(Edda) Sigríður Erla Guðmundsdóttir fæddist 21. febrúar 1933. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 7. janúar 2014. Útför hennar fór fram 14. janúar 2014.

Fallin er frá mikil sómakona, Sigríður Erla Guðmundsdóttir, sem ávallt var kölluð Edda. Við vorum systkinabörn, hún var dóttir móðurbróður míns, Guðmundar Guðmundssonar skipstjóra, Mumma, sem lést fyrir margt löngu, þá langt fyrir aldur fram.

Edda var öllum kær í stórfjölskyldunni; ljúf kona með góða nærveru og lagði ávallt gott til. Hún var þó langt í frá skaplaus og lét finna fyrir sér og til sín taka, ef svo bar undir. En hin hlýja, mjúka, brosmilda og velviljaða kona var þó ríkjandi þáttur í fari hennar og fasi.

Gagnvart móður minni, Margréti Guðmundsdóttur, föðursystur sinni, sem lést á síðasta ári, var Edda einkar hjálpleg og góð. Þær voru nánar vinkonur alla tíð og náðu vel saman. Þær voru ekki aðeins sem stoð og stytta hvor annarrar í mótstreymi lífsins, heldur ekki síður glaðar og gefandi á góðum stundum. Og þetta samband þeirra varaði áratugum saman án þess að skugga bæri á.

Við börn Möggu móður okkar, eins og hún var jafnan kölluð í stórfjölskyldunni, minnumst Eddu sem góðrar og kærleiksríkrar frænku; ekki endilega sú sem talaði hvað mest, en frá henni streymdi kærleikur og elska. Fyrir hin góðu kynni viljum við Möggubörn, ég og bræður mínir, Gunnlaugur og Ásgeir, og aðrir afkomendur móður okkar, nú þakka að leiðarlokum

Með brotthvarfi Eddu af þessari ströndu lífsins verður til tómarúm hjá þeim sem eftir verða og voru hennar samferðafólk um lengri eða skemmri tíma. Góð kona sem auðgaði umhverfi sitt nær og fjær er á braut; á leið til annarrar strandar.

Ég sendi dætrum Eddu og öðrum afkomendum hennar, ættingjum og vinum hugheilar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Sigríðar Erlu Guðmundsdóttur, Eddu – og sefi sorg þeirra sem sakna og syrgja.

Guðmundur Árni

Stefánsson.