Einræðisherrann, verk Svarars Guðnasonar, og Guð neitar ásökunum eftir Magnús Helgason.
Einræðisherrann, verk Svarars Guðnasonar, og Guð neitar ásökunum eftir Magnús Helgason.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er skipulögð kaos,“ segir listamaður um sýninguna í Listasafni ASÍ þar sem verk Svarars eru tekin úr römmum.

Einn þáttur í starfsemi Listasafns ASÍ er að sýna verk úr safneigninni og í dag, laugardag, klukkan 16, verður opnuð sýning þar sem verkum eftir expressjónistann Svavar Guðnason (1909-1988) er stillt upp með málverkum eftir tvo unga listamenn sem einnig fást við málverk, þá Magnús Helgason og Úlf Karlsson. Úlfur Eldjárn mun flytja hljóðverk á opnuninni og vinna úr því verk sem hljóma mun á sýningunni til loka.

„Við notum allir nokkuð mikið liti og segja má að verk okkar séu á vissan hátt óreiðukennd,“ segir Magnús þegar spurt er hvers vegna list þeirra sé stefnt saman. Þetta er önnur sýningin í sýningaröð safnsins sem kallast „Samspil“ og er Kristín G. Guðnadóttir sýningarstjóri.

„Þetta er skipulögð kaos,“ segir Magnús og bætir við að fyrir sýninguna hafi verk Svavars verið tekin út úr borgaralegum og gylltum römmunum. „Til þess að yngja hann upp. Þegar Svavar kemur úr gullrömmunum er eins og hann andi léttar,“ segir hann og persónugerir verkin. „Það er mjög gaman að sjá þau svona, Svavar er meiri uppreisnarmaður svona án rammanna en hugmyndin er líka að sýna hvað hann var framsækinn og að verk hans eru ekkert svo ólík því sem listamenn eins og við Úlfur erum að fást við í dag.“

Úlfur og Magnús sýna báðir verk sem þeir hafa unnið á tréplötur. Magnús segist fást talsvert við að púsla saman fundnum plötum og mála. „Ég vinn þetta að vissu leyti eins og garðyrkjumaður. Hann býr ekki til blómin heldur velur þeim skemmtilegan stað og er alltaf að leita að ákveðinni fegurð og samræmi. Einhver tilviljun hefur mótað þessar plötur sem ég er að nota og ég raða þeim upp, eins og garðyrkjumaður, bæti í og mála,“ segir hann. „Úlfur dregur síðan upp nokkuð grótestar og óreiðukenndar fígúrur – hann er brjálaðastur af okkur öllum,“ segir Magnús. efi@mbl.is