Guðný Helga Baldursdóttir fæddist í Neskaupstað 28. mars 1974. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 1. janúar 2014.

Útför Guðnýjar Helgu fór fram frá Djúpavogskirkju 11. janúar 2014.

Elsku vinkona. Mikið hrökk ég við og varð ólýsanlega sorgmædd þegar Björgvin hringdi í mig með fréttir um andlát þitt. Í ár eru 20 ár frá því að við kynntumst í vinnunni í Nóatúni og urðum góðar vinkonur. Svo flutti ég vestur og þú austur og alltaf ætlaði ég að koma í heimsókn en aldrei varð neitt úr því. Núna er ég loksins búin að koma austur til þín en þá var það til að kveðja þig í hinsta sinn í útför þinni.

Ég er samt svo heppin að hafa fengið að kynnast þér og saman eigum við góðar minningar. Við fórum í mömmó með nýfæddu börnin okkar Gabríel og Karen, þú litaðir á mér augabrúnirnar fyrst allra og margt margt fleira.

Hugur minn er hjá Björgvini og börnunum ykkar, þeirra missir er mikill.

Hvíldu í friði mín kæra.

Þín vinkona,

Guðbjörg Ósk Hjartardóttir.