Íslenski hópurinn kyrjar „Ó beikon“.
Íslenski hópurinn kyrjar „Ó beikon“.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glímukappar, beikondrottning, brúðkaup og fyrsta beikon-kvikmyndin voru á meðal atriða á sjöundu Blue Ribbon-beikonhátíðinni í borginni Des Moines í Iowa á dögunum.

Glímukappar, beikondrottning, brúðkaup og fyrsta beikon-kvikmyndin voru á meðal atriða á sjöundu Blue Ribbon-beikonhátíðinni í borginni Des Moines í Iowa á dögunum. Hið íslenska beikonbræðralag átti þar sína fulltrúa, en þema hátíðarinnar í ár var Las Vegas eða „Viva la Bacon“. Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir gunnhildur@mbl.is

Þetta var í annað skipti sem íslenski vinahópurinn sem kennir sig við beikon, og hefur þrjú undanfarin ár staðið fyrir samnefndri hátíð í Reykjavík, hélt til Des Moines. Opinbert markmið hátíðarinnar ytra, rétt eins og hér heima, er „að bera út boðskap beikons; sameina fólk og gleðjast“. Hátíðin í Iowa hefur farið fram árlega frá árinu 2008 en þar, rétt eins og hér á landi, var upphaflega um létta skemmtun vinahóps að ræða, sem hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg. Þúsundir sækja viðburðina í dag en allur ágóði af miðasölu rennur til góðgerðarmála og vinna við þá unnin í sjálfboðavinnu.

„Erindi ferðarinnar nú var einkum að skoða hátíðina frekar og sjá hvort við getum eitthvað lært af því hvernig félagar okkar gera þetta. Auk þess færðum við Terry Branstad, ríkisstjóra Iowa, bréf frá Guðmundi Árna Stefánssyni, sendiherra Íslendinga í Washington, en Terry heimsótti hann í sendiráðið í fyrra,“ segir Árni Georgsson, einn Beikonbræðranna, um tildrög ferðarinnar nú.

Seldist upp á nokkrum mínútum

Að sögn Árna hafa aðstandendur hátíðarinnar úti komið þrisvar til Íslands en hátíðin þeirra nú var sú stærsta til þessa: „Þrettán þúsund miðar voru í boði í ár og seldust upp á nokkrum mínútum.“

Mikil gleði ríkti á hátíðarsvæðinu að hans sögn. Auk þess sem beikon og beikonafurðir ýmissa framleiðenda voru kynntar í tveimur risastórum sýningarhöllum, voru ýmsir fyrirlestrar í boði og skemmtiatriði á dagskrá. „Þarna voru líka veitt verðlaun fyrir besta beikonið, beikondrottning var krýnd, en það var saksóknari í Des Moines í ár. Keppt í beikonáti, fjölmargir skörtuðu Elvis- eða Priscillu Presley-búningum í takt við þemað, auk þess sem tvö „beikon-brúðkaup“ fóru fram á svæðinu,“ bætir hann við. Þá var fyrsta beikon-kvikmyndin einnig kynnt til sögunnar en sú ber heitið „State of Bacon“ og er væntanleg í kvikmyndahús. Þess má geta að íslenski hópurinn stóð fyrir fyrirlestri um Ísland auk þess sem hann tók lagið fyrir viðstadda – lög Elvis Presley að sjálfsögðu.

Að sögn Árna er Iowa-ríki skemmtilegt heim að sækja. Auk beikonmenningar er ríkið er einn stærsti svínaræktandi í Bandaríkjunum. Hluti hópsins skellti sér einnig út í sveit þar sem hann prófaði að veiða fasana og naut náttúrunnar.

Spurður út í hvort Beikonhátíðin í Reykjavík muni bera heimsóknarinnar merki, segir Árni: „Okkar hátíð er með aðeins öðru sniði en úti – en við viljum gjarnan að litið sé á hana sem „matarhátíð alþýðunnar“. Þangað sem fólk hefur gaman af því að koma á öllum aldri. Í fyrra bættust flottir aðilar í hópinn með okkur, s.s. Höfuðborgarstofa, Miðborgarsamtökin, Ali, Svínaræktarfélag Íslands og Vífilfell. Við viljum gjarnan sjá framhald verða á og veg hátíðarinnar vaxa enn frekar,“ segir Árni að endingu.