Stál í stál Konur úr röðum mótmælendanna fyrir framan lögreglumenn við þinghúsið í Kíev þar sem hörð átök geisuðu í gær. A.m.k. fimm menn biðu bana og hundruð manna særðust.
Stál í stál Konur úr röðum mótmælendanna fyrir framan lögreglumenn við þinghúsið í Kíev þar sem hörð átök geisuðu í gær. A.m.k. fimm menn biðu bana og hundruð manna særðust. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Að minnsta kosti fimm mótmælendur biðu bana, fjórir þeirra af skotsárum, þegar lögreglumenn réðust á götuvígi mótmælenda í miðborg Kíev í gær.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Að minnsta kosti fimm mótmælendur biðu bana, fjórir þeirra af skotsárum, þegar lögreglumenn réðust á götuvígi mótmælenda í miðborg Kíev í gær. Þetta eru fyrstu dauðsföllin í götumótmælunum í borginni frá því að þau hófust fyrir tveimur mánuðum vegna þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnar Úkraínu að hætta við samning um aukið samstarf við Evrópusambandið.

Mótmælendur í miðborg Kíev köstuðu grjóti og eldsprengjum að lögreglumönnum sem svöruðu með því að beita táragasi, kasta höggsprengjum og skjóta gúmmíbyssukúlum. Þúsundir manna hafa tekið þátt í mótmælunum síðustu þrjá daga og tekist á við svipaðan fjölda lögreglumanna.

Viktor Janúkovítsj, forseti Úkraínu, ræddi í gær við leiðtoga stjórnarandstöðunnar, þeirra á meðal hnefaleikakappann Vítalí Klítsjkó, sem er nú vinsælasti stjórnmálamaður Úkraínu. Ekki var vitað hvort viðræðurnar hefðu borið árangur.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar virtust ekki geta haft mikil áhrif á þá mótmælendur, sem höfðu sig mest í frammi í átökunum við lögregluna, og þeir lýstu ekki yfir stuðningi við árásir þeirra á lögreglumenn.

Janúkovítsj forseti hvatti mótmælendur til að taka ekki þátt í ofbeldi „pólitískra róttæklinga“ og vottaði fjölskyldum þeirra sem létu lífið samúð sína. Mylola Azarov, forsætisráðherra Úkraínu, sagði að róttækustu mótmælendurnir væru „hryðjuverkamenn“.

Hermt er að flestir þeirra mótmælenda, sem ganga harðast fram í átökunum, séu í nýrri hreyfingu ungra hægriöfgamanna sem nefnist Hægri geirinn. Hreyfingin er skipuð jafnt rússnesku- sem úkraínskumælandi stjórnarandstæðingum sem nota hjálma og andlitsgrímur til að verja sig og beita bareflum í átökum við lögregluna. Margir félaga hreyfingarinnar í Kíev koma úr röðum ungra rússneskumælandi fótboltabullna og þjóðernissinna.

Flestir mótmælendanna í Kíev eru andvígir því að Úkraína gangi í tollabandalag með Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Kasakstan, eins og rússnesk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir. Ólíkt öðrum mótmælendum í Kíev eru flestir félaganna í Hægri geiranum andvígir því að Úkraína gangi í Evrópusambandið. Hreyfingin lítur á mótmælin í Kíev sem tækifæri til að koma úkraínska ríkisvaldinu fyrir kattarnef og hefja uppbyggingu nýs ríkis, að því er fram kemur á fréttavef BBC .

Hundruð manna hafa særst í átökunum, auk þess sem minnst fimm hafa látið lífið. Átökin hafa vakið mikinn óhug meðal Úkraínumanna sem hafa aldrei orðið vitni að slíkum blóðsúthellingum í mótmælum, að meðtalinni rauðgulu byltingunni árið 2004 sem fór friðsamlega fram að mestu.

Stjórnin sökuð um að koma á lögregluríki

Ráðamenn í öðrum löndum hafa vaxandi áhyggjur af átökunum í Kíev. Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, varaði í gær við því að hún myndi meta „hugsanlegar aðgerðir“ gegn úkraínskum yfirvöldum. Bandaríkjastjórn ógilti í gær vegabréfsáritanir nokkurra Úkraínumanna sem tengjast átökum öryggissveita og mótmælenda í nóvember og desember, að sögn bandaríska sendiráðsins í Kíev í gær.

Yfirvöldin byggja aðgerðir sínar á nýjum lögum sem banna nær hvers konar mótmæli í landinu. Lögin kveða meðal annars á um að mótmæli fyrir utan opinberar byggingar varði allt að fimm ára fangelsi og mótmælendum er bannað að vera með hjálma eða andlitsgrímur. Andstæðingar laganna segja að með þeim sé stjórnin að koma á lögregluríki.

Deilt um hvort auka eigi samstarfið við Evrópusambandið eða Rússland

Átökin í Kíev hófust eftir að ríkisstjórn Úkraínu tilkynnti 21. nóvember að hún hefði ákveðið að slíta viðræðum um aukið samstarf við Evrópusambandið og auka þess í stað samstarfið við Rússland. Stjórnarandstæðingar, sem vilja að Úkraína gangi í Evrópusambandið, boðuðu þá til götumótmæla.

Tugir þúsunda manna tóku þátt í mótmælum á Sjálfstæðistorginu í Kíev 24. nóvember og fámennari mótmælafundir voru haldnir í öðrum borgum. Hermt er að allt að hálf milljón manna hafi tekið þátt í mótmælum í Kíev 1. desember. Hundruð manna særðust þá í átökum við lögreglu og margir mótmælendur réðust inn í ráðhús borgarinnar. Um 200.000 manns söfnuðust saman á Sjálfstæðistorginu á sunnudaginn var eftir að þingið samþykkti lög sem banna nær hvers konar mótmæli.

Kenna vestrænum ríkjum um
» Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jose Manuel Barroso, varaði yfirvöld í Úkraínu við því að hún kynni að grípa til refsiaðgerða gegn þeim vegna átakanna í Kíev.
» Rússar sökuðu hins vegar vestræn ríki um að hafa kynt undir óeirðum í Kíev. „Lögmæt yfirvöld Úkraínu standa frammi fyrir utanaðkomandi íhlutun í innanríkismál landsins,“ sagði Grígorí Karasín, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.