Jack Andraka (til vinstri) ásamt félaga sínum á samkomu í New York-borg. Jack er aðeins 17 ára og þykir undrabarn fyrir það finna út aðferð til að greina krabbamein í brisi á frumstigi.
Jack Andraka (til vinstri) ásamt félaga sínum á samkomu í New York-borg. Jack er aðeins 17 ára og þykir undrabarn fyrir það finna út aðferð til að greina krabbamein í brisi á frumstigi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jack Andraka er 17 ára strákur frá Maryland í Bandaríkjunum sem hægt er að fletta upp á í Wikipedia. Þar er hann titlaður „vísindamaður“, „uppfinningamaður“ og „krabbameinsrannsakandi“.

Jack Andraka er 17 ára strákur frá Maryland í Bandaríkjunum sem hægt er að fletta upp á í Wikipedia. Þar er hann titlaður „vísindamaður“, „uppfinningamaður“ og „krabbameinsrannsakandi“. Já, þið lásuð rétt, hann er 17 ára. Texti: Ingibjörg Rósa Björnsdóttir ingibjörgrosa@gmail.com

Jack komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar hann fann aðferð til að greina krabbamein í brisi á frumstigi, bæði á skjótan og ódýran máta. Hann kallar sjálfan sig vísindanörd en honum hefur alltaf gengið mjög vel í skóla, svo vel að foreldrar hans höfðu ofan af fyrir honum með því að láta hann hafa allskonar vísindaverkefni þegar heimanámið þraut. Pabbi hans er verkfræðingur og mamma hans svæfingalæknir og þau viðurkenna að þau séu kannski frekar vísindalega sinnuð fjölskylda. Jack og eldri bróðir hans, Luke, hafa fengið afnot af kjallaranum á heimili þeirra til að sinna áhugamálinu, vísindum og gera þar alls konar tilraunir. Luke tók eitt sinn upp á því að búa þar til nítróglyserín, bara til að sjá hvort hann gæti það. Þeir bræður hafa enda fengið tilkynningu frá FBI um að vegna þess hvaða efni og búnað þeir hafi keypt á netinu sé Alríkislögreglan farin að hafa auga með því hvað þeir gera á netinu.

Vissi varla hvað bris var fyrst um sinn

Þegar fjölskylduvinur lést úr briskrabbameini fyrir þremur árum fór Jack að kynna sér sjúkdóminn og það hvers vegna svo erfiðlega gangi að vinna bug á honum. Hann – sem segist sjálfur varla hafa vitað hvað bris væri fyrir þann tíma – sá fljótlega að vandamálið er helst það að meinið greinist ekki fyrr en það er farið að breiðast út og því orðið illviðráðanlegt af þeim sökum; baráttan við krabbameinið hófst alltaf of seint til að geta verið árangursrík. Jack ákvað því að finna leið til að greina briskrabbamein á byrjunarstigi og lagðist yfir lesefni um sjúkdóminn. Þetta átti hug hans allan í nokkra mánuði og loks fékk hann hugljómun í miðjum líffræðitíma, þegar hann var að stelast til að lesa læknatímarit. Kennarinn hans varð ekkert sérstaklega hrifinn og gerði blaðið upptækt til að geta fengið frið til að kenna en Jack fór heim og tilkynnti foreldrum sínum að hann þyrfti bara að finna rannsóknarstofu til að geta þróað aðferðina! Það segir sig sjálft að fjórtán ára gagnfræðaskólanema er ekki hleypt inn í hvaða rannsóknarstofu sem er en eftir fjóra mánuði, og margar neitanir, fékk Jack uppörvandi svar frá prófessor við John Hopkins-háskólann. Honum fannst hugmyndin þess virði að láta á hana reyna og fékk Jack að mæta á rannsóknarstofu þar eftir skóla og um helgar til að prófa aðferðina. Eftir sjö mánuði var ljóst að hún virkar mjög vel og Jack dansaði um rannsóknastofuna í gleðivímu.

Talar á ráðstefnum víða um heim

Aðferðina þarf hins vegar að prófa vandlega áður en hún verður viðurkennd sem áreiðanleg, læknisfræðileg greining á briskrabbameini en vonast er til að eftir nokkur ár geti heilsugæslulæknar og -hjúkrunarfræðingar greint briskrabbamein á byrjunarstigi og að jafnvel verði hægt að kaupa svona próf í hvaða apóteki sem er.

Jack Andraka er nú byrjaður að skoða í hvaða háskóla hann eigi að fara en inni á milli þess sem hann mætir í skólann ferðast hann um heiminn og talar á hinum og þessum ráðstefnum. Hann hefur hitt forseta Bandaríkjanna og ávarpar reglulega fremstu vísindamenn og krabbameinslækna heims. Hann er stöðugt að velta hlutum fyrir sér en segir það ekki kappsmál að fylgja hugmyndum sínum til enda, hann er meira en til í að leyfa öðrum að prófa og þróa hugmyndirnar sem hann fær – hugur hans er svo frjór að Jack vill geta einbeitt sér að því að finna lausnir á vandamálum. „Ég held ekki að ég sé eitthvað rosalega gáfaður, ég þekki fólk sem er mun gáfaðra en ég. En ef þú býrð ekki yfir sköpunargáfu til að nýta þekkinguna sem þú hefur, þá siturðu bara uppi með haug af þekkingu og ekkert annað. Þá ertu bara eins og hver annar snjallsími,“ sagði vísindamaðurinn Jack Andraka í viðtali við 60 mínútur.

Heimasíða Jack Andraka www.jackandraka.net

Þróaði einfalt og ódýrt próf

Í stuttu máli eykst magn ákveðins prótíns í blóðinu um leið og krabbamein fer að herja á brisið. Jack þróaði próf sem felst í því að einn lítill blóðdropi er settur á pappírsstrimil sem sýnir magn prótínsins og þótt hækkun þess sé ekki endilega alltaf vísbending um briskrabbamein, þá mælist hækkunin mjög snemma í 90% tilvika þegar um krabbamein í brisi er að ræða. Þannig verður vonandi hægt að finna briskrabbamein á algjöru frumstigi á fljótlegan, einfaldan og ódýran hátt í framtíðinni, þökk sé hugvitssemi þessa unga vísindamanns.