— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ekki er ofsögum sagt að heppnin hafi elt Leif Eiríksson langt út fyrir gröf og dauða. Í lifanda lífi var hann kenndur við heppni og nú tæpum þúsund árum síðar stendur hann með alvæpni á hæsta punkti í miðbæ Reykjavíkur, Skólavörðuholtinu, og horfir yfir lifendur og dauða.
Sjaldan er Leifur heppni, frægasti íbúi Skólavörðuholtsins, tilkomumeiri en í ljósaskiptunum en við þau skilyrði sótti Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, einmitt að honum í vikunni. Að baki honum er helsta kennileiti borgarinnar, Hallgrímskirkja. Styttuna færðu Bandaríkjamenn Íslendingum að gjöf í tilefni af Alþingishátíðinni 1930. Skólavörðuholt hét upphaflega Arnarhólsholt þar sem það er fyrir ofan Arnarhól og var stórgrýttur melur með jökulurð og gott berjaland áður en þar var byggt. Vesturhlíð hæðarinnar er kölluð Þingholt eftir bæ sem þar stóð áður fyrr. Núverandi nafn sitt fékk holtið eftir að Skólavarðan var reist þar árið 1793 en hana reistu skólapiltar úr Hólavallarskóla.