Það var líf og fjör á samkomu UN Women sem stóð fyrir átakinu Milljarður rís í Hörpu á föstudag.
Það var líf og fjör á samkomu UN Women sem stóð fyrir átakinu Milljarður rís í Hörpu á föstudag. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á föstudag dönsuðu hátt í 3.500 manns hér á landi til að mótmæla hvers kyns ofbeldi gegn konum alls staðar í heiminum.
Við erum í sælu- og gleðivímu eftir þetta,“ segir Soffía Dóra Sigurgeirsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, en í hádeginu á föstudag fór fram átakið Milljarður rís þar sem hátt í 3.500 manns mættu saman í Hörpu og dönsuðu fyrir breyttum heimi. Einnig var dansað á Ísafirði, Akureyri og víðar um land. „Þetta er fyrst og fremst vitundarvakning til þess að uppræta ofbeldi gegn konum. Öll vitundarvakning hefur áhrif á samfélagið í heild sinni og það er í raun viss hvatning og stuðningur við þolendur. Það er skilvirkasta leiðin til að ná fram breytingum og hafa áhrif á viðhorf sem skilar sér svo aftur í lagasetningu. Til að mynda hafa átt sér stað framfaraskref á Indlandi í kjölfar hópnauðgunar þar í landi í lok árs 2012.“ Eftir hópnauðgunina áttu sér stað fjöldamótmæli sem varð til þess að róttækar breytingar urðu á allri löggjöf er varðar hvers kyns kynferðisofbeldi. „Konur eiga ekki að þurfa að lifa í ótta við að vera áreittar, barðar eða brenndar fyrir það eitt að vera konur. Milljarður rís-átakið á að vera út frá gleði og jákvæðni að þetta geti gerst, og það er hægt – að breyta heiminum!“