Óbirt skáldsaga eftir snillinginn Chaplin lítur dagsins ljós.
Óbirt skáldsaga eftir snillinginn Chaplin lítur dagsins ljós.
Eina skáldsagan sem vitað er til Charlie Chaplin hafi skrifað hefur verið gefin út, tæpum sjötíu árum eftir að hún var skrifuð.

Eina skáldsagan sem vitað er til Charlie Chaplin hafi skrifað hefur verið gefin út, tæpum sjötíu árum eftir að hún var skrifuð. Sagan, sem er stutt, 70 blaðsíðna nóvella, nefnist Footlights og hin afbragðsgóða kvikmynd Chaplins Limelight sem gerð var árið 1952 byggði á henni, en þar fór Chaplin sjálfur með aðalhlutverkið ásamt Claire Bloom, en myndin gerði hana að stjörnu. Það er ævisagnahöfundur Chaplins, David Robinson , sem kom handritinu í útgáfuform.

Í bókinni er, eins og í kvikmyndinni Limelight, sögð saga hins drykkfellda trúðar Calvero, sem hefur lifað sitt fergursta, en bjargar ballerínu sem ætlar að fyrirfara sér. Chaplin skrifaði bókina árið 1948 en hún var ekki ætluð til útgáfu. Á þeim tíma var Chaplin að upplifa erfitt tímabil vegna vinstrisinnaðra stjórnmálaskoðana sinna og almenningsálitið snerist gegn honum og var það mikil breyting í lífi manns sem hafði lengi verið dáður og elskaður. Chaplin varð síðan að yfirgefa Bandaríkin vegna gruns um kommúnisma. Ævisagnahöfundur hans, Robinson, segir að tilfinningar Chaplins á þessu tímabili hafi ratað í söguna sem hann segir vera sérkennilega en góða. Ekki ætti að koma á óvart að Chaplin hafi skrifað skáldsögu því fjölhæfni hans var gríðarleg; hann starfaði sem leikari, leikstjóri, handritshöfundur og tónskáld og gerði þetta allt jafn vel.