Það er fátt sem stöðvar par sem er fjárhagslega samstillt. Piltur og stúlka stilla sér upp fyrir ljósmyndara á götu í Seúl.
Það er fátt sem stöðvar par sem er fjárhagslega samstillt. Piltur og stúlka stilla sér upp fyrir ljósmyndara á götu í Seúl. — AFP
Fátt er það sem pör rífast meira um en peningar og útgjöld. Með því að fylgja nokkrum grunnreglum er hægt að stuðla að fjárhagslegum samhljómi í sambandinu og stilla til friðar. Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is

Rómantíkin er allt um kring þessa helgina enda var Valentínusardagurinn haldinn hátíðlegur á föstudag.

En rómantíkin dugar skammt ein og sér og þeir sem reynt hafa vita að ein af mikilvægustu stoðum farsæls, langs og ástríks sambands er að sátt sé um peningamálin. Raunar segir í grein fjármálaritsins Forbes að rannsóknir sýni trekk í trekk að fátt hefur meira forspárgildi um líkurnar á skilnaði en hversu oft pör rífast um fjárhaginn.

Skipta má fjármálarifrildum í sex flokka og í öllum tilvikum er hægt að draga úr líkunum á núningi og ósætti með því að hafa nokkur heilræði í huga.

Peningarnir í pott

Það fyrsta sem Forbes nefnir er sá núningur sem er nánast óhjákvæmilegur þegar tveir einstaklingar byrja að sameina hjá sér fjárhaginn. Það getur verið ákveðið tilraunaferli að finna það fyrirkomulag sem hentar best, s.s. hvort allt á að fara í einn sjóð eða hvort betra er að hvor haldi sínum fjármálum fyrir sig með einn sameiginlegan reikning fyrir sameiginleg útgjöld. Það er ágætt að sýna sveigjanleika og hafa ágætan skammt af þolinmæði á þessu stigi sambandsins.

Ekki ætti að koma á óvart að skuldir geta verið þrætuepli, hvað þá ef annar aðilinn er með mun stærri skuldabagga en hinn. Engum þykir gaman að upplifa sig sem fjárhagslega byrði, né heldur er gaman að sitja uppi með kostnaðinn af skuldasöfnun einhvers annars.

Pör ættu að reyna að forðast að líta á gömlu skuldirnar sem einhvers konar tossastimpil á þeim sem á skuldirnar. Það getur líka verið til marks um þroska, styrkt sambandið og bætt fjárhagshorfur heimilisins til lengri tíma litið ef báðir takst í sameiningu á við það verkefni að saxa hratt og vel á skuldirnar.

Áætlun tryggir friðinn

Útgjöld heimilisins geta verið endalaus uppspretta rifrilda, sérstaklega ef annar aðilinn upplifir sig sem sparasaman en hinn sem eyðsukló. Fyrir það fyrsta verður að skilja að oftast verður ákveðin verkaskipting hjá pörum svo að annar sér um algenga útgjaldaliði eins og matarinnkaupin á meðan hinn kaupir minna eða sjaldnar vöru og þjónustu fyrir sig og heimilið. Svo verður að muna að það eru ekki endilega útgjöldin sjálf sem geta valdið pirringi heldur óvænt fjárútlát og ófyrirsjáanleiki í heimilisrekstrinum. Forbes segir hægt að leysa þennan vanda með því að gera fjárhags- og útgjaldaáætlun og fylgja henni.

Pör getur einnig greint á um hvernig á að spara, fjárfesta og byggja upp varasjóð. Sumir vilja taka meiri áhættu í fjárfestigum en aðrir velja öruggari kosti sem oft bera þá lægri ávöxtun um leið. Sumir eru ekki í rónni öðruvísi en að eiga mjög drjúgan varasjóð til að leita í ef eitthvað kemur upp á á meðan aðrir eru bjartsýnni og djarfari.

Ráðlegt er að pör reyni að skilja vel fjárhagslegar hugmyndir hvort annars, viti til hvers sparnaður eða fjárfestingar eru ætlaðar og hver markmiðin eru. Þannig ætti að vera hægt að finna meðalveg og móta áætlun sem parið getur verið samstiga um.

Allt uppi á borðum

Loks er afskaplega skaðlegt, að mati Forbes, að halda einhverju fjárhagslegu leyndu í sambandi. Sumum hættir til að fegra fjárhagsástandið fyrir makanum eða fela slæmar ákvarðanir og áföll. Aðrir skrökva um litlu hlutina, s.s. hvað fínu nýju gallabuxurnar kostuðu í raun eða að skotist var á dýran veitingastað með vinunum. Stundum er ástæðan sú að annar aðilinn vill verja hinn gegn áhyggjum, eða vill ekki lækka í áliti, eða vill hreinlega losna við karp og fjas.

En með peninga eins og allt annað gildir að heiðarleikinn er bestur á endanum. Jafnvel litlar lygar og leyndarmál geta safnast upp og saxað smám saman á traustið og ástríkið.