Birgir segir Þoran hafa fengið ýmsa aðstoð sem gagnast hafi fyrirtækinu mjög vel. Í gegnum frumkvöðlasamkeppnir Arionbanka og Landsbankans fékk sprotafyrirtækið t.d. bæði innspýtingu fjármagns og faglega ráðgjöf.

Birgir segir Þoran hafa fengið ýmsa aðstoð sem gagnast hafi fyrirtækinu mjög vel. Í gegnum frumkvöðlasamkeppnir Arionbanka og Landsbankans fékk sprotafyrirtækið t.d. bæði innspýtingu fjármagns og faglega ráðgjöf. Þá hafa einstaklingar víða í atvinnulífinu verið boðnir og búnir að miðla af reynslu sinni og reyna að greiða fyrir viðskiptahugmyndinni.

Ein stærsta hindrunin fyrir sprotafyrirtæki eins og Þoran segir Birgir að séu háir skattar og gjöld á áfengi. „Þessi háu gjöld standa okkur fyrir þrifum á margan hátt. Kannski er orðið tímabært að stjórnvöld leiti leiða til að létta gjöldum af íslenskum framleiðendum og liðki þannig fyrir uppbyggingu í greininni. Ekki má gleyma að mörg þessara fyrirtækja einblína á útflutning sem – ef fyrirtækin fá svigrúm til að dafna – gæti vegið upp á móti tekjutapi ríkisins af lækkuðum áfengisgjöldum, skapað störf og aukið hróður Íslands erlendis.“

Þoran er nú að leita að fleiri fjárfestum. „Okkur langar m.a. til að búa til n.k. „hringborð viskíunnenda“ og hugsum okkur að bjóða 1% eignarhlut fyrir ákveðið fjárframlag, sem um leið veitir tækifæri til að taka þátt í að móta vöruna og eiga hlutdeild í því hvernig bragð og einkenni viskíið okkar mun taka á sig.“