Tanja Huld í uppáhaldspeysunni sinni.
Tanja Huld í uppáhaldspeysunni sinni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir stundar nám í textílhönnun við Myndlistarskólann í Reykjavík. Tanja, sem er einnig menntaður fatahönnuður, hefur miklar skoðanir á tísku og hefur einkar áberandi og frumlegan stíl. Sigurborg Selma Karlsdóttir sigurborg@mbl.is
Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum? Ég held að ég sé svoddan eilífðarunglingur, mér finnst gaman að ögra því hefðbundna og vera tilraunagjörn. Ég myndi segja að stíllinn einkenndist af afslöppuðum sniðum og skipulögðu kaosi hvað varðar efni, en ég elska að setja saman liti og munstur til þess að fá óvænta niðurstöðu. Ég vil einungis ganga í fötum og efnum sem mér líður vel í og eru þægileg en mér finnst fólk alls ekki líta vel út í fötum sem því líður illa í. Til dæmis forðast ég það að ganga í gallabuxum, háhæluðum skóm og brjóstahaldara með víraspöng vegna þess að mér finnst óþægilegt að klæðast því.

Áttu þér uppáhaldsflík eða -fylgihlut? Ég á nokkrar flíkur sem eru í algjöru uppáhaldi hjá mér en það eru til dæmis peysa frá Munda með blóðkornamunstri sem ég keypti fyrir nokkrum árum en hún er það besta sem ég veit um á veturna, að vera í peysunni er eins og klæðast unaðslegu teppi. Önnur peysa sem er í miklu uppáhaldi hjá mér er Oprah-peysan mín sem kærastinn minn gaf mér í jólagjöf, vegna þess að Oprah er bara svo mikill gleðigjafi. Uppáhaldsfylgihluturinn minn er heklaður kragi í öllum regnbogans litum sem var keyptur í Aftur, það skemmir ekki fyrir að þessi dýrindisflík er gerð úr endurnýttu garni.

Ætlar þú að festa kaup á einhverju sérstöku fyrir vorið? Ég var að kaupa mér Kenzo-derhúfu sem mig hefur langað í síðan síðasta sumar, ég talaði meira að segja um það upp úr svefni og fannst það ágætismerki um þetta væri eitthvað sem mig langaði virkilega í fyrir alvöru og að ég ætti að láta það eftir mér fyrir vorið.

Áttu þér eitthvert gott stef, ráð eða mottó þegar kemur að klæðaburði? Ég hef vanið mig á að virða vel fyrir mér vöruna sem ég ætla að kaupa, hvers konar efni er í henni og hvar hún er framleidd. Því miður eru sjaldnast nákvæmar upplýsingar um hvar og hvernig flíkur eru framleiddar en það fer mjög fyrir brjóstið á mér að margar af flíkunum í vinsælustu tískuverslununum eru framleiddar í verksmiðjum þar sem kjör eru bág og aðstæður hræðilegar, oft beinlínis lífshættulegar. Ég reyni mitt besta til að vera meðvituð um þetta þegar ég kaupi föt og bera virðingu fyrir flíkunum sem ég kaupi. Ég mæli með að kaupa sjaldnar föt en vanda valið; frekar kaupa fáar flíkur sem eru vandaðar og hafa hærri gæðastimpil en að kaupa mjög mikið magn af flíkum sem kosta minna en endast ekki jafnvel.

Hvar kaupir þú helst föt? Yfirleitt sjaldan á sama staðnum og í sömu búðum, yfirleitt rekst ég á eitthvað sem grípur mig frekar en að vera í leit að einhverju sérstöku. Þegar ég er erlendis nýti ég mér það að versla í búðum sem selja vörur eftir uppáhaldshönnuðina mína. Uppáhaldsbúðin mín hér heima var Mundi's boutique en ég er líka mjög hrifin af Aftur, Geysi og elska þegar ég finn gersemar í Rauðakrossbúðunum.

Hver hafa verið bestu kaupin þín fatakyns? Ætli það sé ekki þegar ég fór til Antwerpen og keypti mér prjónaðar gulllitaðar buxur með froskamunstri eftir uppáhaldshönnuðinn minn, Bernhard Willhelm.

En þau verstu? Ég verð að nefna það þegar ég var 13 ára og keypti síða kápu í Mótor sem var samansett úr panelum úr gallaefni og riffluðu flaueli sem var alls konar á litinn. Til að toppa þetta var gerviloðfeldur á kraganum, neðan á flíkinni og neðan á ermunum. Þetta er án efa ljótasta flík sem ég hef séð en mér þykir samt svo vænt um hana vegna þess að hún rifjar upp svo góðar og vandræðalegar minningar og hefur oft orðið aðhlátursefni vinahópsins. Ég verð eiginlega bara að ramma hana inn og hengja upp á vegg.

Hvaðan sækir þú innblástur? Ég sæki innblástur til uppáhaldshönnuðanna minna og þar sem ég er mikill tónlistarunnandi myndi ég segja að ég sækti innblástur til tónlistarfólks sem ég held upp á.

Áttu einhverja dýrmæta flík sem þú tímir ekki að nota? Nei, ég vil ekki skilja neina flík útundan og vil ekki takmarka notkunina á fötum með því að flokka einstakar flíkur sem spariflíkur.

Áttu þér einhvern uppáhaldsfatahönnuð? Já, uppáhaldshönnuðurnir mínir eru Bernhard Willhelm, Walter Van Beirendonck, Meadham Kirchkoff og Martin Margiela en ég held líka rosalega mikið upp á merkin Commes des Garcons, Moonspoonsaloon, Kenzo og Kokon To Zai.