Unnur Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 23. júní 1931. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 6. janúar 2014.

Útför Unnar fór fram frá kirkju Óháða safnaðarins 16. janúar 2014.

Mig langar að kveðja elsku Unni, föðursystur mína, með nokkrum orðum. Unnur var mér meira en frænka, hún var mér svo óendanlega kær. Ég þekkti ekki ömmu mína og gekk Unnur mér í ömmustað. Það var mikill samgangur milli fjölskyldu minnar og Unnar. Upp í hugann koma veiðiferðir, afmæli, gamlárskvöld og margar aðrar skemmtilegar stundir. Þau voru ófá skiptin sem ég gisti hjá Unni og Alla á Snorrabrautinni og í Lálandinu og það skemmtilegasta sem ég gerði var að fá að strauja handklæði fyrir Unni sem ég fékk auðvitað að gera og svo drakk ég te með Alla. Þetta eru óendanlega dýrmætar minningar sem gott er að ylja sér við. Eftir að ég eignaðist sjálf börn var Unnur þeim alltaf eins og amma og var hún eldri dóttur minni mjög kær. Það var alltaf gott að koma til Unnar og sitja í eldhúsinu og spjalla og jafnvel að grípa í púsl með henni. Ég kveð elskulegu frænku mína með tár í augum og minnist alls þess sem hún gerði fyrir mig. Elsku Alli, Axel, Hermann, Þórunn og fjölskylda, ég bið góðan Guð að hugga okkur öll í þessari sorg. Það er erfitt að fylla það skarð sem nú er komið í fjölskylduna.

Megi gæfan þig geyma,

megi Guð þér færa sigurlag.

Megi sól lýsa þína leið,

megi ljós þitt skína sérhvern dag.

Og bænar bið ég þér,

að ávallt geymi þig Guð í hendi sér.

(Þýð. Bjarni Stefán Konráðsson)

Ólöf Jóna Jónsdóttir.