„Það má segja að þetta hafi verið eitt viðburðaríkasta árið í lífi mínu. Bæði leikurinn og svo samningurinn við Warner Bros. Sá samningur þýðir að þeir geta þjónað mér vel og ég á til dæmis núna svakalega dýran og fínan míkrafón,“ segir Edda Magnason.
„Það má segja að þetta hafi verið eitt viðburðaríkasta árið í lífi mínu. Bæði leikurinn og svo samningurinn við Warner Bros. Sá samningur þýðir að þeir geta þjónað mér vel og ég á til dæmis núna svakalega dýran og fínan míkrafón,“ segir Edda Magnason. — Ljósmynd/Karin Törnblom
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Edda Magnason er dóttir íslensks dýralæknis á Austfjörðum og hefur unnið hug og hjörtu Svía með framgöngu sinni sem Monica Zetterlund.

Edda Magnason er dóttir íslensks dýralæknis á Austfjörðum og hefur unnið hug og hjörtu Svía með framgöngu sinni sem Monica Zetterlund. Edda er einnig þekkt tónlistarkona þar í landi og á síðasta ári undirritaði hún samning við Warner Music og Sony og í vor kemur þriðja sólóplatan hennar út. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Edda Karin Hjartardóttir Magnason er í Svíþjóð þekkt tónlistarkona og nú nýlega leikkona en hún var valin leikkona ársins 2013 í Svíþjóð þegar hún hlaut Gullbjölluna fyrir aðalhlutverk í kvikmyndinni Monica Z. Þetta þykja stórmerkileg tíðindi þar sem Edda er hvorki menntuð leikkona né hafði hún leikið áður þegar hún tók að sér hlutverk djasssöngkonunnar Monicu Zetterlund. Okkur Íslendingum þykir auðvitað merkilegast að uppgötva að Edda Magnason, eins og nafnið gefur til kynna, er íslensk.

„Faðir minn er íslenskur og býr reyndar á Íslandi sem og öll föðurfjölskyldan mín,“ segir Edda sem skilur íslensku vel þótt hún treysti sér ekki til að nota hana í viðtalinu. Fyrir ekki mörgum árum var hún þó nokkuð sleip í tungumálinu og talaði íslensku ágætlega en þá dvaldi hún í sex mánuði samfleytt hérlendis, vann í frystihúsi, ísbúð og sótti íslenskunámskeið. Hún segist viss um að ef hún dveldi á Íslandi í lengri tíma myndi málið fljótt rifjast upp. Og hún segir að enskuframburður hennar sé engan veginn líkur því sem Svíar bera enskuna fram heldur er hann mun líkari þeim framburði sem Íslendingar eru þekktir fyrir.

„Ég ólst upp í Svíþjóð, í stórum systkinahópi, ég á sex systkini alls, þrjár systur og þrjá bræður.“ Á milli systkina Eddu eru ekki mörg ár svo að systkinahópurinn var fjörugur en fimm þeirra eru einnig hálfíslensk. Þau hafa farið ólíkar leiðir í lífinu, til dæmis er einn bróðir hennar kokkur, hún á systur sem er hjúkrunarfræðingur en þó á hún bróður sem starfar við kvikmyndagerð. „Við bjuggum í dreifbýli, rétt fyrir utan Malmö en foreldrar mínir voru þó ekki í neinum sveitastörfum – pabbi er dýralæknir og mamma mín hjúkrunarfræðingur. Svo skildu foreldrar mínir að skiptum og pabbi býr nú á Egilsstöðum og starfar þar við sitt fag. Ég kem því talsvert til Íslands, að minnsta kosti einu sinni á ári og Ísland er má segja mín vin – staðurinn sem ég „flý“ til frá striti og þegar ég þarf að hvílast og hlaða batteríin. Ef ég fer í frí fer ég til Íslands.“

Á Íslandi snýst allt um mat

Edda hefur lýst því yfir í viðtölum úti hvernig föðuramma hennar hafi kveikt söngáhugann þegar Edda heyrði hana syngja Heims um ból. Sjálfri finnst henni hún hafa sterk tengsl við landið. „Ég fæ mér alltaf „eina með öllu“ þegar ég kem til Íslands og raunar snýst allt voðalega mikið um mat þegar ég er þar, að borða og sækja sundlaugarnar. Ég eyði yfirleitt fjórum vikum í senn á landinu og er þá dugleg að ferðast með pabba á jeppanum hans. Það er reyndar fastur liður að við keyrum frá Reykjavík til Egilsstaða, það er engin Íslandsferð án þess.“

Þennan dag sem Edda spjallar við blaðamann er hún á leiðinni til Berlínar daginn eftir þar sem henni var svo hampað sem einni af tíu vonarstjörnum Evrópu. Var hún valin á svokallaðan „Shooting Star“-lista en það er European Film Promotion sem velur árlega 10 efnilega leikara til að kynna fyrir þekktum leikstjórum og kvikmyndaframleiðendum. Fyrir það fyrsta kom það Eddu verulega á óvart að fá hlutverk Monicu Zetterlund þar sem hún hafði ekki numið leiklist og hvergi leikið og þá voru það ekki síður óvænt og gleðileg tíðindi af hreppa Gullbjölluna. Monicu Zetterlund sem myndin fjallar um var og er ein dáðasta söngkona Svía en hún lést árið 2005. Það var því hreint út sagt tilfinningamál fyrir Svía hvaða leikkonu yrði treyst fyrir því að túlka líf hennar, söng og störf. Myndin sló bæði í gegn hjá gagnrýnendum og áhorfendum. Monica Z var vinsælasta kvikmyndin í Svíþjóð á síðasta ári og hlaut 11 tilnefningar til Gullbjöllunnar, þar af vann hún fern verðlaun og hún var mest sótta kvikmyndin í Svíþjóð árið 2013.

Skiljanlega var söngur stór partur af hlutverki Eddu í myndinni og þar var Edda á heimavelli en hún er stórt nafn í sænskum tónlistarheimi. Á síðasta ári undirritaði hún samning við Warner Music og Sony/AtV Music Publishing og í vor kemur þriðja platan hennar út sem er þá gefin út í nafni Warner. Lögin hennar eru sungin á ensku og hún semur þau sjálf, syngur og spilar á píanó og hljómborð. Það kom fljótt í ljós að hún hafði mikla tónlistarhæfileika en áður en hún fór út í eiginlegt tónlistarnám þreifaði hún sig áfram á píanóinu heima í Ystad án leiðsagnar.

Á unglingsárum fór Edda svo að semja og taka upp eigin tónlist. Hún segir erfitt að lýsa því sem hún geri því hún sé undir áhrifum margvíslegra tónlistarstefna. Þar megi nefna djass, klassíska píanótónlist, popp og ýmislegt sem minni á kvikmyndatónlist. Nýja platan er gáskafull og tilraunakenndari en tvær hinar fyrri. Edda segist fylgjast vel með íslenskri tónlist, Björk, Sigur Rós og Ásgeir Trausti eru þar í uppáhaldi en síðasta haust sá hún raunar um tónlist í stórri danssýningu í óperunni í Malmö sem breski danshöfundurinn Ben Wright hafði umsjón með. Sýningin var byggð í kringum tónlist af sólóplötu Jónsa úr Sigur Rós; Go. Edda söng sjálf eitt lag á íslensku.

Leikstjórinn fann hana á tónleikum

Hvernig vildi það til að Edda fékk hlutverk Monicu Zetterlund?

„Ég hélt tónleika í einu stærsta leikhúsi Stokkhólms í tilefni hálfrar aldar afmælis Amnesty International. Þar á meðal áhorfenda var kona sem þekkti til framleiðenda myndarinnar og vissi að þeir voru að leita að leikkonu til að fara með hlutverk Monicu. Þeir voru þá í miðjum prufum og höfðu fengið marga leikara til sín. Leikstjórinn sótti í kjölfarið tónleika hjá mér, fékk þá hugmynd að fá mig í prufu og sendi mér tölvupóst. Ég ákvað að slá til þótt mér þætti það svolítið skelfileg tilhugsun en þetta reyndist svo vera hrikalega gaman. Ég fór í gegnum margar prufur og hreppti á endanum hlutverkið. Í kjölfarið stakk ég mér á bólakaf í rannsóknarvinnu til að fá tilfinningu fyrir karakter hennar og söng og ég þurfti einnig að breyta mínum eðlilega hreim því ég er frá Skáni og skánska er talsvert öðruvísi en sú sænska sem íbúar Stokkhólms tala. Leikstjórinn einbeitti sér að mér og mínu hlutverki og það fór mikil vinna í þetta auk þess sem ég var í því að vinna að tónlistinni. Ég hafði líka mikið að segja um að þróa persónu mína hvað heildarútlit og ásjónu varðar enda var ég endalaust að prófa alls kyns búninga og láta mála mig og greiða.“

Og svo ertu bara valin leikkona ársins í Svíþjóð, hvað segirðu um það?

„Já! Það var eiginlega trufluð tilfinning og ég er ógurlega hamingjusöm með það. Allt þetta verkefni var þannig að ég féll kylliflöt fyrir kvikmyndaheiminum, það má segja að ég hafi orðið ástfangin af honum. Þarna eru töfrar og einbeiting og fókus. Fólkið og öll umgjörðin er stórkostleg. Að fá að vera svona í miðri hringiðunni í aðalhlutverki gerði það líka að verkum að ég fékk að upplifa alla hluta starfsins. Það má segja að þetta hafi verið eitt viðburðaríkasta árið í lífi mínu. Bæði leikurinn og svo samningurinn við Warner Bros. Sá samningur þýðir að þeir geta þjónað mér vel og ég á til dæmis núna svakalega dýran og fínan míkrafón,“ segir Edda og hlær.

Edda á sænskan kærasta sem hún segist þó ekki vilja tjá sig meira um nema staðfesta það að hún er ekki einhleyp. Framtíðarplönin eru opin. Hún segist mjög opin fyrir því að gera eitthvað meira með leik, sérstaklega ef spennandi verkefni rekur á fjörur hennar. „Stokkhólmur er auðvitað mín heimahöfn núna en ég finn að ég er ekki fjötruð og gæti hugsað mér að vinna hvar sem er í heiminum þannig séð.“ Við kveðjumst og blaðamaður freistast að lokum til að spyrja hvaða mun hún sjái helst á Íslendingum og Svíum. „Það er miklu auðveldara að kjafta við Íslendinga um eitthvað – svona smáspjall. Enda eigið þið svo mikið af þessum smáorðum sem fylla upp í tómið. Maður getur sagt; já, já, sko, og einmitt og jæja. Hvað segirðu gott? og svo framvegis. Það er ágætt að geta stuðst við það finnst mér.“

Dýralæknirinn stoltur af dótturinni

„Manni finnst þetta vera svolítil öskubuskusaga með Eddu. Hún er valin þarna, ómenntuð leikkona, úr stórum hópi fagfólks til að fara með hlutverk Monicu Zetterlund. Þannig að já þetta kom manni svolítið á óvart. Ég vissi auðvitað hversu góð tónlistarkona hún er en hafði minni vitneskju um þetta með leikinn,“ segir Hjörtur Magnason, dýralæknir á Egilsstöðum, faðir Eddu Magnason. Hjörtur hefur búið hérlendis í 14 ár og starfað lengst af sem héraðsdýralæknir Austurlands þangað til hann fór að praktísera með eigin stofu á síðasta ári og sinnir öllum dýrum.

Hjörtur segir að það hafi fljótt farið að bera á listrænum hæfileikum Eddu. Það hafi verið ljóst alveg frá því að hún var 7 ára gömul að hún hefði mikla tónlistarhæfileika.

Ertu búinn að sjá myndina? „Já, ég er fremur nýbúinn að sjá hana, þegar ég var hjá Eddu í síðustu viku, því ég var fastur í vinnu hér á Egilsstöðum þegar hún var frumsýnd. Monica Zetterlund er svona hálfgerð Ellý Vilhjálms þeirra Svía og það var því tilfinningamál fyrir þá hvernig farið væri með hlutverk hennar. Það var líka gaman fyrir Eddu að fá þarna að flytja tónlist hennar frá grunni í myndinni án þess að notast væri við gamlar upptökur Monicu.“

Hjörtur fær dóttur sína oft í heimsókn en hún er yngst barna hans. Edda dvelst yfirleitt hjá honum í nokkrar vikur í senn en þegar hún bjó hjá honum í hálft ár um 19 ára aldur fór hún á fjórhjóli í sveitinni á hverju kvöldi til að geta spilað á píanó í grunnskóla sem var ekki alveg í næsta nágrenni. Jafnvel þótt það væri stórhríð.

„Edda hefur mjög sterkar taugar, er ákveðin og afar dugleg þannig að ég held að það verði ekkert mál fyrir hana að halda áfram í kvikmyndaleik ef hana langar það. Ég er bara hamingjusamur fyrir hennar hönd en er ekki að þrýsta neitt á hana. Hún finnur hvað hún vill gera.“