Sveitafólk Magnús og Sigríður Oddsdóttir, kona hans, við húsið sem þau reistu í Grímsnesinu, skammt frá Kerinu.
Sveitafólk Magnús og Sigríður Oddsdóttir, kona hans, við húsið sem þau reistu í Grímsnesinu, skammt frá Kerinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Inni við beinið er ég kannski sveitamaður í mér,“ segir Grímsnesingurinn Magnús Kjartansson tónlistarmaður. Í flestra vitund er hann tengdur Keflavík, enda af bítlakynslóð þess bæjar.

Viðtal

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Inni við beinið er ég kannski sveitamaður í mér,“ segir Grímsnesingurinn Magnús Kjartansson tónlistarmaður. Í flestra vitund er hann tengdur Keflavík, enda af bítlakynslóð þess bæjar. Langt er síðan Magnús flutti þaðan og árin í Norðurbænum í Hafnarfirði urðu mörg.

Áhugi á hrossum og löngun að komast í nýtt umhverfi – réðu því að Magnús og Sigríður Oddsdóttir eiginkona hans reru á ný mið. Þau leituðu lengi eftir jarðnæði og teiknuðu upp ýmsar hugmyndir. Lendingin varð sú að byggja heilsárshús í Grímsnesi ekki langt frá Kerinu, þ.e. í landi Snæfoksstaða. Lóðin er við sumarbústaðalönd fjölskyldu Sigríðar. Var afi hennar síðasti ábúandi á Snæfoksstöðum áður en Skógræktarfélag Árnesinga eignaðist jörðina.

Bætir og kætir

„Við erum alflutt í sveitina. Verkefni mín í tónlistinni eru þannig að ég get sinnt þeim að stórum hluta hér. Svo er ekki nema um klukkutíma akstur í bæinn,“ segir Magnús sem stjórnar tveimur kórum í Reykjavík og þeim þriðja í Keflavík. Sigríður hefur lengi verið flugfreyja hjá Icelandair. Tekur vinnulotur en á milli koma svo ágæt frí. Fyrir vikið hentar þeim ágætlega að búa utan borgar.

Um það bil 25 ár eru síðan Magnús og Sigríður hófu landnám sitt í Grímsnesinu. Þar höfðu þau unað sér við gróðursetningu þar til þau létu teikna hús og hófst bygging þess árið 2011.

„Það ýtti á mig að komast í annað umhverfi að ég fékk hjartaáfall fyrir réttu ári,“ segir Magnús. „Í kjölfar þess fór ég í hjartaþræðingu og var nokkra daga á sjúkrahúsi. Eftir útskrift gerði ég mér fyrst ljóst hvert ástand mitt var orðið við áfallið. Var oft slappur, mæddist fljótt og var orðinn alltof þykkur. Þetta var eins og ég hefði borðað fleiri kíló af írsku smjöri, sem hurfu með aðhaldi og breyttum lífsstíl. Og stresslítið umhverfið í sveitinni bætir og kætir.“

Kórar þurfa ný viðfangsefni

Magnús, sem er 62 ára, hefur komið víða við í tónlistinni. Var í hljómsveitum eins og Trúbroti, Óðmönnum og Júdasi. Einnig Brunaliðinu, HLH-flokknum, Sléttuúlfunum og fleirum. Eru ónefndar sýningar, sjónvarpsþættir, tónleikar og svo mætti lengi telja. Í seinni tíð hefur Magnús í æ ríkari mæli snúið sér að kórstjórn og útsetningum og undir hans stjórn syngur Flugfreyjukór Icelandair, Sönghópur Suðurnesja og Brokkkórinn sem er skipaður hestafólki á höfuðborgasvæðinu og víðar.

„Kórstarfið er skemmtilegt og að vinna með fólki sem hefur músíkina í blóðinu. Hins vegar þurfa kórar á Íslandi stöðugt ný og nútíma viðfangsefni,“ segir Magnús. Vegna þessa segist hann nú beina kröftum sínum í æ ríkari mæli að útsendingu þekktra íslenskra dægurlaga, svo þau hæfi kórum. Af lögum sem Magnús hefur farið um höndum í þessu skyni eru til dæmis Ferðalok (Ég er kominn heim) sem Óðinn Valdimarsson söng; Samferða eftir Magnús Eiríksson, Bláu augun þín eftir Gunnar Þórðarson við texta Ólafs Gauks og Lítill drengur Vilhjálms Vilhjálmssonar. Það lag samdi Magnús á sínum tíma en textann gerði söngvarinn ástsæli.

„Ungt fólk í kórstarfi langar að glíma við eitthvað annað en Brennið þið vitar eða Hraustir menn, sem Karlakór Reykjavíkur og Guðmundur Jónsson tóku svo frábærlega um árið að enginn toppar það. Og svo eitthvað nýtt gerist og efnisskrárnar verði við hæfi nýrra kynslóða eigum við margar frábærar perlur,“ segir Magnús.

Viðfangsefnum útsetjarans lýsir hann þannig að stundum þurfi að færa lög eða einstaka raddir milli tóntegunda, finna hvar hljómum má bæta við. Síðast en ekki síst þurfi sá sem útsetur að skynja hvar hjartað slái í hverju lagi; hin grípandi lína og stef eru það sem fangar athygli hlustans.

Með klára á húsi

Þegar Grímsnesið og mannlíf þar ber á góma er stundum talað um Grímsævintýri með vísan til sagnanna skemmtilegu sem allir krakkar lásu forðum daga. Í lífi Magnúsar er upphaf Grímsævintýrisins fyrst og fremst hestamennskan.

„Afi og frændur mínir í Keflavík héldu hross. Þannig komst ég á bragðið. Það var svo fyrir um sautján árum sem ég byrjaði í þessu af alvöru. Núna er ég með klára á húsi hjá nágrönnum mínum í Miðengi í Grímsnesi. Þá er ég með nokkur hross í vetrarbeit sem sótt eru undir vorið. Og það er fátt skemmtilegra en útreiðartúrar með góðu fólki. Fyrir utan tónlistina finnst mér hestamennskan gefa lífinu gildi.“