Bryndís Loftsdóttir með Bókakarlinn fyrir framan stúkuna í Laugardalnum þar sem markaðurinn verður haldinn. Milli 15 og 20 þúsund bókartitlar verða á markaðnum.
Bryndís Loftsdóttir með Bókakarlinn fyrir framan stúkuna í Laugardalnum þar sem markaðurinn verður haldinn. Milli 15 og 20 þúsund bókartitlar verða á markaðnum. — Morgunblaðið/Kristinn
Bókamarkaðurinn hefst í næstu viku í nýju húsnæði. Bryndís Loftsdóttir er framkvæmdastjóri markaðarins og segir nýja húsnæðið henta frábærlega.

Hinn árlegi og sívinsæli Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda hefst föstudaginn 21. febrúar og stendur til 9. mars . Undanfarin ár hefur bókamarkaðurinn verið í Perlunni en nú er hann haldinn í nýju húsnæði. Br yndís Loftsdóttir er framkvæmdastjóri markaðarins í ár. „Við erum að flytja á þjóðarleikvang Íslendinga, Laugardalsvöll, og komum okkur þar fyrir undir nýju stúkunni í frábæru húsnæði sem er mjög rúmgott þannig að það fer vel um bækurnar og fleiri titlar munu væntanlega komast að,“ segir Bryndís. „Þetta er líka þægilegt rými fyrir viðskiptavini Bókamarkaðarins, salurinn er allur miklu stærri og rúmbetri en var í Perlunni og bílastæði fleiri. Þarna verður einnig rekið kaffihús með áherslu á íslenskt þjóðlegt kaffimeðlæti, kleinur, vöfflur, jólakökur og tertur svo eitthvað sé nefnt. Þannig geta þeir sem hafa vanist því að fara á kaffihúsið í Perlunni um leið og þeir kaupa bækur haldið þeim sið áfram. Ég er sannfærð um að þetta húsnæði hentar frábærlega fyrir markaðinn.“

Spurð um úrval bóka segir Bryndís: „Þegar bókamarkaðurinn var fyrst haldinn árið 1952 í Listamannaskálanum við Austurvöll voru Reykvíkingar harla glaðir yfir úrvali bóka sem þar voru á boðstólum, þeir höfðu aldrei séð jafnmarga titla samankomna á söluborðum en þeir voru um 700. Nú eru titlarnir 15-20 þúsund þegar allt er talið, og þá tel ég með þær bækur sem Ari Gísli Bragason fornbókasali verður með, en hann verður með sérstakt pláss fyrir gamlar bækur og þar á meðal eru ýmsir dýrgripir sem eru löngu uppseldir en fólk getur nú nælt sér í. Á bókamarkaðnum verða nýjar bækur sem komu út fyrir jól í bland við eldri bækur. Að venju er mikið af barnabókum á markaðnum og þær hafa alltaf verið mjög vinsælar og mikið keyptar. Einnig er þar þó nokkuð af tímaritum og krossgátublöðum en útgefendur tímarita setja nokkur þeirra saman í pakka og verðið er mjög hagstætt. Þarna verður líka gott úrval hljóðbóka auk hefðbundins úrvals af skáldverkum, fræðibókum, ævisögum, ljóðabókum, matreiðslubókum og hvers kyns handbókum. Eins og undanfarin ár eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á markaðnum.“

Bókamarkaðurinn hefur ætíð verið fjölsóttur og svo verður örugglega einnig þetta árið. „Fólk er byrjað að hringja í skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda og spyrja hvenær markaðurinn byrji,“ segir Bryndís. Hún segir að markaðurinn skipti máli fyrir bókaútgefendur. „Þarna ná þeir að losa um bókalagerinn sinn og fá inn fjármuni til að halda áfram útgáfu. Ein ástæða þess að svo mikil gróska er orðin í útgáfu nýrra bóka allan ársins hring er að eftir markaðinn geta útgefendur farið að prenta bækur sem koma út í vorbyrjun eða í kringum dag bókarinnar sem er 23. apríl, en þá er mikil útgáfa í gangi.

Rekstur bókamarkaðarins hefur líka staðið undir mörgum góðum málefnum sem Félag íslenskra bókaútgefenda hefur komið að. Þar er nærtækast að nefna Íslensku bókmenntaverðlaunin en þau eru nú veitt í þremur flokkum og nemur heildarverðlaunaféð þremur milljónum króna. Félagið styrkir einnig ýmsa viðburði eins og Upplestrarkeppni grunnskólanna og Bókmenntahátíðina auk þess sem Bókatíðindin koma árlega út á vegum félagsins.

Bryndís var lengi vörustjóri íslenskra bóka hjá Eymundsson en er nú starfsmaður hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Hún segist aldrei verða leið á bókum. „Ég hef starfað í bókabransanum í tuttugu ár og mér finnst vinnan alltaf jafnspennandi enda er ég stöðugt að sjá eitthvað nýtt og áhugavert. Mikilvægasta verkefnið framundan er að auka áhuga yngri kynslóðarinnar á lestri og þá er mikilvægt að við sem eldri erum séum þeim góðar fyrirmyndir og að þau sjái okkur til dæmis setjast niður í hálftíma eftir vinnu og gefa okkur stund til lesturs.“