Arnar Óli Bjarnason fæddist í Reykjavík 26. febrúar 1983. Hann lést á heimili sínu 24. desember 2013.

Útför Arnars Óla fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 13. janúar 2014.

Aldrei hefur klukkan gengið svo hægt. Aldrei hefur fjarlægðin frá Noregi heim til Íslands verið svo mikil. Aldrei áður hef ég verið svo hjálparlaus.

Sonur minn er týndur og enginn veit hvar hann er. Það eru liðnir margir dagar en lögreglan vill ekki lýsa eftir honum. Þetta er ekki fyrsta skipti sem þetta gerist. Mamma hans hringir í lögregluna til að biðja um hjálp. Hann er jú eiturlyfjaneytandi og þá má maður bara reikna með að hann geti horfið og verið burtu í einhverja daga. Það verða að líða sex dagar frá því að hann hverfur þangað til við lýsum eftir honum. Þeir sem skrifuðu þessar reglur vita ekki hvernig það er að týna barninu sínu. Arnar Óli Bjarnason fannst látinn á heimili sínu 24. desember stendur í Morgunblaðinu. Sannleikurinn er að Arnar Óli fannst ekki fyrr en 30. desember. Með foreldra sína búsetta í Noregi og reglur, sem gera það ókleift að fá nauðsynlega hjálp, liggur sonur okkar dáinn í herbergi miðsvæðis í Reykjavík meðan aðrir njóta jólamáltíðarinnar í faðmi fjölskyldunnar. Eitthvað hefur gerst i þjóðfélaginu okkar sem ekki er rétt. Erum við búin að gleyma verðmætunum sem sköpuðu landið okkar? Eigum við ekki að elska náungann?

Það eru svo ótrúlega margir sem ganga um göturnar á meðal okkar sem við helst viljum ekki sjá. Við reynum að líta í aðra átt þegar við mætum þeim og það sama gera þeir sem eiga að stjórna landinu okkar. Arnar var orðinn einn af þeim sem fólk vildi helst ekki sjá eða vita af. Dagurinn hans gekk út á að finna næringu til að koma sér í gegnum daginn og skaffa sér pening til að geta borgað fyrir innihaldið í næstu sprautu. Arnar Óli er farinn frá okkur og sleppur við að heyja fleiri orrustur í þessu lífi. Hann er nú kominn á stað sem er betri en sá sem hann kom frá. Hann leiðir ömmu sína sem núna passar hann og hlúir að honum. Við sitjum eftir með allar okkar hugsanir og tilfinningar sem við verðum að finna út úr sjálf.

Arnar Óli, elsku drengurinn minn. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem þú gafst mér. Hjartað mitt er fullt af góðum minningum um þig. Minningum sem ég tek með mér áfram í lífinu. Megi allar góðar vættir passa þig og vera með þér, gefa þér alla þá hlýju og ást sem þú getur tekið við.

Þinn pabbi,

Bjarni.