Í myndasafni Morgunblaðsins er fjölmargar forvitnilegar myndir að finna og þessa rak á fjörur við vinnslu greinarinnar. Myndin er tekin á miðilsfundi sem einn þekktasti miðill síðustu aldar, Hafsteinn Björnsson, leiddi en hann lést árið 1977. Hafsteinn er sá með hin sérstöku dökku gleraugu.
Í myndasafni Morgunblaðsins er fjölmargar forvitnilegar myndir að finna og þessa rak á fjörur við vinnslu greinarinnar. Myndin er tekin á miðilsfundi sem einn þekktasti miðill síðustu aldar, Hafsteinn Björnsson, leiddi en hann lést árið 1977. Hafsteinn er sá með hin sérstöku dökku gleraugu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spámiðlar og læknamiðlar. Hvað gera þeir? Hvaðan koma þeir? Hvernig starfa þeir? Fjórir íslenskir miðlar sem hafa vakið athygli hérlendis, á öllum aldri og úr mismunandi umhverfi, segja sögu sína á næstu blaðsíðum.

Spámiðlar og læknamiðlar. Hvað gera þeir? Hvaðan koma þeir? Hvernig starfa þeir? Fjórir íslenskir miðlar sem hafa vakið athygli hérlendis, á öllum aldri og úr mismunandi umhverfi, segja sögu sína á næstu blaðsíðum. Texti: Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is Ljósmyndir: Ómar Óskarsson omar@mbl.is

Burtséð frá því hvað fólki finnst um miðla og spákonur, hvort þau hafi yfirnáttúrlega hæfileika eða ekki, þá hafa slíkir einstaklingar lifað með þjóðinni frá því að land byggðist. Fyrsta spákonan okkar er jafnan talin vera landnámskonan Þórdís á Spákonufelli á Skagaströnd sem var sögð framsýn og forvitur.

Hér á landi, rétt undir yfirborðinu, ganga sögur af spákonum og miðlum sem fólki finnst það hafa reynt að góðu, hvort sem er spádómum eða einhvers konar styrk og hjálp. Sumir verða hálfgerðar goðsögur á kaffistofum landsmanna og aðrir fá skömm í hattinn fyrir að hitta ekki á naglann. Hrönn Friðriksdóttir segir í viðtali hér að neðan að hún telji þá endast stutt í faginu sem fari með fleipur því íslenskt samfélag sé svo lítið og allt spyrjist út. Hún segist jafnframt skilja fjölmargar efasemdaraddir. Hins vegar verður ekki litið framhjá því að margt er óútskýrt í þessari tilveru og marga rekur í rogastans þegar fréttir birtast þess efnis að stofnanir eins og sænska lögreglan fái spákonur og miðla til að taka þátt í rannsóknum mála. Slíkt hefur reyndar lengi tíðkast og í danska blaðinu Nationaltidende birtist grein árið 1949 þar sem sagt var frá íslenskri spákonu sem aðstoðað hefði rannsóknarlögregluna í Kaupmannahöfn við að leysa morðmál. Nafni konunnar, sem lýst var sem aldraðri og gráhærðri, var haldið leyndu en í fréttinni var sagt frá því að danska lögreglan hefði þá leitað til danskra spákvenna með engum árangri áður en þeir hittu þá íslensku.

Hér á eftir fara viðtöl við fjóra íslenska miðla sem segja sögu sína og hvernig þeir hafa upplifað starf sitt.

Aldrei verið sátt við að vera skyggn

Bíbí Ísabella Ólafsdóttir var 7 ára þegar fór að bera á að hún sá eitthvað sem aðrir sáu ekki. Eftirminnileg er henni minning þegar hún fékk sýn um miðja nótt þar sem hún horfði á föður sinn fara út af vegi í olíubíl sem hann keyrði þá fyrir Esso. Bíbí tilkynnti móður sinni þetta sem brá við og rak hana inn í rúm. Morguninn eftir var barið að dyrum á heimilinu og móður hennar tilkynnt að slíkt slys sem Bíbí sá hefði átt sér stað. Bíbí segist hafa upplifað það eins og þetta væri henni að kenna.

„Þetta er sú minning sem er mér svona mest ljóslifandi af því þetta var svo mikið áfall. Þarnæsta dag fór mamma með mig á spítalann og pabbi var allur vafinn í rúmi. Ég hélt mig alveg úti í horni og horfði á hann og hugsaði með mér hvað ég væri eiginlega búin að gera við pabba. Eftir þetta var ég alltaf að sjá eitthvað og lenda í einhverju sem olli mér kvíða og vandræðum.“

Voru eða eru fleiri en þú í fjölskyldunni sem hafa reynt svipaða hluti?

„Einn bróðir minn var nú þekktur fyrir annars konar hluti en þeir voru samt sprottnir af því sama. Hann var kraftakarl, hét Reynir Örn Leósson, og braust meðal annars út úr fangelsinu í Keflavík og sleit keðjur og eitthvað slíkt. Hann hafði einhvers konar ofurafl. Mamma var mjög næm og vissi hluti.“ Þá er forfaðir Bíbíar eldklerkurinn Jón Steingrímsson sem kunnastur er fyrir eldmessuna er hann flutti í miðjum Skaftáreldum sem sögð er hafa valdið því að hraunstraumur stöðvaðist.

Bíbí segist aldrei hafa verið sátt við það að vera skyggn. Hún hafi orðið að sætta sig við það. „Ég gaf loforð á endanum og hætti að streitast á móti. Dóttir mín lenti í því að vera næstum dáin ungbarnadauða. Um tíma var mjög tvísýnt með barnið og ég bað og bað til guðs og lofaði því um leið að ef hún fengi að lifa og vera heilbrigð skyldi ég aldrei neita neinu sem ég væri beðin um, hversu erfitt sem mér þætti það. Og ég skyldi ganga þann veg að reyna að sýna fram á að lífið væri meira en það sem fólk sæi almennt. Þetta var árið 1989. Ég hef því látið mig hafa það að fara í sjónvarp og blöð og aldrei þorað að segja nei eftir þetta.“

Hvernig breyttist lífið þarna?

„Það breyttist þannig að ég hætti að skammast mín fyrir það þótt ég sæi eitthvað. Ég kalla mig bara Nokia-farsíma sem reyndar vantar minniskubb í,“ segir Bíbí og hlær. „Ég vil meina að það sé ekkert dularfullt við þetta. Ég hef orkusýn, sé til dæmis þegar ljósgeislinn kemur úr farsímanum. Ég sé mikla liti í kringum fólk. Þetta er bara orka vil ég meina.“

Litir standa fyrir hæfileika

Er fólk með margbreytilega liti?

„Já. Ég átti 10 systkini og ekkert þeirra var eins á litinn. Ég vil meina að litirnir standi fyrir hæfileikana. Ég get oft á tíðum séð á hvaða línu fólk er á út frá litnum, hvers konar starf hentar því. Litirnir breytast ekki í grunninn með aldrinum en þegar fólk reiðist til dæmis sér maður allt verða eldrautt fyrir ofan kollinn á því. Þegar fólk verður afbrýðisamt sveipar neongrænt ský sig um það. Enda er oft talað um að fólk verði grænt af öfund og rautt af reiði. Þegar ég fór í fyrsta skipti í flugvél, 17 ára gömul, og vélin hoppaði eitthvað varð ég dauðhrædd því mér fannst að það kviknaði í einhverjum sætum. En þetta var þá bara hræðsla sem kom eins og eldur upp úr kollunum á farþegum. Það er oft talað um að tilfinningar slökkvi ljós skynseminnar og ljós skynseminnar hlýtur að vera í kringum kollinn á okkur.“

Hvernig fer þitt starf fram?

„Ég fékk fyrstu tarrotspilin mín þegar ég var fimm ára en þá var það kerling í hverfinu sem lét mig hafa þau þegar ég var úti að krota parís. Þetta var kona sem talaði aldrei við neinn í hverfinu. Hún sagði mér að þetta ætti ég að eiga og ég myndi nota þetta seinna. Svo bara gekk hún í burtu. Ég varð auðvitað rosalega hamingjusöm því maður fékk ekki oft gjafir og hljóp með þetta inn til mömmu. Hún tók þetta af mér og setti þetta upp í skáp og ég man hvað mér þótti það frekt af henni. Þegar ég var átta ára bað hún mig um að leika mér með spilin fyrir vinkonur hennar. Ég man ekkert eftir þessu en mamma sagði mér síðar að þær hefðu verið ánægðar með það. Ég man reyndar aldrei hvað ég segi við fólk undir þessum kringumstæðum, það bara þurrkast út eftir tímana. Ég nota spilin, sem eru samt bara tenging, og les í ljós fólks. Skyggnilýsingarfundir eru hins vegar öðruvísi, en auðvitað tek ég þátt í þeim líka.“

Varðandi fólk sem er mikið í fréttum og Íslendingar þekkja - geturðu nefnt árur sem eru eftirminnilegar?

„Ég get sagt þér að litir Helga Seljan, Ágústu Evu Erlendsdóttur, Friðriks Þórs Friðrikssonar og Vigdísar Grímsdóttur eru skemmtilega skrautlegir. Þeir sem eru með bláan lit í kringum sig fara oft í lögfræðinám og kennarar, viðskiptafræðingar og læknar eru með mikið blátt í kringum sig til dæmis.“

Breytist margt í starfinu frá ári til árs?

„Ég hitti fólk minna en ég gerði áður. Það er meðvituð ákvörðun. Þá er ég ekki að svíkjast undan en samt að standa við loforðið. Fyrir 20 árum var ég að hitta kannski 10 manns á dag. Ég hef ekki sömu orku í það og ég hafði og aðstæður mínar hafa breyst verulega. Svo á ég sex börn og 13 ömmubörn og maður verður að hafa tíma fyrir þau.“

Bíbí Ólafsdóttir er einn þekktasti miðill Íslands en margir muna eftir bók Vigdísar Grímsdóttur; Sögunni um Bíbí Ólafsdóttur sem var meðal annars tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna á sínum tíma. Bíbí sér mikla liti í kringum fólk.

Jónas Jónasson varð örlagavaldur

Árni Már Jensson er barnabarn eins þekktasta miðils síðustu aldar, Ragnhildar Ólafar Gottskálksdóttur, sem jafnan var kennd við Tjarnargötu. Árni Már kynntist þar heimi miðlastarfsemi en Jónas Jónasson útvarpsmaður var einnig áhrifavaldur í hans lífi.

„Amma mín skildi við árið 1979 og var starfandi sem læknamiðill fram á síðasta dag, köllunin var hennar líf og yndi,“ segir Árni Már. „Ég bjó í sama húsi og hún við Tjarnargötu 30 þar til ég var fimm eða sex ára en var líka hjá henni oft í viku eftir að við fluttum. Það sem var sérstakt við lífið í Tjarnargötu var þetta sérstaka andrúmsloft sem maður varð hvergi annars staðar var við. Frammi á gangi beið fólk eins og á læknabiðstofu og amma var svo að skjótast fram á milli funda til að heilsa upp á barnabörnin. Þá var póstkassinn fullur af bréfum, ýmist þakkarbréfum eða beiðnum um fyrirbænir. Mér er það sérstaklega minnisstætt hvernig afi minn Eggert Ólafsson létti undir með henni með því að taka símann sem hringdi látlaust og skrifa niður fyrirbænir fólks.“

Árni Már snéri til sömu starfa og amma hans sinnti þegar hann var 37 ára. „Ég var mjög næmur sem barn, ekki þar fyrir að börn eru það nú yfirleitt. Ég man eftir spjalli mínu við fólk, án þess að það væri fólk sem aðrir sáu og ég greindi aldrei á milli þess hvað væri hugsanlega ímyndun og hvað ekki. Stundum er þunn slæða á milli ímyndunar og skyggninnar. Mig dreymdi fyrir hlutum og fékk fyrirboða. En ég streittist gegn þessu alla ævi. Maður er alltaf að glíma við þessar andstæður í sjálfum sér; annars vegar þess veraldlega og hins vegar þess andlega. Þá fannst mér skrýtið að þetta væri eitthvað sem mér væri ætlað. Ég var baldinn unglingur, líklega ofvirkur með athyglisbrest og þetta var fjarri þeim hugmyndum sem ég hafði um sjálfan mig.“

Þegar Árni Már var 37 ára og fékk örlagaríka upphringingu hafði hann beðið í mörg ár fyrir þeim sem hann vissi að glímdu við veikindi eða leið illa, bæði ættingum og öðrum. Hann segist þó ekki hafa vitað hvort þær bænir bæru árangur, hann hafi ekki litið á sjálfan sig sem áhrifavald þótt hann tryði á mátt bænarinnar. Einnig hafi hann í raun ekki haft mikinn áhuga á starfsemi miðla.

„Síminn hringdi og á hinum enda línunnar var maður með djúpa rödd sem kynnti sig sem Jónas Jónasson útvarpsmann. Jónas heitinn tjáði mér að hann hefði áhuga á að fá mig í spjall. Hann sagðist hafa fylgst með mér í einhvern tíma og vissi að ég hefði beðið fyrir fólki í laumi og að það hefði hjálpað. Hann sagðist líka hafa þekkt ömmu mína og leitað til hennar þegar hann var ungur maður. Hann vildi fá mig í viðtal og ég sló til. Þarna hafði ég aðeins einu sinni á ævinni læðst inn á miðilsfund, sem mér fannst ekkert sérstakur og mér þykja slíkir fundir raunar ekki heldur vera það í dag.“ Árni Már segist hafa bakkað út af þeim fundi þegar þar komu fram framliðnir læknar sem sögðust vera að bíða eftir honum.

Úr saltfisksútflutningi í miðilsstörf

Jónas Jónasson tók viðtal við Árna Má sem var útvarpað á Rás 1. „Á þessum tíma var ég meðal annars að sinna saltfisksútflutningi, hafði fjárfest í skipafélagi og lifði og hrærðist í hreinlega allt öðrum heimi. Síminn hringdi látlaust eftir að viðtalinu var útvarpað og það varð ekki aftur snúið. En með því að fara inn í þennan andlega heim slokknaði mikið á áhuganum á því veraldlega. Það er tætandi að lifa við tvíhyggju. Ég fór að hugsa hvernig ég vildi verja lífi mínu í jarðvistinni og hverju ég vildi hafa áorkað þegar kæmi að leikslokum. Eilífðarvitundin var orðin hluti af mínum daglega veruleika. Hafði ég verið að sinna þeim verkefnum sem mér voru falin? Ég átti á þessum tíma hús á Fjölnisvegi en það tekur ekki nema um þrjár mínútur að ganga yfir á Landspítalann. Ég gerði mér grein fyrir því næstu fimmtán árin af hverju ég hafði sett mig niður þar því bæði var fólk að koma trillandi yfir til mín frá Landspítalanum og eins var alltaf verið að biðja mig um að koma þangað yfir, en ég reyndi þó að læðast fremur með veggjum því á milli þessara heima hefur ríkt andstaða, vísindanna og spíritismans þótt mér finnist sá veggur þynnast.“ Jónas kom oft til Árna Más eftir viðtalið, í mörg ár, oft með fólk með sér sem hann taldi Árna geta hjálpað.

Snúinn til baka frá Sviss

Árni Már flutti til Sviss í kringum 2009. Hann hafði þá árin á undan átt og rekið húsgagna- og smávöruverslunina 1928, ásamt fyrrverandi sambýliskonu, og meðfram því tók hann á móti fólki heima hjá sér. Eftir hrun segir hann að ekki hafi reynst grundvöllur fyrir slíkum rekstri og hann fluttist til Sviss en hann flutti heim aftur rétt fyrir nýliðin jól.

„Ég fór þangað upphaflega í smá viðskiptaerindum en ílengdist í 2-3 vikur og hugsaði svo: hérna ætla ég að setja mig niður um tíma. Ég hef verið á báðum áttum hvort ég ætti að vera á Íslandi eða fara aftur út. Áður en ég fór út hafði ég sinnt þúsundum einstaklinga á Fjölnisvegi þar sem ég var með sérherbergi fyrir miðilsfundi. Þegar ég fór út ætlaði ég mér að vera í felum sem miðill, bæði frá Íslandi og í Sviss. En það er svo merkilegt að maður felur ekki svo auðveldlega fyrir sjálfum sér og guði það sem manni er ætlað og eitthvað spurðist út. Ég var því fljótt byrjaður að taka á móti fólki, fara í sjúkravitjanir í heimahús og spítala og var að auki orðinn býsna vinsæll sem skyggnilýsingarmiðill í matarboðum efnafólks sem hreinlega hentaði mér ekki. Ég er nýkominn heim núna og er ekki kominn í símaskrá ennþá en fólk er að hafa samband við mig í gegnum Facebook og aðra milliliði. Ég hef aldrei haft atvinnu af þessu, fyrir mér eru þetta líknarstörf og ég er mjög þakklátur fyrir að fá að miðla þessari orku og þeim upplýsingum sem mér er treyst fyrir. En ég þarf líka að hafa ofan í mig og á og því er ég alltaf að vinna eitthvað með.“

Þekkirðu til þeirra tíma sem amma þín var starfandi miðill?

„Maður þekkir jú aðeins til. Einar á Einarsstöðum og Hafsteinn Björnsson voru sterkir sannanamiðlar. Sannanamiðill er miðill sem fer í djúpan trans, víkur jafnvel alveg úr líkamanum og svo koma framliðnir í gegn og sanna sig með nöfnum, mannlýsingum og atvikalýsingum. En þetta getur birst í ýmsum myndum. Ragnhildur amma mín var sterkur sannanamiðill en inntakið í hennar lífi og starfi var læknamiðlun. Svo verður það mitt hlutskipti að vera læknamiðill. Ekki þar fyrir að óvefengjanlegur sannleikur flýtur oft í gegn. Það tók tíma að læra á mína eigin skyggnigáfu sem er fjölbreytt en þetta er gefandi. Eiginlega er þetta eins og brjálað app!“ segir Árni og hlær. „Þú tengir í gegnum skilyrðislausan kærleik og ferð að skynja hluti sem þú veist ekkert hvaðan koma en í flestum tilvikum hjálpa þeim sem þörfina hafa. Vegir guðs eru órannsakanlegir sem er hluti þess heillandi veruleika sem við lifum í frá degi til dags.“

Barnabarn eins þekktasta læknamiðils síðustu aldar, „Ragnhildar í Tjarnargötu“, starfar einnig sem miðill í dag.

Amman í Tjarnargötu

Móðuramma Árna Más hét Ragnhildur Ólöf Gottskálksdóttir og var vinsæll læknamiðill á síðustu öld í um þrjá áratugi, en hún bjó og starfaði í Tjarnargötu 30. Hún fæddist árið 1903 og lést 1979. Í blöðum birtust nokkur viðtöl við hana og má hér að ofan sjá bút úr ítarlegu viðtali sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1967. Ragnhildur var jarðsungin í upphafi árs 1980 frá Dómkirkjunni en séra Þórir Stephensen flutti þar útfararræðu sem vakti athygli spíritista þar sem kirkjunnar maður þótti sýna skilning á hæfileikum Ragnhildar. Ræðan birtist í heild í Morgni, tímariti Sálarrannsóknarfélags Íslands. Í henni sagði Þórir meðal annars að sérgáfa Ragnhildar hefði komið snemma í ljós. „Það vita allir, sem hafa viljað vita, að um hug og hendur Ragnhildar í Tjarnargötunni hafa farið þau öfl, sem miklu góðu hafa til leiðar komið og jafnvel skilið eftir verksummerki, sem allir er til þekkja hljóta að kalla kraftaverk.“

Ferðast með spákúluna um allt

Hrönn Friðriksdóttir tekur ekki á móti fólki á heimili sínu líkt og flestir heldur á stað sem fæstir myndu tengja við aðstöðu spámiðla; í skrifstofuhúsnæði í Vogahverfinu. Í næsta herbergi við hana er til dæmis endurskoðanda að finna.

Lausleg athugun blaðamanns leiddi í ljós að nafn Hrannar kom oft upp ef þeirri spurningu var kastað fram hvaða spákonur teldust færar á höfuðborgarsvæðinu.

Hrönn segist hafa verið afar næm sem krakki.

„Ég var mikið náttúrubarn, tengdist öllu sem er lifandi og geri enn. Þegar ég var lítil hélt ég að allir sæju það sem ég upplifði; liti í kringum allt og fólk sem enginn annar sá. Ég tjáði mig óskaplega lítið fyrstu 9-10 ár ævi minnar og var mest í mínum eigin heimi. Þegar ég var níu ára veiktist ég af lömunarveiki, svokallaðri Akureyrarveiki, en þá hafði hún ekki komið upp í nokkur ár hérlendis. Ég var afar veik í um hálft ár og var um eitt og hálft ár að jafna mig. Þarna missti ég um tíma sterka tengingu sem ég hafði haft við hinn heiminn.“

Í fjölskyldu Hrannar hafa fæstir áhuga á andlegum málefnum. Þó er skyggnigáfa þekkt í föðurætt að vestan og hún telur móður sína næma. „Ég var mjög myrkfælin þegar ég var unglingur því ég fór að heyra sitthvað og í Mosfellsbæ, þar sem ég bjó, var húsið eilítið út úr og lítið um ljósastaura. Ef ég þurfti að fara á milli húsa í myrkri tók ég spottann yfirleitt á harðaspretti.“

Þegar Hrönn var 17 ára fór hún að upplifa að nýju eitthvað sem hún gat ekki útskýrt. „Ég var til dæmis barnfóstra í húsi í Reykjavík og varð vör við mann sem hafði byggt húsið og hann gekk upp og niður stigann, strjúkandi handriðið sem hann hafði skorið út. Sem ungri stúlku þótti mér það mjög óþægilegt. Þegar ég er 19 ára flyt ég norður í land og þar fann ég skyggnina koma aftur smám saman. En ég var orðin 35 ára þegar ég fann hvernig heilu gáttirnar opnuðust í kjölfarið á breytingum á mínum persónulegu högum. Og ég áttaði mig í raun ekki á því hversu næm ég var fyrr en ég fór að vinna í þróunarhóp.“

Allir hafa sinn verndarengil

Þegar þú færð svona mikið af fólki til þín – er aldrei sem þér finnst þú ekki geta hitt viðkomandi?

„Jú, það getur komið fyrir en það er afar sjaldan og ég finn það þá áður. Þá er ekkert að gera nema aflýsa tímanum. Ég hlusta á innsæi mitt og ég líki þessu oft við þegar fólk er að fara að gera eitthvað afdrifaríkt, eins og að kaupa sér nýja íbúð. Maður heyrir fólk þá gjarnan segja: „Þegar ég kom þarna inn vissi ég að þetta væri mitt.“ Það er af því að þegar fólk tekur svona stórar ákvarðanir opnar það fyrir öll skynfæri sín og nemur allt sterkar og betur. Það má eiginlega segja að ég sé alltaf í þess konar ástandi.“

Hrönn notar bæði spákúlu og spil. Hún er búin að eiga kúluna lengi og hefur ferðast með hana víða. „Það tók mig átta mánuði að fá kúluna til að vinna með mér og á köflum gat ég ekki lagt hana neins staðar frá mér. Það er þannig með kúluna að ég sé ekkert með mínum eiginlegu augum heldur er það þriðja augað sem nemur. Eins er það með spilin. Ég er oft ekkert að lesa úr þeim neitt sérstaklega. Þau gefa mér ákveðnar vísbendingar en ég nota þau takmarkað.“

Eitt nefnir Hrönn sérstaklega en það er að þegar fólk kemur til hennar þá kemur alltaf einhver með því. „Fólkið okkar sem er farið á misauðvelt með að ná tengingu við okkur. Þannig getur þú komið núna og amma þín kemur með þér en þegar þú ferð eitthvað annað getur afi þinn eða langafi birst og svo framvegis. Hins vegar hafa allir sinn verndarengil sem fylgir okkur alla ævi og hefur það hlutverk að styðja okkur í gegnum lífið. Það er hægt að biðja hann um hjálp við hverju sem er og fólk ætti að nýta sér það miklu meira.“

Hvernig fólk er það sem kemur til þín?

„Þetta er fólk úr öllum stéttum, á öllum aldri, en ég reyndar tek ekki fólk til mín nema það sé orðið 18 ára. Karlar eru farnir að koma til mín oftar og oftar síðustu árin þótt konur séu enn í meirihluta.“

Eru fúskarar í hópi spákvenna og spámanna á Íslandi?

„Ef svo er, þá getur fólk ekki starfað lengi í þessu og dettur fljótt út. Slíkt spyrst alltaf út, að minnsta kosti á Íslandi, samfélagið er svo lítið. Ég er alin upp í fjölskyldu þar sem fólk hefur ekki mikla trú á andlegum málum svo að ég skil það mjög vel að fólk efist. Og mér finnst að fólk eigi bara að fá að hafa sínar skoðanir.“

Fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins heimsækir Hrönn Fririksdóttur spámiðil.

Úr dagblöðum

Í gömlum dagblöðum má finna fjöldann allan af auglýsingum er tengjast starfsemi miðla og spáfólks.

1913

1933

Amy Engilberts

Af fjölmörgum þekktum miðlum sem hafa hvatt þennan heim má nefna tvær konur sem miklar sögur spunnust um. Amelie Engilberts, alltaf kölluð Amy, gaf sig einkum að stjörnuspeki sem hún lærði jafnframt í Svartaskóla í París en hún lést árið 2008. Amy var dóttir Jóns Engilberts, eins helsta listmálara á Íslandi á 20. öld.

Samkvæmt rannsókn Erlendar Haraldssonar, prófessors við Háskóla Íslands, frá árinu 2006 töldu 78% Íslendinga sig hafa orðið fyrir einhverri dulrænni reynslu.

Goðsögn í Breiðholtinu

Þór Gunnlaugsson er þekktur læknamiðill og heilari hér í borg en í nokkur ár, eða frá því hann fór á eftirlaun, hefur hann tekið á móti fólki á heimili sínu. Þór lætur ekki mikið yfir sér, er vinalegur með stórt bros og býður blaðamanni inn í íbúð sína í Krummahólum. Hann er einn þeirra miðla sem fólk spjallar um á netinu og símanúmer hans gengur manna á milli. Undirrituð hafði heyrt af honum úr ótal ólíkum áttum og var til dæmis búin að vera með númerið hans í töskunni í að minnsta kosti ár áður en hringt var í hann vegna viðtalsins. Þór á svolítið óvenjulegan bakgrunn fyrir miðil. Hann starfaði alla sína ævi sem lögreglumaður.

Þór ólst upp í Vesturbænum, gekk í Melaskóla og lék sér meðal annars með börnunum í Kamp Knox. Var hann næmur sem barn?

„Mér er sagt það. Þegar ég var fimm eða sex ára var KFUM með helgarnámskeið fyrir börn sem ég var sendur á en sú dvöl stóð stutt því stuttu eftir að faðir minn skilaði mér uppeftir var hringt í hann og honum sagt að hann yrði að sækja mig. Ég vissi ekki fyrr en löngu síðar að þá var ég kominn upp á háaloft að leika mér við krakka sem enginn sá. Þá fékk ég einnig að vita síðar að faðir minn fór eitt sinn að heimsækja Ragnhildi Gottskálksdóttur, sem var þekktur miðill í Tjarnargötunni, og hafði mig með sér. Þegar við komum þangað sagði hún að það yrði ekki pláss fyrir allt þetta fólk sem fylgdi mér inni hjá henni. Pabbi náttúrlega sá engan en það varð úr að hún fékk dóttur sína til að passa mig frammi í anddyri meðan pabbi var hjá henni á fundinum.

Löngu síðar komst ég að því að pabbi minn, afi og langafi höfðu haft þessa hæfileika. Þetta var bara feimnismál. En það skýrði margt fyrir mér og systur minni. Til dæmis það að fólk var alltaf að koma heim til okkar þegar við vorum lítil og hitta pabba prívat. Við héldum að þetta væri eitthvað tengt vinnunni hans, það var ekkert óeðlilegt við það því hann starfaði í þannig geira, var verslunarmaður.“

Litum á okkur sem þjóna fólksins

Þór gekk til liðs við lögregluna nítján ára. „Þessir menn sem voru í lögreglunni þá voru þvílíkir englar; mannþekkjarar sem höfðu mikinn áhuga á starfinu og litu á sig sem þjóna fólksins. Samfélagið var auðvitað minna en maður gekk í mörg ólík verkefni sem þættu kannski óhugsandi í dag. Ég lenti í því eitt sinn að vera kallaður að heimili þar sem ungbarn hafði verið skilið eftir í vöggu meðan mamman fór á ball. Mér var svona hálfpartinn afhent barnið, ég fékk aðstoð við að blanda pelann, skipti á því og endaði á því að passa það alla nóttina. Þegar mamman kom um morguninn var hún drukkin og með drukkinn karlmann með sér. Barnaverndarnefnd bað mig að hafa barnið heima hjá mér meðan rynni af móðurinni, sem ég og gerði og hafði það hjá mér og fjölskyldu minni uns barnaverndarnefnd kom daginn eftir.“

Þór starfaði einnig um tíma sem lögregluþjónn hjá Sameinuðu þjóðunum og frægt er það mál sem komst í blöðin þegar Þór, ásamt öðrum starfsmönnum stofnunarinnar, var í mikilli hættu í Beirút í Líbanon vegna hernaðarátaka þar í landi árið 1976. Þar segist hann hafa fundið fyrir því að eitthvað sem hann gat ekki útskýrt leiddi hann af stað í gegnum þær ógöngur en hann og félagar hans festust í bílalest inni í landinu í fjóra daga þar sem stríð geisaði allt í kringum þá.

Fannstu fyrir einhverju öðru sem þú gast ekki útskýrt á þeim langa tíma sem þú starfaðir hjá lögreglunni?

„Ég held að „þeir“, leiðbeinendur mínir að handan, hafi passað alla tíð að opna snöggt fyrir mín vit og loka aftur án þess að ég fattaði það. Það komu upp mál sem fóru illa í mig og ég tók nærri mér enda er maður í gegnum þetta starf búinn að koma að ótrúlegustu hlutum. Maður mátti ekki missa þetta inn í hjartastöðina sína. Ég fann stundum sitthvað á mér en þegar ég tók þá ákvörðun að fara á eftirlaun, og svona undir það síðasta í lögreglustarfinu, fór að koma ýmislegt upp og ég fann að það var eitthvað í gangi. Ég fór á miðilsfund og fékk þau skilaboð að það yrði ekki opnað fyrir þetta hjá mér fyrr en ég hætti að vinna því þá færi ég á hvolf inn í þeirra heim.“

Þór nefnir nokkur af þeim fjölbreyttu verkefnum sem berast á hans borð. Fólk kemur vegna kvíða, bakverkja, vöðvabólgu, orku- og svefnleysis og óteljandi annarra kvilla, konur og karlar. Þá er leitað til hans vegna myrkfælni og ýmiss konar óþæginda. Raunar prófaði blaðamaður að leggjast á bekkinn og Þór lagði heitar hendur yfir hann. Þór spurði út í ýmsa líkamsparta og spurði út í verki hér og þar og það stóð heima. Hann tilkynnti blaðamanni jafnframt að „þeir“ myndu koma síðar þetta kvöld og bæta svefn og nætursvefninn var með mestu ágætum.

Þór segir að næm börn hafi hann stundum hitt þar sem foreldrar hafi áhyggjur af því að börnin upplifi of mikið af einhverju óútskýranlegu í kringum sig og raunar nefnir hann Vestfirði sérstaklega, hann segir það stað þar sem óvenjumargir einstaklingar sjái lengra en nef þeirra nær.

Vinsælar bænastundir í Fossvogskirkju

Þór hefur heimsótt fólk á sjúkrahús og leitt bænastundir í Fossvogskirkju fyrir fullu húsi. Samverustundirnar hafa verið opnar fyrir alla sem „þiggja vilja innblástur í hjartarótina vegna vanlíðunar eða annarra orsaka“, eins og segir á heimasíðu þjóðkirkjunnar. Þór varð hins vegar fyrir því óhappi að hryggbrjóta sig á síðasta ári og bænastundirnar hafa því þurft að bíða um sinn en hann segir að stefnt sé að því að næsta haust verði þær aftur settar af stað. Þór er þá einn þeirra miðla sem nýta sér netið í kynningu á starfi sínu og er með heimasíðuna thorgu.123.is.

Tvisvar til þrisvar á ári hefur Þór farið til Stansted í Bretlandi og sótt kúrsa í einum virtasta miðlaskóla Bretlands; Arthur Finley College í Stansted. Hann á stutt eftir í því námi til að öðlast starfsréttindi sem miðill og getur þá starfað sem miðill um allt evrópska efnahagssvæðið. Slíkir miðlar fá þá að vinna í kirkjum þar í landi og inni á sjúkrahúsum. Þór segir að hér heima hafi hann átt erfitt með að finna einhvern til að leiðbeina sér í að þroska hæfileika sína og þróa og því hafi hann ákveðið að fara út. „Sumir miðlar fara aldrei úr stólnum hjá sér en ég hef þurft að ferðast um allar trissur, fengið skilaboð um að sækja ákveðna staði á Íslandi og einnig um að ég þurfi að fara utan til að fá tengingar. Þannig fór ég í eftirminnilega ferð til Indlands árið 2007 sem ég segi til dæmis frá á heimasíðunni minni og ég mun fara þangað aftur veit ég og ferðast þá til suðurhluta landsins.“

Hvað finnst þér mikilvægast í starfi þínu sem miðill?

„Aðalatriðið er að sýna heilindi. Við miðlarnir sjálfir gerum ekki neitt, við erum bara millistykki; þótt ég sjái líkamann með röntgenskynjun og finni eru það aðrir sem vinna bak við tjöldin. Mér finnst mér hafa verið sýnd mikil forréttindi.“

Þór Gunnlaugsson fann ýmislegt á sér þá áratugi sem hann starfaði sem lögregluþjónn, hér heima og fyrir Sameinuðu þjóðirnar.