[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Æfingamælar, sem eru ýmist armbönd eins og Polar Loop eða tæki sem smellt er á fatnað, verða sífellt vinsælli enda passa þeir upp á að maður hreyfi sig rétt nánast allan sólarhringinn.

Undanfarin ár hefur æfingamælum vaxið fiskur um hrygg, en slíkum mælum krækir fólk ýmist í fatnað, eða ber um úlnliðinn. Þeir eru ekki nýir af nálinni, en eftir því sem snjallsímar hafa orðið útbreiddari hefur og aukist áhugi fólks á að nota æfingamæla og þá ekki bara til að kortleggja íþróttaæfingar, heldur líka til að mæla hreyfingar dagsins og næturinnar, ef vill, því fjölmargir mælar eru þeirrar gerðar að geta metið hve vel viðkomandi sefur með því einu að skrá hreyfingar hans í rúminu.

Vestan hafs hafa Nike, Fibit og Jawbone verið ráðandi, Nike með Nike+ Fuelband, Fibit með ýmsar græjur, nú síðast Fitbit Force, og Jawbone með UP24 armbandið. Æfingamælar þessara framleiðenda hafa fengist öðru hvoru hér á landi og til að mynda man ég eftir að hafa séð Nike-æfingamæla til sölu hjá Nova á síðasta ári (og eru reyndar fáanlegir þar í dag líka). Gamalreyndur æfingatækjaframleiðandi hefur svo blandað sér í þennan slag, finnska fyrirtækið Polar, sem er þekkt fyrir púlsmæla og GPS-úr. Seint á síðasta ári kom á markað vestan hafs og í Finnlandi æfingamælir í armbandi sem kallast Polar Loop og er ódýrara en þau tæki sem fyrir eru en að mörgu leyti fullkomnari. Polar Loop-æfingamælirinn kom svo á markað um heim allan í byrjun þessa árs og er nú fáanlegur hér á landi. Fyrirtækið Altís í Hafnarfirði er með umboð fyrir Polar og flytur mælana inn.

Æfingamælirinn, Polar Loop-armbandið, lætur ekki mikið yfir sér þegar hann er tekinn úr kassanum, afskaplega stíhreinn og nettur. Það er þó fleira í kassanum en armbandið því þar er málband og leiðbeiningar um hvernig á að stytta armbandið með skærum og sérstöku tóli sem fylgir til að það passi sem best á úlnliðinn, enda er það með klemmu en ekki bara smellt saman. Þetta er óneitanlega smá umstang, en fyrir vikið er ekki hætta á að maður missi mælinn af sér. Með í kassanum er líka USB-snúra sem smellt er aftan á græjuna til að hlaða hana og líka til að tengja hana. Rafhlaðan endist vel og samkvæmt mælingum sem ég hef rekist á á netinu ætti hún að duga í allt að viku.

Eftir að búið er að klippa armbandið til, stofna (ókeypis) aðgang hjá Polar og samstilla græjuna við tölvu þá er ekki annað eftir en að smella mælinum um úlnliðinn og byrja að hreyfa sig. Polar Loop kostar 19.900 hjá Altís sem stendur (er reyndar uppselt), en fæst hjá Nova á kynningarverði á 16.990 kr.

Það að vera með farsíma er náttúrlega eins og að vera með nettengda tölvu í vasanum (eða hendinni) og kjörið að tengja æfingamæla við símann til að skoða gögn eða senda þau jafnharðan inn á vefinn. Athugið þó, aðeins er til iPhone-app sem stendur, Android-app væntanlegt í mars.

Árni Matthíasson