— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Samningurinn gefur okkar meðal annars tækifæri til að bæta menntun íbúa í kjördæminu og efla fræðslu á vinnustöðum,“ segir Geirlaug Jóhannsdóttir, verkefnastjóri tilraunaverkefnis við Háskólann á Bifröst.

„Samningurinn gefur okkar meðal annars tækifæri til að bæta menntun íbúa í kjördæminu og efla fræðslu á vinnustöðum,“ segir Geirlaug Jóhannsdóttir, verkefnastjóri tilraunaverkefnis við Háskólann á Bifröst. Undirritaður var á dögunum samningur um framhald verkefnis um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi.

Stjórnendur fyrirtækja eru jákvæðir

Markmið samningsins nú er að efla ráðgjöf til fyrirtækja um nám á vinnustöðum, auka samstarf atvinnulífs og fræðslustofnana í kjördæminu um starfstengt nám, fjölga því fólki sem lýkur iðnnámi og efla íslenskukunnáttu innflytjenda. Að þessu verður unnið skv. niðurstöðum rannsókna frá fyrra ári. Kom í ljós, að sögn Geirlaugar, að víða vantar iðn- og tæknimenntað fólk til starfa og efla þarf námskeið í meðal annars sjávarútvegs- og þjónustugreinum. Einnig er þörf á námi í viðskiptagreinum og tölvunotkun.

„Stjórnendur eru jákvæðir gagnvart því að taka þátt í að auka menntun starfsfólks með ýmsum hætti, svo sem með því að bjóða upp á nám á vinnutíma, taka þátt í kostnaði og fleira,“ segir Geirlaug. Hún bendir á að í viðtölum við um 100 pólska innflytjendur – en slíkir eru eru burðarás í fiskvinnslu víða á svæðinu – vilji þeir gjarnan bæta kunnáttu sína í íslensku og nema ensku, verklegar greinar og viðskipti.

Menntunarstig á svæðinu segir Geirlaug lægra en víða annars staðar á landinu, eins og fram hafi komið í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Í verkefninu sem nær til eins árs muni Bifröst hafa forystu um að bæta úr því og vinna með símenntunarmiðstöðvum, framhaldsskólum, fyrirtækjum, félögum og öðrum.

„Við stefnum að því að fjölga fyrirtækjum í kjördæminu um 120 sem bjóða upp á starfstengt nám, styðja sextíu einstaklinga til að fara í raunfærnimat og áframhaldandi nám í kjölfarið, m.a. í iðngreinum, og fjölga innflytjendum sem geta haldið uppi samræðum á íslensku um fjórðung,“ segir Geirlaug um verkefnið sem eyrnamerktar hafa verið 80 millj. kr. Það er liður í átaki til að hækka menntunarstig í íslensku atvinnulífi og sem var sett af stða í framhaldi af kjarasamningum í maí 2011. sbs@mbl.is