[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tískudrottningin Elísabet Gunnarsdóttir er mikið á flakki með fjölskyldu sína þar sem kærasti hennar er atvinnumaður í handbolta. Hún leggur stund á nám í viðskiptafræði auk þess að halda úti vinsælasta bloggi á Íslandi. Gunnþórunn Jónsdóttir gunnthorunn@mbl.is

Elísabet Gunnarsdóttir er annar eigandi tískubloggsíðunnar www.trendnet.is þar sem nokkrir tískufróðir einstaklingar blogga um daginn og veginn. Hún bloggar sjálf en einnig sér hún um rekstur og utanumhald. Elísabet er búsett í Frakklandi ásamt kærasta sínum, handboltakappanum Gunnari Steini Jónssyni, og dóttur þeirra Ölbu Mist.

Hún segir morgunstundirnar í uppáhaldi hjá sér og þá sérstaklega um helgar þegar hægt er að eyða mun lengri tíma saman á morgnana og njóta. „Mér finnst morgunmaturinn vera mikilvægasta máltíð dagsins og ég kemst ekki inn í daginn án þess,“ segir Elísabet. „Þegar ég elda sjálf get ég alveg gleymt mér í smakkinu og það vill stundum verða til þess að ég næ að verða södd áður en ég sest við matarborðið. Ef ég ætti að velja uppáhaldsmat, þá fæ ég nú vatn í munninn þegar ég hugsa um hvítlauksmaríneraðan humar og myndi segja að það væri uppáhaldsmaturinn minn en einnig svona stemningsmatur, þá sushi eða tapas, í góðra vina hópi.“

Það er alltaf nóg að gera hjá Elísabetu og tekur hún að sér ýmis skemmtileg verkefni tengd Trendneti, tísku eða öðru. „Í vor stefni ég að því að útskrifast úr viðskiptafræðinámi sem ég hef sinnt samhliða búsetu minni hér erlendis,“ segir Elísabet um það sem á döfinni er. „Svo er ég að skrifa matreiðslubók,“ segir hún og hlær. „Nei, ég er að grínast. En það er alltaf nóg á döfinni. Það er margt spennandi framundan hjá Trendneti þetta árið og mörg verkefni sem ég er með á vinnuborðinu. Sem dæmi er samstarfsverkefni Trendnets og Reykjavik Fashion Festival í mars og ég hlakka mikið til. Auk þess eru fleiri spennandi verkefni sem má ekki segja frá strax.“