áður en hann dó. Fjölskyldan var Steinari mikils virði og hann vildi allt fyrir hana gera sem hann gat og gerði allt sem hann gat fyrir hana.

Mér er minnisstætt frá því að Steinar var barn að hann var mjög snemma mikill persónuleiki. Hann var mjög sjálfstæður og vissi hvað hann vildi. Hann lét ekki nokkurn hafa áhrif á það og lét engan stjórna sér. Þannig lifði hann má segja sínu lífi. Gerði það sem hann vildi þegar hann vildi og hafði engar áhyggjur af því hvað öðrum þótti um það. Svona er í mínum huga Steinari rétt lýst en á sama tíma mátti hann ekkert aumt sjá.

Það er með sorg í hjarta sem ég kveð þig, Steinar minn, og ég veit að góður Guð geymir þig. Þinn bróðir.

Guðmar.

Núna enn, sex vikum eftir fráfall þitt, trúi ég ekki að þú sért farinn frá okkur. Áföllin fylgja lífinu en þetta er það erfiðasta sem ég hef upplifað, að kveðja þig langt fyrir aldur fram. Mér fannst þú vera ósigrandi. Ég hélt alltaf að við yrðum gamlir saman. En sama hvað þú tókst þér fyrir hendur hafðirðu alltaf yfirburði á þínum sviðum. Einstaklega sterkur karakter, hrikalega skarpur, hafðir gífurlega leiðtogahæfileika en umfram allt hugsaðirðu svo vel um þitt fólk og væntumþykjan leyndi sér aldrei.

Þú æfðir ekki í eitt og hálft ár en pumpaðir samt 160 kg í bekknum, vannst stórmeistara í skák og varst allra besti vinur og frændi sem hægt var að hugsa sér. Með alla þessa hæfileika hefðirðu getað orðið hvað sem þú vildir. Stærra hjarta hef ég ekki séð. Ég var búinn að sjá okkur frændurna fyrir mér fram á elliár að brasa eitthvað saman. Við töluðum um að stofna lítið fyrirtæki þar sem við félagarnir gætum verið saman fram eftir degi og haft eitthvað fyrir stafni. Þar lá framtíðin fyrir mér. Ég, þú og félagarnir saman. Þú varst ótrúleg félagsvera og merkilegt hversu margir kölluðu þig bróður sinn á einhverjum tímapunkti, þar á meðal ég. Einstakur karakter, einstök sál, einstakur vinur og frændi.

Alltaf þegar eitthvað bjátaði á hjá mér varst þú til staðar. Stappaðir í mann stálinu og hugsaðir um mann. Stundum var eins og þú værir stóri frændi minn en ekki öfugt. Ef þurfti lástu á bjöllunni og barðir á alla glugga þar til það var svarað, svo mikil var umhyggja þín til þeirra sem þér þótti vænt um. Ég mun líklega aldrei jafna mig á fráfalli þínu Steini minn, ég og börnin mín munu alltaf sakna þín. Þú heimsækir mig þó reglulega enn í draumum mínum og mér þykir alltaf jafngaman að sjá þig.

Það voru alger forréttindi að fá að þekkja þig og einstök upplifun. Ég skulda þér svo mikið, elsku frændi.

Brynjar Unnsteinsson.

Elsku hjartans frændi minn. Hver hefði getað trúað því að ég væri að kveðja þig í síðasta sinn? Ég er svo þakklát í hjarta mínu fyrir allt spjallið okkar, það er mér svo dýrmætt. Það var alltaf stutt í grínið hjá þér enda ofsalega skemmtilegur. Við grínuðumst mikið og gerðum gott úr öllu saman. Þig langaði svo að mennta þig og varst svo ánægður og spenntur fyrir náminu sem ég fór í. Ég veit að þú átt eftir að fylgjast með og segja mér til þegar ég fer að innrétta og gera fínt.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku hjartans Aubi, Magga, Sunna, Gummi, Birna, Anný Tinna, og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur á sorgarstund. Góður guð styrki ykkur og leiði.

Elsku Steinar minn, þín verður sárt saknað, en minning um góðan dreng lifir í hjarta mér. Með þessum orðum kveð ég þig. Takk fyrir allt, elsku frændi, sofðu rótt. Þín elskandi frænka að eilífu,

Guðrún Ósk Hermansen.

Ég kveð Steinar Aubertsson vin minn með söknuði. Við Steini kynntumst þegar við vorum skólabræður í grunnskóla, hann var árinu eldri og reyndist hann mér vel í gegnum unglingadeildina í skólanum. Þar man ég eftir hans sterka persónuleika og hreinskilni en hann lét engan vaða yfir sig né aðra sem áttu það ekki skilið.

Leiðir okkar lágu saman aftur 10 árum eftir grunnskóla, í gegnum sameiginlegan vin. Við höfðum farið mjög ólíkar leiðir í gegnum lífið frá grunnskóla en það var kannski ástæðan fyrir að við náðum vel saman, við gátum miðlað af reynslu okkar úr ólíkum heimum. Steini hafði lifað hratt og barist við áfengi og fíkniefni árin eftir grunnskóla en þegar leiðir okkar lágu saman aftur var hann kominn á beinu brautina í lífinu og hafði losnað undan fjötrum fíknarinnar. Steini hafði jákvæð áhrif á vini sína varðandi heilsu og mat, og vildi yfirleitt borða hollan og góðan mat sem var í miklum gæðum og smitaði það út frá sér. Hann pældi mikið í að hafa hlutina í miklum gæðum sama hvort það var matur eða þegar horft var á kvikmyndir eða fótboltaleiki.

Steini bjó yfir mjög skemmtilegum eiginleikum í mannlegum samskiptum, hann var ófeiminn og komst maður oft í gott skap við að tala við hann í síma, hann var hvetjandi og hrósaði vinum sínum mikið þegar gekk vel hjá þeim í vinnu eða námi. Hann benti vinum sínum á góðu hlutina í lífi þeirra.

Kvikmyndir, tónlist og fótbolti voru í uppáhaldi hjá Steina, Steini talaði ekki oft um hvað hann ætlaði sér í framtíðinni en hann nefndi oftar en einu sinni að hann hefði áhuga á fara í nám tengt kvikmyndum.

Steinar var tryggur, vinur vina sinna, ósérhlífinn, vildi leysa hvers manns vanda og höfðingi heim að sækja. Þannig minnist ég þessa góða drengs sem var góður og traustur vinur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Hvíl í friði, kæri Steini. Þinn vinur.

Guðmundur.

Ég minnist Steinars fyrst þegar við vorum krakkar að tefla saman í taflfélagi grunnskólans okkar. Hann var mjög góður taflmaður og stundum óþolandi glott á honum þegar maður telfdi við hann en „priceless“ einbeitingarsvipur sem kom á hann þegar manni tókst að halda í við hann.

Hann var einu ári eldri en ég og lágu leiðir okkar aftur saman eftir grunnskóla í Iðnskólanum í Reykjavík. Þar sem ég var nýbyrjaður að læra húsasmíði og fjölskylda Steinars hugðist smíða sér sumarbústað þá var hann fljótur að ákveða það að ég og hann gætum bara gert það. Það gæti ekki verið svo mikið mál að byggja eitt hús þrátt fyrir að hafa ekki gert það áður. Sem við svo gerðum og vorum stoltir af. Þetta er aðeins eitt dæmi sem lýsir þeim krafti sem bjó í honum og þeirri trú sem hann hafði á sjálfum sér og á því sem hann hugðist taka sér fyrir hendur. Á þeim tíma myndaðist góð vinátta með okkur sem varðveittist alla tíð þrátt fyrir að áhugamál okkar og sú braut sem við fetuðum í lífinu væri ólík.

Það var alltaf gaman að vera í kringum Steinar. Hann var hress og kátur með smitandi hlátur sem heyrðist langar leiðir. Hann var svo skemmtilegur karakter og engum líkur. Í hvert skipti sem við vörðum tíma saman, hvort sem það var í vinnu eða að hanga saman, þá voru alltaf einhverjar nýjar og skemmtilegar pælingar í gangi hjá honum.

Hann vildi hafa gott fólk í kringum sig og skipti hann miklu máli að því liði vel. Var alltaf tilbúinn að aðstoða vini sína og stappa í þá stálinu. „Þetta er ekkert mál fyrir þig, vertu bara hress, þú ferð létt með þetta,“ sagði hann alltaf við mig þegar ég var í vafa með eitthvað og eins og hann sagði það þá trúði maður því.

Það var einhver aukaorka sem fylgdi honum og átti hann auðvelt með að deila henni með sér og drífa aðra áfram. Hann hefði verið flottur hershöfðingi á tímum rómverska heimsveldisins.

Hvíldu í friði, elsku vinur, þín verður sárt saknað.

Þinn vinur,

Héðinn.

Elsku Steini hinn eini. Ég gleymi aldrei þegar ég hitti þig fyrst þegar þú komst heim. Þú hlóst eins og brjálæðingur og einhvern veginn þótti mér strax vænt um þig. Að hafa orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast þér, elsku Steini, eru forréttindi. Að hugsa um öll uppátækin og allt sem við höfum gert saman gefur mér hlýju í hjartað. Því hvað er þetta líf annað en minningar og draumar? Þú gafst sko örlátlega af því. Mér fannst magnað að hlusta á þig tala um fjölskylduna þína og vini. Að heyra hvað þú varst stoltur af þeim sem þér þótti vænt um lýsir þér best. Alltaf þegar eitthvað bjátaði á í mínu lífi varstu kominn til að spyrja hvað þú gætir gert til að mér liði betur.

Á svona stundu er svo fátt sem maður getur sagt og maður skilur lífið bara alls ekki. Í stað þess að reyna að skilja eitthvað sem verður aldrei skilgreint kýs ég að halda í góðu minningarnar um þig.

Steini, þú átt engan þinn líka. Þó svo að skarðið sem þú skilur eftir sé stórt ertu samt búinn að gefa svo mikið af fallegum og góðum minningum sem sitja eftir og gefa þessu öllu gildi. Horfandi til baka minnir þú mig líka á, elsku Steini, að vera þakklátur fyrir það sem ég hef fengið að upplifa og sjá, því sannarlega er það ekki sjálfgefið. Það var sannur heiður að fá að deila með þér lífinu, Steini minn.

Leiðir okkar lágu saman í þessu lífi, Steini, en þar látum við ekki við sitja. Því trú þín á himnaföðurinn hefur núna gefið þér byr undir báða vængi og þú flýgur frjáls um himininn. Þar er engin þörf á fallhlíf heldur bara frelsi. Leiðir okkar munu því liggja aftur saman og bíð ég þess fundar fullur eftirvæntingar.

Þín síðustu orð til mín, þegar ég var að segja þér frá kaflaskiptum í lífi mínu, voru svo mögnuð og lýsa þér svo vel: „Bara að þú sért hamingjusamur, Baldur minn, það er nóg fyrir mig.“

Glettinn drengur áfram drífur

dugmikill elsku Steinar var.

Elsku Steinar nú á himni svífur

sigurdrengur af öðrum bar.

„Dýrmæt vinátta er ekki byggð á útréttri hendi, eða vingjarnlegu brosi, né af gleði í návist vinar; hún er andlegur innblástur: sem kemur þegar einhver uppgötvar að það sé trúað á hann og treyst.“

(Ralph Waldo Emerson. Þýð. BFE)

Baldur Freyr Einarsson.

Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég fyrst hitti Steinar Aubertsson. Það var daginn sem ég og fjölskylda mín fluttum í Hjallahverfið í Kópavogi, en það hverfi var þá rétt að fara af stað sem byggingarland, ég var sjö ára gamall og Steinar tveimur árum yngri. Hann kallaði til mín út um eldhúsgluggann og stuttu seinna vorum við farnir að leika og urðum óaðskiljanlegir bestu vinir upp frá því. Við Steinar vorum heimagangar hvor hjá öðrum öll uppvaxtarárin. Á hverjum laugardagsmorgni hlupum við stóri bróðir minn yfir til Steinars að horfa á „Með afa“ í barnatímanum á stöð 2. Mörg aðfangadagskvöld kíkti Steinar yfir til mín og við bárum saman gjafirnar sem við höfðum fengið fyrr um kvöldið. Síðar meir þegar við vorum orðnir eldri og komnir með bílpróf fórum við á árlegan aðfangadagskvöldsrúnt niður Laugaveginn bara til þess að sjá hvað bærinn var tómlegur. Þetta eru ljúfar minningar sem hugurinn leitar ósjálfrátt í nú eftir að Steinar er fallinn frá. Honum Steinari er best lýst sem góðum dreng með stórt gullhjarta. Hann hugsaði ávallt um náungann og vildi öllum gott gera, sérstaklega þeim sem minna máttu sín. Steinar var besti vinur minn og við studdum ávallt hvor við annan. Við höfum alltaf haldið í vináttuna því við vorum nánast eins og bræður þegar við vorum að alast upp og mín fjölskylda hefur ávallt litið á Steinar sem einn af okkur.

Ég vil þakka Steinari samfylgdina og sendi foreldrum hans og systkinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Úlfar Þórðarson.