Ingibjörg Magnúsdóttir fæddist í Miklaholti á Snæfellsnesi 17. apríl 1929. Hún lést á lungnadeild Landspítalans að morgni nýársdags.

Útför Ingibjargar fór fram frá Dómkirkjunni 13. janúar 2014.

Ingibjörg Magnúsdóttir er nú horfin á braut, yndisleg kona sem ég í bernsku minni dáðist að og var mér fyrirmynd. Margar góðar minningar á ég sem tengjast henni.

Þegar ég var að alast upp í Hvammsbrekku og Geitagerði kynntist ég Kristínu dóttur hennar sem kom í sveit á sumrin til ömmu sinnar og afa á Mel. Við urðum góðar vinkonur og lékum okkur mikið saman, alveg frá því að renna okkur á rassinum niður leirskriðurnar í Melsgili, mömmu minni og ömmu Kristínar til lítillar gleði og svo var mikið laumupukur þegar við vorum að stela hrossakjöti heima hjá mér sem okkur þótti afskaplega gott.

Með fjölskyldunni komu náttúrlega ferskir vindar úr höfuðborginni og ég man að mér fannst Ingibjörg alltaf svo falleg og glæsileg en samt svo laus við að vera einhver pempía, því að þegar hún var komin í sveitina til tengdaforeldra sinna þá gekk hún í heyskapinn og annað sem þurfti að gera af miklum krafti. Hún virkaði alltaf á mig sem svo hreinskiptin manneskja og laus við alla tilgerð þó að hún væri gift alþingismanni og síðar ráðherrafrú.

Minnisstæð tímamót í sveitinni voru þegar mamma kom einhverju sinni til ömmu Kristínar, Ingibjargar á Mel. Þá var þar kominn inn í eldhús þessi líka forláta ísskápur og móðir mín segir að bragði að svona grip verði hún að fá. Ingibjörg á Mel segist bara mundu tala við Ingibjörgu tengdadóttur sína hvort hún gæti ekki útvegað henni einn slíkan að sunnan. Ekki leið á löngu þar til hún var búin að redda ísskáp inn á gólf í Geitagerði. Svona var hún, ekkert að tvínóna við hlutina.

Alveg frá fyrstu kynnum var Ingibjörg mér alveg einstaklega góð og eiginlega tók mig undir sinn verndarvæng, sveitastelpuna. Hún bauð mér að búa hjá þeim hjónum þegar ég þurfti að fara til Reykjavíkur, þar sem Kristín leiddi mig í allan sannleika um borgarlífið, í minni fyrstu ferð. Fór m.a. með mér í innkaupaleiðangur að kaupa níðþröngar stretsbuxur og vatteraða úlpu sem var mjög töff á þeim tíma fyrir 11 ára stelpu, sem vildi vera meðvituð um tískuna.

Það var gott að leita til Ingibjargar og hún talaði við mann eins og jafningja og vinkonu. Við Kristín gátum meira að segja sagt henni hvaða strákum við vorum skotnar í, í það og það skiptið. Hún hvatti mig til að fara í skóla og læra, sem var ekki svo sjálfsagt úti á landi þá, fólk fór bara að vinna eftir skyldunámið.

Ég er þakklát fyrir hana Kristínu vinkonu mína og þar af leiðandi að hafa kynnst Ingibjörgu og hennar ástríku fjölskyldu og að hafa átt hana að sem barn og unglingur. Ég minnist hennar með einlægri ástúð og virðingu.

Guðrún Jónsdóttir.