Gunnar Jóhannesson
Gunnar Jóhannesson
Eftir Gunnar Jóhannesson: "Við tökum á móti fjölmenningu með gleði sem staðfestingu þess að við stöndum örugg í þekkingu okkar á Guði."

Þegar horft er til vestrænnar menningar – og er íslenskt samfélag ekki undanskilið – hefur margt breyst á skömmum tíma. Fyrir ekki löngu var litið svo á að vestræn samfélög reistu sjálfsskilning sinn og viðhorf á grunni kristinnar trúar. Um það ríkti skilningur og sátt. Kristin trú var sýnileg og viðurkennd á opinberum vettvangi og fékk rými til athafna og áhrifa. Þar fyrir utan var kristin trú lifandi veruleiki í lífi fólks dag frá degi í ríkari mæli en nú er.

Menningarástandið

Í sögulegu samhengi stendur sá tíðarandi, sem nú leikur um vestræn samfélög gegn kristinni trú þó hann dragi að mörgu leyti taum óskynsemishyggju, þekkingarleysis og fordóma. Nú er í vaxandi mæli litið á kristna trú og kristið fólk – á yfirborðinu hið minnsta – sem uppáþrengjandi arf liðinnar tíðar, yfirgangssegg sem þurfi að setja á viðeigandi bás svo lítið fari fyrir honum. Sá veruleiki verður æ sýnilegri á Íslandi.

Til hugleiðingar

Fjölmenning er ekki slæm. Segja má að hún feli í sér samfélagslega tjáningu þeirrar sömu virðingar og umhyggju fyrir einstaklingnum og kveðið er á um í tvöfalda kærleiksboðorðinu (Mk 12.30-31), þar sem við erum hvött til að elska náunga okkar eins og okkur sjálf. Kristið fólk ætti því ekki að standa gegn fjölmenningu sem félagslegum veruleika. Fjölmenning merkir einfaldlega að félagsleg og pólitísk öfl dragi ekki úr frelsi fólks til hugsunar og tjáningar eða vinni á móti þeirri breytni sem af henni leiðir, sé hún ekki siðferðilega röng. Kristin kirkja og fólk á að sjálfsögðu jafn mikið tilkall til þess frelsis og aðrir enda þótt svo virðist ekki alltaf vera þegar á reynir.

Fjölmenning þýðir þó ekki að allir hafi rétt fyrir sér með tilliti til þess sem þeir hugsa og gera. Við erum ekki heldur nauðbeygð til að fallast á öll þau viðhorf sem fyrirfinnast eða taka upp breytni þeirra sem eru annarrar skoðunar en við sjálf. Fjölmenning felur ekki í sér að við getum ekki, megum ekki eða eigum ekki að viðra, með viðeigandi og kærleiksríkum hætti, öndverðar skoðanir eða andstöðu okkar gegn tilteknum sjónarmiðum.

Fjölmenning felur ekki í sér að við reynum ekki, með virðingu og einlægni að leiðarljósi, að tala um fyrir fólki og telja því hughvarf þegar við álítum það fara villt vegar. Í raun ætti fjölmenning að tryggja samfélagslega umgjörð sem gerir fólki kleift að ræða tæpitungulaust kosti og galla ólíkra skoðana öllum til hagsbóta. Þetta kann að hugnast sumum illa, sérstaklega þeim sem hafa tiltölulega afmarkað sjónarhorn á tilveruna. Það varðar þó litlu þegar horft er til þess samfélagslega ágóða sem frjálst flæði hugsunar og orðræðu hefur. Kristinn maður ætti ef til vill að fagna slíkri samfélagslegri umgjörð umfram aðra og vera bjartsýnn á afleiðingar hennar.

Eins má hafa í huga að fagnaðarerindið þarfnast ekki menningarlegrar sérstöðu eða samfélagslegrar viðurkenningar til þess að blómstra. Verk Guðs stendur og hefur staðið af sér mótlæti, ofsóknir, jafnvel dauða. Þá er það satt að þeir sem standa gegn okkur eru færri en þeir sem standa með okkur. Eins er það satt að hann sem býr innra með okkur er fremri honum sem býr í heiminum (sbr. 1 Jóh 4.4). Eins er lítill vafi á því að ef samfélög heimsins fylgdu boðskap og eftirdæmi Jesú væru þau betur á vegi stödd en ella. Það má því segja að það sé ekki kristinn maður sem tapar þegar félagsleg öfl standa gegn kristinni trú heldur samfélagið sjálft.

Höfum jafnframt í huga að sannleikurinn er ekki fjölmenningarlegur. Ef bíllinn þinn er bensínlaus hjálpar samfélagslega viðurkenndur réttur þinn til að trúa því að bensíntankurinn sé fullur ekki hót til að koma bílnum af stað. Allt er einfaldlega eins og það er óháð menningarlegum sjónarhornum og viðhorfum. Sannleikurinn lagar sig ekki að okkur. Því er öfugt farið.

Hvatning

Kristið fólk í fjölmenningarlegu samfélagi, þar sem viðhorf þeirra eru litin hornauga, jafnvel sett skipulega til hliðar, er í þeim mun betri aðstöðu til að sýna og sanna yfirburði kristinnar trúar og boðskapar. Þegar Elía tókst á við spámenn Baals (1 Kon 18) veitti hann þeim allt það forskot sem mögulegt var. Spámenn Baals reyndust þó engin fyrirstaða þegar til kom. Elía var bænheyrður frammi fyrir öllum lýðnum sem þegar féll fram á ásjónu sína og sagði: „Drottinn er hinn sanni Guð!“

Aðstæður okkar nú eru um margt þær sömu. Okkar Karmelfjall kann að vera samfélagið sjálft, tilteknar stofnanir, einstaka manneskjur eða hópar fólks, og straumurinn kann að virðast þungur. En það gerir það þeim mun auðsjáanlegra þeim sem hafa augu er sjá, að Guð er með okkur og að líf sonar hans er að verki í lífi okkar. Við tökum á móti fjölmenningu með gleði sem staðfestingu þess að við stöndum örugg í þekkingu okkar á Guði; við lítum á hana sem hvatningu til að greiða þeirri þekkingu veg, já, sem vitnisburð um að hann er nú sem fyrr að verki í okkur og vekur með okkur vilja, vit og þor til að stíga fram, óttalaus, til að framkvæma það góða sem hann þráir þessum heimi til handa og öllu fólki sem í heiminum er.

Höfundur er sóknarprestur.