Jón Dahlmann fæddist 30. desember 1938. Hann lést 30. desember 2013. Útför Jóns fór fram 14. janúar 2014.

Jón Dahlmann er látinn. Þessi trausti, góði og skemmtilegi frændi.

Ég minnist hans frá æskuárunum, sem hláturmilds piparsveins sem kom að heimsækja systur sína á Ísafjörð. Mikill spenningur var í lofti að sjá fína bílinn hans renna í hlað við Dalbæ í Tungudal eða á Engjaveginn, þegar alltaf var sól og veröldin full af fyrirheitum. Oftast var amma með og mátti þá ganga að því vísu að mikið yrði skrafað og hlegið. Onni var vel lesinn og fylgdist vel með allri þjóðmálaumræðu og hafði sínar ákveðnu skoðanir á bæði mönnum og málefnum. En hjartahlýr var hann og fann til með þeim sem áttu um sárt að binda.

Það hefur aldrei verið auðvelt fyrir utanaðkomandi að fylgjast með samræðum, þegar fleiri en einn úr þessum frændgarði hittast. Onni var þar þó einna hraðmæltastur og í meira lagi óskýr í tali, einkum þó vegna þess að frásagnargleðin bar hann oft ofurliði og hann grét af hlátri. Hann hætti þó ekki við frásögnina þannig að allt rann í eitt; sagan og hlátrarsköllin. Einhverju sinni keyptu foreldrar mínir sér myndbandstökuvél og pabbi filmaði gestina (ömmu og Onna). Um kvöldið var afraksturinn skoðaður og varð Onna að orði, þegar hann heyrði sjálfan sig: „Ég skil bara ekki eitt einasta orð“ og svo skellihló hann.

Enn bættist við gleðina þegar hann og Dagný föðursystir mín urðu hjón og rættist þar með gamall draumur minn. Alveg gráupplagt að föðursystir og móðurbróðir yrðu par.

Og það brást ekki. Alltaf var gott að koma til þeirra í Torfufellið; gestrisni og hjálpsemi í fyrirrúmi hjá þeim báðum.

Ég get aldrei fullþakkað alla þá aðstoð sem þau sýndu okkur börnum mínum á erfiðum stundum. Þar reyndust þau okkur ótrúlega umhyggjusöm og ósérhlífin.

Eitt einkenni á góðu hjónabandi er að ef annað nafnið er nefnt er hitt oftast nefnt líka. Onni og Dagný voru einmitt þannig og missir Dagnýjar er mikill, sem og Davíðs sonar þeirra og barnabarnanna. Þeim vottum við einlæga samúð okkar.

Onni hefur kvatt, en eftir lifir minning um góðan dreng.

Hanna Lára, Elísabet og Gunnar Freyr.