Ólafur Kristjánsson les mikið og er aðdáandi bóka Jóns Kalmans Stefánssonar og á sér uppáhaldsbók eftir hann.
Ólafur Kristjánsson les mikið og er aðdáandi bóka Jóns Kalmans Stefánssonar og á sér uppáhaldsbók eftir hann. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sem barn var ég gjarnan sendur í sveit á sumrin. Á kvöldin og ef það rigndi var helsta afþreying mín að lesa bækur. Þar kynntist ég bókum Ármanns Kr.

Sem barn var ég gjarnan sendur í sveit á sumrin. Á kvöldin og ef það rigndi var helsta afþreying mín að lesa bækur. Þar kynntist ég bókum Ármanns Kr. Einarsonar um Árna í Hraunkoti og Olla ofvita og ég man hvað mér þóttu þetta stórkostlegar sögur með litríkum karakterum. Í sveitinni las ég einnig margar Enid Blyton- bækur.

Annars var bókakostur sveitabæja ærið misjafn. Á einum bænum voru ekki margar bækur, svo ég kláraði fljótt þær sem mér fannst vert að lesa. Eftir það var helsta lesefnið Bændablaðið og Búnaðarblaðið Freyr . Þar skoðaði ég auglýsingar um heyvinnuvélar og dráttarvélar og las um kynbótanaut. Þegar sæðingarmaðurinn kom í heimsókn hafði ég að sjálfsögðu myndað mér skoðun á því úr hvaða nauti heppilegasta sæðið væri og þuldi upp nöfn, númer og uppruna þessara kostagripa og veitti góð ráð.

Þegar ég komst á menntaskólaaldur var ég óheppilega staddur á miðju leiðinlegasta tímabili íslenskrar bókmenntasögu, raunsæistímabilinu. Þá var gott að geta hallað sér að gömlu íslensku höfundunum Þórbergi og Halldóri Laxness , þar stendur Sjálfstætt fólk upp úr. Ég þakka skólakerfinu fyrir að hafa kynnst Í slendingasögunum á þessum tíma.

Það var mér alger himnasending eftir raunsæistímabilið að komast yfir 100 ára einsemd Gabriels García Marquez og Hús andanna eftir Isabel Allende og kynnast töfraraunsæinu.

Sú klassíska bók sem hvað mest áhrif hefur haft á mig er Glæpur og refsing , þar rann upp fyrir mér að hafi menn einhverja samvisku er líklegt að þeir refsi sjálfum sér grimmilega fremji þeir glæp og því sé góð breytni hið eina rétta.

Í seinni tíð hefur Jón Kalman heillað mig mest af íslenskum höfundum og af mörgum frábærum bókum er Sumarljós og svo kemur nóttin í mestu uppáhaldi.