Eldhúsið er einnig partur af miðrýminu.
Eldhúsið er einnig partur af miðrýminu. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fríða S. Kristinsdóttir, textílhönnuður og kennari, býr í fallegu einbýlishúsi á Seltjarnarnesi. Fríða er mikill fagurkeri og er hrifnust af einfaldleikanum og sígildum hlutum. Sigurborg Selma Karlsdóttir sigurborg@mbl.is

Á heimili mínu er að finna sígilda hönnun, íslenska listmuni úr leir og tré, gömul húsgögn og ný. Aðalatriðið fyrir mig er að heimilið sé hlýlegt og notalegt að dvelja þar,“ segir Fríða og bætir við að hún sé sérlega heimakær manneskja. Fríða segir mikilvægt að rýmið sé vel úthugsað, að húsgögnin og hlutirnir hafi tilgang og heimilið sé hlýlegt og fjölskyldunni líði þar vel. Fríða blandar saman nýjum og gömlum hlutum. Gömlum hlutum frá foreldrum sínum og tengdaforeldrum og sígildri nútímahönnun. „Ég bý í húsi þar sem er alrými þ.e. ekki veggir milli eldhúss, borðstofu og stofu. Borðstofuborðið er miðdepill. Þar er líka sjónvarpið. Ég fer á milli staða eftir því hvort ég er að borða, lesa, vinna í tölvunni, horfa á sjónvarpið eða að vinna eitthvað í höndunum.“

Fríða sækir innblástur meðal annars í náttúruna, umhverfið, bækur, blöð og hönnunartímarit. „Að hluta er innblásturinn bara innsæi og minn persónuleiki. Ég kem úr stórfjölskyldu þar sem mikill áhugi er á handverki, hönnun, listum og menningu. Langamma mín, Hólmfríður Ebenesersdóttir, var frumkvöðull vefnaðar á Vestfjörðum. Mikil handverks- og listakona. Ég var mjög ung farin að hanna, sauma og prjóna alls kyns fatnað á sjálfa mig með hjálp frá móður minni, sem var alltaf til staðar.“