Barinn hans Hemingways var opnaður eftir að hafa verið tekinn í gegn 1994. Hann tekur 34 í sæti.
Barinn hans Hemingways var opnaður eftir að hafa verið tekinn í gegn 1994. Hann tekur 34 í sæti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allir ættu að heimsækja París að minnsta kosti einu sinni á ævinni og þeir sem hafa farið snúa yfirleitt aftur. Það er margt að sjá og skoða og það borgar sig ekki að skipuleggja hverja mínútu því hvar sem maður kemur er eitthvað sem grípur augað, þannig er bara París. Benedikt Bóas benedikt@mbl.is

Hvenær sem París er heimsótt er hægt að lofa því að menningarlegum órum verður fullnægt og kannski ekki síður bragðlaukunum. Matargerðin í París er auðvitað fyrsta flokks og það borgar sig að velja veitingastaðina vel. Hvort sem það kallast „bistro“ eða „restaurant“ þá eru hér nokkrir staðir sem gæla við bragðlaukana. The Quartier d'Aligre, skammt frá Bastillunni, Cantine Merci, Le Pre Verre, The Boulangerie and Les Dingues og auðvitað Relais de L'Entrecôte sem er einn vinsælasti veitingastaður í París. Það þarf ekkert að panta borð á Relais, heldur bara mæta. Veitingastaðurinn er ólýsanlega vinsæll, bæði Frakkar og ferðamenn láta sig hafa það að standa í röð frá ellefu á morgnana og fram eftir kvöldi á helstu álagstímum. Það gerir ekkert til því röðin mjakast fljótt áfram og þjónustan er afar lipur.

Ef þú vilt fá góða rifjasteik með grænni sósu og frönskum kartöflum þá fæst hún á veitingastaðnum Relais de L'Entrecôte í París. Vinsældir staðarins eru ævintýralegar og skýrast af frábærri matreiðslu sem endurspeglar allt sem er best í Frakklandi: Gott kjöt sem bráðnar í munni, syndsamlega góðar franskar, einhverja dularfyllstu sósu sem sögur fara af.

Dularfulla græna sósan

Frakkar eru mikið fyrir kjöt og í uppáhaldi er nautakjöt en rifjasteik þykir einn besti bitinn af nautinu. Dýrið er alið á fínu fóðri og kjötið er því frekar fitulítið, bragðgott og lungamjúkt. Þetta góða kjöt með ljúffengum heimtilbúnum frönskum og svo ómótstæðilega græn sósa, sem nefnd var hér að ofan, er einföld samsetning sem hefur slegið í gegn. Það voru frönsk feðgin sem kokkuðu upp réttinn árið 1959 og hefur uppskriftin haldist nánast óbreytt síðan. Þetta þykir afar sérstakt í veitingahúsageiranum og ætti jafnvel heima í heimsmetabókum.

Dularfulla sósan heitir Relais de l'Entrecôte en er oft kölluð græna sósan meðal Íslendinga út af græna litnum á sósunni. Hún er ofsalega góð og allir sleikja út um við tilhugsunina eina. Færustu matreiðslumenn hafa reynt að finna út innihaldsefni sósunnar. Hingað til hefur engum tekist það og því er hún hulin ráðgáta. Aðeins veitingahúsið sjálft þekkir uppskriftina og hefur einnig náð sér í einkaleyfi. Það er þó ekki bara sósan sem fólk elskar, heldur líka meyrt nautakjötið og frönsku kartöflurnar. Íslendingum sem hafa einu sinni borðað þarna finnst ómissandi að líta inn á grænu sósunni séu þeir á leið til Parísar.

Barinn hans Hemingways

Einn áhugaverðasti barinn í París er Hemingway-barinn á Hótel Ritz. Barinn er kenndur við bandaríska rithöfundinn Ernest Hemingway en hann gisti reglulega á hótelinu og tók miklu ástfóstri við það. Honum var svo annt um staðinn að 25. ágúst 1944 ruddist hann vopnaður inn á hótelið ásamt félögum úr andspyrnuhreyfingunni og rak síðustu Þjóðverjana út af því.

Í París er annars rík hefð fyrir hvers kyns léttvíni og kampavíni. Fólk fer á kaffihús, tyllir sér í harða tréstóla og snýr út að götunni til að geta horft á mannlífið á meðan drykkirnir renna mjúklega niður með salthnetum og ólífum. Andrúmsloftið á Hemingway-barnum er allt annað og innilegra. Þetta er lítill bar sem tekur aðeins 34 í sæti og þar ríkir þægileg stemning. Grænir leðurstólar bjóða gesti velkomna, safírgræn teppi eru á gólfum og viðarinnréttingar gleðja augað. Á veggjunum hanga myndir af Hemingway og þarna er líka gamla ritvélin hans.

Barinn er flottur en hefur jafnframt skapað sér mikla sérstöðu með fantagóðum kokteilum. Hann var enduropnaður árið 1994 eftir nokkra ládeyðu, og þá undir stjórn barþjónsins Colins Fields. Vinsældirnar eru ekki síst þessum frábæra gestgjafa að þakka. Honum er umhugað um gestina og blandar kokteila að smekk hvers og eins. Síðan tyllir hann alltaf rauðri rós í drykkina hjá konunum á barnum. Margir álíta Colin Field einn besta barþjóninn í París.

Skoðað á Champs Elysées

Champs Elysées er með fallegri götum Evrópu og margslungin. Á daginn er endalaust hægt að horfa á iðandi mannlífið, versla, fá sér kaffi eða eitthvað franskt í gogginn og færa sig yfir í eðalvínin þegar kvölda tekur, en óhætt er að segja að Elysées lumi á iðandi næturlífi.

Fyrir þá sem hafa áhuga á sögu er París lukkupotturinn og margt áhugavert að skoða eins og hallir og fjöldi safna um allt mögulegt, hvort sem menn hafa áhuga á miðöldum, upplýsingaöldinni eða tuttugustu öldinni. Hér hafa verið ótal konungdæmi, byltingar og valdarán og hér urðu til þær lýðræðishugmyndir sem mörkuðu hugmyndafræðileg vatnaskil um lýðræði á 19. öld og víðar í heiminum. Skoðaðu endilega Versali Loðvíks fjórtánda, sem er hin glæsilegasta höll og ekki er hallargarðurinn síðri yfir sumartímann. Frakkar eru frægir fyrir matargerðarlist sína. Gjaldmiðillinn er evra og hitinn getur verið frá 3°C um háveturinn yfir í 25°C um hásumarið.

Rómantík í lofti

Það er varla hægt að óska sér betri innsýnar í líf Parísarbúa en vetrarmánuðina og ósköp venjulegur dagur í París er að sjálfsögðu betri en allir dagar alls staðar annars staðar, sérstaklega ef ástin er með í för. Parísarbúar héldu að sjálfsögðu Valentínusardaginn heilagan eins og flestir aðrir en í borg þar sem rómantísk stemning er stöðugt á næsta leiti er hægt að halda sinn eigin Valentínusardag alla daga.

Einn helsti kostur Parísar er hversu auðvelt það er að ganga um borgina. Í raun er hægt að eyða heilum degi í að ráfa um, skoða glæsilegar byggingar, sætar smábúðir og yndislegt útsýnið sem býðst um alla borgina. Á veturna eru færri á ferli. Í janúar og febrúar er menningarlíf borgarinnar upp á sitt allra besta og nóg að sjá og skoða innandyra, t.d. á söfnum, í leikhúsum, óperum, balletthúsum, galleríum og tónleikahöllum.

Ástin blómstrar innsigluð í lás

Það hefur verið sagt um París að hún sé borg ástarinnar. Það liggur einhver ástarljómi yfir borginni og allir sem eru ástfangnir vilja fara til Parísar og eyða þar nokkrum dögum með ástinni sinni. Fara upp í Eiffel-turninn, sitja á kaffihúsum og horfast í augu, kaupa croissant og marglitar makkarónur og heyra frönskuna talaða allt í kring. Eitt af því sem hefur orðið til í kringum ástina í París eru ástarlásar á brúnum yfir Signu. Þar hafa ástfangin pör skrifað nöfnin sín á litla lása sem þau síðan krækja í brýrnar og læsa. Því næst fleygja þau lyklinum í Signu, til merkis um að þau hafi skilið hjörtu sín eftir í París og ást þeirra verði eilíf. Það er hægt að sjá ástarlásana á tveimur sögufrægum brúm í París; Pont des Arts og Pont de l'Archevêché. Ástin blómstrar því sem aldrei fyrr í París og öllum er frjálst að gefa elskunni sinni ástarlás, kyssa hana frönskum kossi og kasta svo lyklinum í Signu. Wow air flýgur til Parísar.