[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsti íslenski tölvuleikurinn var gerður 1986. Síðan hefur gríðarlega mikið vatn runnið til sjávar og íslenskir tölvuleikir, Eve Online og Quiz Up eru alþjóðlegar stjörnur.

Fyrsti íslenski tölvuleikurinn var gerður 1986. Síðan hefur gríðarlega mikið vatn runnið til sjávar og íslenskir tölvuleikir, Eve Online og Quiz Up eru alþjóðlegar stjörnur. Alls vinna 620 manns við íslenska tölvuleikjagerð en samtök leikjaframleiðanda, IGI, eru leið á að sjá efnilegt fólk flytja búferlum vegna erfiðs rekstrarumhverfis. Fimm vinsælustu tölvuleikirnir í iPhone á síðasta ári voru gerðir í Skandinavíu. Benedikt Bóas benedikt@mbl.is

Í slenskir tölvuleikir eru ekki gamlir. Fyrsti íslenski tölvuleikurinn sem vitað er um var gerður 1986 og hét Sjóorrusta, gerður á gagnakassettu fyrir Sinclair Spectrum-tölvur. Síðan leið tíminn þangað til EVE Online kom á markaðinn. „Fyrsti alvöruleikurinn – sá sem er markaðssettur á alþjóðamarkaði er Eve Online frá CCP. Þeir einfaldalega komu Íslandi á kortið. Eitthvað sem við eigum að vera stolt af,“ segir Ólafur Andri Ragnarsson hjá tölvufyrirtækinu Betware en hann situr í stjórn samtaka leikjaframleiðanda eða Icelandic Game Industry, skammstafað IGI. IGI voru stofnuð formlega 2009 eftir að nokkrir einstaklingar í leikjafyrirtækjum, þáverandi og verðandi, fóru að ræða saman hvort ekki væri hægt að stofna samtök í kringum þessa ört vaxandi grein. Á hinum löndunum á Norðurlöndum eru sambærileg samtök en Norðurlöndin eru mjög framarlega í tölvuleikjum.

Tölvuleikir fyrir alla

400 manns vinna hér á landi við tölvuleikjagerð en allir starfsmenn innan IGI eru 620, hluti starfsmanna vinnur erlendis enda eru fyrirtæki eins og CCP og Betware alþjóðafyrirtæki en með höfuðstöðvar sínar á Íslandi.

Ólafur Andri segir að ákveðin bjartsýni ríki innan tölvuleikjaframleiðanda enda sé hér meðbyr sem þurfi að nýta. „Núna spilar alls konar fólk tölvuleiki en ef þú spyrð það þá kannast það ekkert við slíkt.

Tökum sem dæmi konu á besta aldri sem hefur gaman af því að spila Candy Crush Saga, FarmVille 2 eða Bubble Safari á Facebook. Aldrei myndi hún viðurkenna að hún spilaði tölvuleiki. Nei, þetta er bara Facebook, myndi hún segja.“

Fljótlega eftir að IGI var stofnað kom fram áhugi á að halda keppni í gerð tölvuleikja. Hugmyndin var að virkja þá sem höfðu alltaf viljað búa til tölvuleik en aldrei haft tækifæri eða hvatningu til þess. Fyrsta keppnin var um vorið 2010 og alls tóku 11 hópar þátt. Hópurinn Clockwork Alien vann verðlaunin fyrir leikinn Path to Ares. Keppnin var haldin aftur haustið 2011 með breyttu sniði, bæði styttri og með meiri stuðningi. Þá vann Lumenox með leikinn Aaru's Awakening sem kemur á markað með vorinu. Í ár er því þriðja keppnin.

Ólafur Andri segir að Norðurlöndin standi mjög framarlega þegar kemur að tölvuleikjagerð. „Nokkur af helstu og öflugustu fyrirtækjum heims á þessum markaði, eru stofnuð og starfrækt á norðurslóðum. Til marks um þennan árangur má til dæmis nefna að undir lok ársins 2013 voru allir fimm mest sóttu iPhone-leikirnir í Bandaríkjunum, búnir til á Norðurlöndunum. Þetta voru leikirnir QuizUp frá Íslandi, Candy Crush Saga frá Svíþjóð, Angry Birds Go, Angry Birds Star Wars og Clash of Clans frá Finnlandi. Tölvuleikir eru orðnir stærsti menningartengdi útflutningur Norðurlandanna.“

Vantar nokkra milljarða upp á

Íslensk stjórnvöld mættu styðja betur við fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum segir Ólafur en umhverfið hér á landi fyrir tölvuleikjaframleiðslu sé allt annað en í nágrannalöndunum. Hann segir að Finnar, sem eiga heiðurinn af Angry Birds leikjunum meðal annars, starfræki sjóð, svokallaðan Tekes sjóð sem sé líkur tækniþróunarsjóði. „Við höfum kynnt okkur hvernig Finnar hafa byggt upp sinn leikjaiðnað. Það er ekki ofsagt að þar er bullandi uppsveifla í leikjagerð og fjárfestar nánast banka upp á hjá áhugaverðum leikjafyrirtækjum í von um að fá að fjárfesta. Hér er þessu öfugt farið, það er varla hægt að ná í nokkra fjárfesta. Finnar stofnuðu sinn Tekes-sjóð til að fjárfesta í nýsköpun og skapandi greinum. Sá sjóður er ekki ósvipaður tækniþróunarsjóði nema að sá finnski er um 90 milljaraðar íslenskra króna á meðan tækniþróunarsjóður er mun minni,“ segir hann og hlær. „Ef sá íslenski ætti að vera sambærilegur væri hann um 5,3 milljarðar króna á ári.“

Fjárfestar forða sér við íslenska umhverfið

Ólafur Andri nefnir að gjaldeyrishöftin hafi fráhrindandi áhrif og séu skaðleg fyrir minni fyrirtækin. Stóru fyrirtækin, eins og CCP og Betware, geti beygt sig undir höftin en litlu fyrirtækin lendi oftar en ekki í vandræðum. „Á undanförnum árum höfum við talað við fjölda fjárfesta sem vildu vita meira um íslensk leikjafyrirtæki eða voru að skoða tilteknar fjárfestingar. Sumir þessara fjárfesta voru mjög nálægt því að setja pening í íslensk fyrirtæki en það runnu á þá tvær grímur þegar þeir fóru að skoða umhverfið. Þó að höftin eigi ekki að hindra fjárfestingu er tilvera þeirra, ein og sér, nægjanleg til þess að hafa mjög ákveðinn fælingarmátt.

Við verðum líka að átta okkur á því að Ísland er í samkeppni við önnur lönd um starfsfólk. Það sem er nýtt og mikilvægt að stjórnvöld átti sig á er að sú kynslóð sem nú er komin út á vinnumarkaðinn og sækist í skapandi greinar, er mjög hreyfanleg. Þetta er kynslóðin sem kaupir ekki geisladiska heldur gerist áskrifandi af Spotify. Kaupir ekki DVD-diska, er frekar með Netflix o.s.frv. Það er því lítið mál fyrir það að ganga í störf í öðru landi og flytja. Það pakkar bara í tösku og fer. Við höfum aldrei séð þennan hreyfanleika áður.

Það skemmtilega við íslenskan leikjaiðnað er að flestir framleiðendur eru að horfa á erlendan markað, sem þýðir að ekki er verið að bítast um sama litla íslenska markhópinn. Þessi markaður er svo stór að innan samtakanna, sem og á norrænum vettvangi, hafa menn alveg verið til í að deila upplýsingum á milli sín.“

Næsta bylgja að byrja

Ólafur segir að stjórnmálamenn og fjárfestar hafi algjörlega misst af tækifærinu til að magna þann mikla kraft sem er í leikjagerð og skapandi greinum almennt. „Í stað þess hafa fyrirtæki sem höfðu frábær tækifæri misst af þeim og horfið. Fyrsta bylgjan er yfirstaðin, en sú næsta er rétt að byrja og við ætlum að reyna að nýta okkur það eins og við getum.

Þó er stuðning að finna og samskipti við stjórnvöld hafa alltaf verið góð. Það vanti bara að stjórnmálamenn sjái stóru myndina. „Það vantar skilning á hvernig þetta hangir allt saman. Það tók Finna svolítinn tíma að ná þessu líka, eftir sína kreppu, en kerfið þeirra nú virkar gríðarlega vel. Það er í raun stórkostlegt að geta byggt upp iðnað sem er gjaldeyrisskapandi, byggist á menningar- og sagnaarfi þjóðarinnar, er eftirsóttur af ungu fólki, skapar hálaunastörf og kallar á aukið hugvit og meiri menntun. Hvers vegna erum við ekki að gera meira til þess að styðja við þetta og efla,“ spyr hann kannski eðlilega svolítið hissa.

Stærri en Hollywood

Tölvuleikjageirinn fór fram úr Hollywood fyrir tíu árum í tekjum. Tölvuleikurinn Grand Theft Auto 5, sem kom út á síðasta ári, halaði inn einum milljarði dollara á fyrstu þremur dögunum í sölu og kostaði meira í framleiðslu en flestar stórmyndir gera í dag.

Avatar er sú mynd sem hefur skilað mestum tekjum allra tíma fyrir Hollywood eða samtals 2,8 milljörðum dollara. Það tók hana 50 daga að hala inn 600 milljónum dollara. „Þetta lýsir því ágætlega hvað leikjaiðnaðurinn er orðinn stór, sennilega stærri og öflugri en flestir ímynda sér,“ segir Ólafur Andri hjá Betware.