Vilhjálmur Sigurðsson fæddist í Straumi í Straumsvík 7. apríl 1932. Hann lést 2. janúar 2014 á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum á Selfossi.

Vilhjálmur var jarðsunginn frá Garðakirkju á Álftanesi 14. janúar 2014.

Þegar flestir fögnuðu nýju ári lést kær frændi okkar, hann Villi. Þessi stóri sterki maður, sem leit ekki út fyrir að láta neitt eða neinn knésetja sig, varð að beygja sig fyrir þeim sjúkdómi sem hafði hrjáð hann í allnokkurn tíma.

Villi var fæddur og alinn upp í Straumi við Hafnarfjörð þar sem foreldrar hans voru með búskap og einnig var hann árum saman bóndi í Reykhólasveitinni. Þótt hann hafi hætt búskap þar var hann alltaf bóndi og höfðingi í hjarta sínu, fylgdist vel með því sem gerðist, bæði dægurmálaþrasinu og lífi sinna nánustu sem honum þótti mjög vænt um og var stoltur af.

Villi var með mikla og fallega rödd og talaði fallegt og kjarnyrt mál. Hann hafði gaman af því að segja sögur og var einkar góður sögumaður. Sögurnar voru ekki neinar harmsögur heldur húmorískar og var hann óhræddur við að gera góðlátlegt grín að sjálfum sér og öðrum enda var hann mikill gleðimaður á góðri stund. Sögurnar og frásagnir af atburðum úr lífi hans heyrum við ekki oftar frá honum sjálfum en þær lifa samt áfram meðal okkar líkt og minning hans. Við vottum ástvinum hans okkar dýpstu samúð.

Bjarki Bjarnason, Sif Bjarnadóttir og Ýr Þórðardóttir.