Hjördís Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 19. mars 1936. Hún andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 16. janúar 2014.

Foreldrar hennar voru Þóra Sigríður Bjarnadóttir, f. 15. júlí 1902, d. 11. desember 1950, og Guðmundur Ágúst Jónsson, f. 30. ágúst, 1904, d. 17. desember 1979. Hjördís giftist Birni Ragnari Óskarssyni, bryta á skipum Eimskipafélagsins, árið 1957, hann var fæddur 2. janúar 1932, d. 8. júlí 2000. Foreldrar hans voru Karólína Benediktsdóttir og Óskar Jónsson. Börn Hjördísar og Björns eru: 1) Guðmundur Þór, f. 1957, var kvæntur Jónu G. Ólafsdóttur, f. 1957. Þeirra börn eru a) Björn Þór, f. 1978, b) Hilmar Þór, f. 1983, kvæntur Ásdísi Rut Guðmundsdóttur, f. 1989, þau eiga eina dóttur, c) Hjörtur Þór, f. 1986, í sambúð með Guðlaugu Ösp Hafsteinsdóttir, f. 1988, og eiga þau einn son, d) Hjördís Gréta, f. 1994. Þau slitu samvistum. Seinni kona hans er Debby Björnsson og eru þau búsett í Flórída í Bandaríkjunum 2) Birna f. 1960, og á hún tvær dætur með fyrrverandi manni sínum Guðbjarti B. Jónssyni, f. 1956, þær, a) Þóru Dís, f. 1989, og Elvu Dís, f. 1995. Hjördís var alin upp í Vesturbænum á heimili foreldra sinna. Hún gekk í Landakotsskóla og síðan í Gagnfræðaskólann við Hringbraut. Eftir skólagöngu vann hún ýmis störf þar til hún giftist Birni, þá helgaði hún sig heimilinu, en Björn var oft langdvölum í siglingum. Þau hjón ferðuðust mikið og fóru víða. Árið 1974 settist hún aftur á skólabekk og útskrifaðist sem sjúkraliði 1976. Hún vann í 20 ár á Landakoti og eignaðist þar marga vini. Þau hjón voru bæði fædd og uppalin í Vesturbænum og bjuggu þar lengi, fyrst á æskuheimili Hjördísar á Holtsgötu 33, síðan á Rauðalæk 14, en eftir lát Björns bjó hún í 9 ár í Sóltúni 13. Hún flutti til Birnu dóttur sinnar fyrir 4 árum og bjó með þeim mæðgum til dauðadags.

Útför hennar er gerð frá Fossvogskirkju í dag, 23. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Kær vinkona er kvödd með söknuði og líka þakklæti fyrir öll árin , sem við áttum saman. Við fæddumst sama árið á Holtsgötunni, það eru bara tvö hús á milli 33, þar sem hún bjó og 39, þar sem ég bjó. Þar byrjaði órjúfanleg vinátta, sem entist alla tíð.

Æskuárin á Holtsgötunni voru góð, alltaf sól í minningunni og sameiginlegir leikfélagar. Skólaganga okkar var í Landakoti og við í sama bekk og alltaf samferða. Við vorum einn vetur saman í Gaggó við Hringbraut, hún hélt svo áfram þar og útskrifaðist þaðan, en ég fór í annan skóla. Utan skóla vorum við mikið saman, áhugamálin voru mörg, bíóferðir og svo rúnturinn. 19 ára fórum við að heiman í fyrsta skipti og flugum, líka í fyrsta skipti, til London, en þar fórum við hvor í sinn skólann. Öllum tómstundum vörðum við saman, margt að skoða og upplifa á framandi stað að ógleymdum nýjustu bíómyndunum.

Það hófst nýr kafli hjá báðum, þegar eiginmenn og börn komu til sögunnar. Hún stolt mamma með sín tvö, Guðmund og Birnu, og ég sömuleiðis með mínar tvær, Hönnu Fríðu og Helgu. Vinátta skapaðist milli heimila og barna, en tækifærin til samveru urðu færri í amstri dagsins og ótal skyldum, sem þurfti að sinna. Síminn er oft góður til að viðhalda þræðinum og fylgjast með.

Hjördís var tryggur vinur, hún var afar reglusöm alla tíð, samviskusöm og sjálfsöguð.

Hún kvartaði ekki og talaði lítið um stóru áföllin, fyrst þegar hún missti móður sína á unglingsaldri, síðan áralangan heilsubrest frá miðjum aldri,og því næst veikindi og ótímabært lát Björns. Elsku Birna, Guðmundur og fjölskyldur, megi góður Guð styrkja ykkur nú og í framtíðinni. Henni þótti svo vænt um ykkur og var svo stolt af hópnum sínum.

Eftir að við hættum báðar að vinna varð tíminn meiri og tengslin urðu enn sterkari.

Ég á eftir að sakna hennar mikið, kaffifundanna okkar og tala nú ekki um símtölin. Minningarnar eru svo ótal, ótal margar og eru nú ljúfsárar.

Takk fyrir allt. Þín vinkona

Fríða.

Þegar ég hugsa um Rauðalæk 14, mitt annað heimili í æsku, þá streyma fram myndir í huganum, sumar skýrar, aðrar óljósari; lyktin hlý og notaleg, rúgbrauð með osti og heitu súkkulaði í morgunmat, hlustað á Abba á gólfinu fyrir aftan framsætin í rauða Bronconum, dansað uppá ruslatunnum útí garði, allar bílferðirnar og leikirnir með Birni, örlætið, gæskan og hlýjan. Ég kom úr ólátagarði en á Rauðalæk var regla og kyrrð. Þarna kynntist ég einni af minni nánustu vinkonum, þarna mótaðist margt í huga lítillar stúlku. Og nú þegar ég mörgum árum síðar geng þar framhjá, þegar allt það fólk sem ég þekkti er löngu farið, finn ég fyrir hlýju og þakklæti fyrir að hafa notið svo góðs atlætis og mikillar ástar. Hjördís tók mig að sér líkt og væri ég hennar dóttir, heimilið stóð mér alltaf opið þegar ég sem barn dvaldist þar um lengri eða skemmri tíma. Hún var mér svo góð. Síðar sem fullorðinni konu, þegar mig langaði að henda betur reiður á þessari fortíð, þegar tíminn virtist svo óljós, þá fyllti Hjördís í eyðurnar og sagði mér frá, útskýrði það sem ég skildi ekki. Hún var hreinskilin og næm og þekkti mig vel, las margt ansi skýrt í mínu lífi og sagði mér það. Ég man það og geymi það í hjarta mínu eins og ég geymi allt það góða sem hún gaf mér. Ég mun aldrei geta endurgoldið að fullu það sem hún gerði fyrir mig en þó gaf ég henni eitt; Dóttir mín heitir Hjördís.

Elsku Birna og Guðmundur, innilegar samúðarkveðjur.

Marta Nordal.