[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Alþingi hefur nú til meðferðar þrjú frumvörp innanríkisráðherra sem tengjast störfum sýslumanns- og lögregluembætta í landinu.

Baksvið

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Alþingi hefur nú til meðferðar þrjú frumvörp innanríkisráðherra sem tengjast störfum sýslumanns- og lögregluembætta í landinu. Í fyrsta lagi er það frumvarp um fækkun lögregluembætta úr 15 í átta og í öðru lagi frumvarp um fækkun sýslumanna úr 24 í níu. Bæði frumvörpin hafa verið lögð fram á fyrri þingum en ekki náð í gegn. Í þriðja lagi hefur innanríkisráðherra lagt fram frumvarp um flutning nokkurra verkefna úr ráðuneytinu til sýslumanna, Fangelsismálastofnunar og Útlendingastofnunar.

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur frumvörpin til meðferðar. Umsagnarferli er lokið um síðasttalda frumvarpið og voru umsagnir í flestum tilvikum jákvæðar. Einkum er þar talað um að útgáfa ýmissa leyfa flytjist til sýslumanna.

Varðandi fækkun sýslumanna og lögregluembætta er hægt að skila inn umsögnum til 7. febrúar nk. Þau frumvörp eru að mestu óbreytt frá fyrri þingum, nema að í sýslumannsfrumvarpinu eru lögð til níu embætti í stað átta áður, þar sem gert er ráð fyrir að embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum starfi áfram. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að eitt embætti verði í hverjum landshluta. Fækkun embætta sést nánar á meðfylgjandi korti. Eiga breytingarnar að taka gildi um næstu áramót.

Skrifstofum ekki lokað

Í gær voru aðeins þrjár umsagnir um hvort frumvarp komnar, sem almennt eru allar jákvæðar. Þó bendir embætti ríkisskattstjóra á mikilvægi þess að skýr sýn verði fyrir hendi við fækkun sýslumanna og að fullt samráð verði haft við starfsmenn viðkomandi stofnana.

Eins og fram kemur í máli formanns allsherjarnefndar, Unnar Brár Konráðsdóttur, hér til hliðar er stefnt að því að afgreiða frumvörpin á þessu þingi. Hún segir ennfremur að ekki standi til að loka sýsluskrifstofum. Aðeins sé verið að tala um færri yfirstjórnendur, enda sé verið að flytja fleiri verkefni til embætta sýslumanna. Hægt sé að ná fram sterkari einingum, sem geta tekið að sér stærri og fjölbreyttari verkefni. „Þetta snýst fyrst og fremst um þjónustu við borgarana,“ segir Unnur Brá.

Ekki liggur ljóst fyrir hvar aðsetur sýslumanna og aðalstöðvar lögreglustjóra, sem eftir standa, muni verða. Mun innanríkisráðherra gefa það út í sérstakri reglugerð en Hanna Birna Kristjánsdóttir hyggst fara í fundaferð um landið í byrjun febrúar til að ræða þessi mál við sýslumenn, lögreglustjóra, sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra.

Fækkunin hafin í raun

Áhyggjur hafa komið upp víða á landsbyggðinni um hvað verður um opinber störf á sýsluskrifstofum. Þannig hafa Skagfirðingar mótmælt því að embætti sýslumanns á Sauðárkróki var lagt niður en nú er sýslumaðurinn á Blönduósi yfirmaður sýsluskrifstofunnar á Sauðárkróki. Í raun er fækkun sýslumanna þegar hafin, þar sem sýslumaðurinn í Kópavogi gegnir embættinu í Hafnarfirði og sýslumaðurinn á Ísafirði annast embættið á Patreksfirði.

Á vefnum strandir.is var nýlega vakin athygli á því að fjórar sýsluskrifstofur á Vestfjörðum muni renna undir eina stjórn; á Ísafirði, Bolungarvík, Patreksfirði og Hólmavík. Þannig hafa þrjú stöðugildi verið á Hólmavík en alls vinna um 300 manns hjá sýslumannsembættum landsins í 280 stöðugildum. Er löggæsla þá ekki talin með.

Meiri sátt að skapast

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir það skýra stefnu að frumvörpin um fækkun sýslumanna og lögregluembætta nái fram að ganga á þessu þingi. Spurð af hverju ekki hafi tekist að afgreiða þau á fyrri þingum segir hún ýmsar ástæður fyrir því.

„Málin hafa þurft sinn meðgöngutíma og meiri undirbúning. Fyrst þegar þau voru lögð fram var ekki mikið búið að reikna út áhrifin. Um leið og einhver rök koma fram um að þjónustan verði betri og heildin sterkari á eftir, þá er þetta eitthvað sem hægt er að styðja. Á meðan engin sannfæring fæst fyrir því þá vilja menn skoða málin betur, þannig er það með mig,“ segir Unnur Brá og telur að meiri sátt sé að skapast í kerfinu sjálfu um þessar breytingar.