Silfurlitaður dyrasími tónar vel við litaflóru heimilisins.
Silfurlitaður dyrasími tónar vel við litaflóru heimilisins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Linda Jóhannsdóttir var orðin leið á sjúskaða dyrasímanum heima hjá sér og ákvað að spreyja hann með silfurlituðu spreyi til að lífga örlítið upp á hann. Sigurborg Selma karlsdóttir sigurborg@mbl.is

Linda Jóhannsdóttir hönnuður tók dyrasímann heima hjá sér í gegn. Síminn, sem var orðinn verulega sjúskaður, er úr hvítu plasti sem vel sá á. Linda ákvað að lífga upp á símann með því að spreyja hann, sem er bæði ódýr og fljótleg breyting. Linda keypti silfurlitað sprey sem hún telur tóna vel við litaflóru heimilisins.

„Mér finnst málmar, gull, silfur og brons, skemmtilegir litir með fallegri áferð og gaman að blanda þeim saman á heimilinu. Hér er margt gyllt og bronslitað og þess vegna fannst mér gaman að blanda silfri við sem tónar einnig vel við pastelliti, sem eru mikið í tísku núna.“

Byrjað er á því að þrífa símann og pússa hann örlítið með mjög fíngerðum sandpappír. Hann er síðan þrifinn með þynni, sem tekur allan skít og fitu svo að málningin festist á plastinu.

Síminn er þá tekinn í sundur og þess gætt að spreyið fari ekki á innvolsið og að lokum er hann spreyjaður vel og vandlega.

„Þegar ég spreyjaði heyrnartólið tók ég það í sundur, sem er bara ein skrúfa, svo ég myndi ekki spreyja á hátalarann í honum.“

Spreyið, sem fæst í flestum byggingarvöruversluum, keypti Linda í Húsasmiðjunni og kostaði rétt innan við 2.000 krónur. Sniðugt er að leita ráða í málningarvöruverslunum, enda starfsmenn þar fróðir. Einnig getur verið gott að grunna símann ef liturinn á að duga lengi.