— Morgunblaðið/Ómar
Ekki hefur verið rannsakað hvort galopnar reglur um flutning fólks á milli ríkja séu endilega forsenda þess að frjáls markaður á milli manna og þjóða þrífist. Sambandið sjálft og helstu talsmenn þess endurtaka frasa, rétt eins og þeir séu komnir úr helgiritum, ef um slíkt er rætt.

Vonandi verður senn bundinn endi á undarlegt limbó í því auma „aðildarferli“ að ESB.

Þjóðinni átti að troða þangað ósáttri á meðan hún var enn í losti eftir efnahagslegt áfall, árásir í bókstaflegri merkingu á Alþingishúsið, sem með naumindum og einstakri hetjudáð lögreglu náðist að verja. Þeir sem síst máttu æstu til slíkra árása.

Reynsluboltar og byrjendur

Nú er öllum orðið ljóst að hinn efnahagslegi bylur var náskyldur því sem var að ganga yfir flestar þjóðir í okkar heimshluta um þær mundir. Íslenskir bankar hrundu ekki fyrr en eftir að fjárstreymið á alþjóðamarkaði hafði verið að þorna upp í 14 mánuði og erlendir bankar, og þeir sumir háttskrifaðir og sögufrægir eins og Lehmans-bræður, höfðu fallið. En munurinn var sá, að hér dugði að þrír bankar færu og þá var bankakerfið allt komið á hliðina, því þeir reyndust samansúrraðir.

Þrír stórir bankar höfðu þanist út með ógnarhraða á örfáum árum og mikils oflætis gætti innan þeirra allra. Nú er vitað að bankamenn höfðu vissulega haft rangt við og teygt sig inn á dökk svæði og slævt dómgreind sína, ekki síst þegar endalokin nálguðust. Og það gerðu menn víðar og jafnvel stundum með áþekkum hætti og hér var gert, eins og saksóknin í Írlandi sem fréttir voru um nýlega, sýnir með sláandi hætti. En þótt hundruð banka væru „látnir fara á hausinn“ austan hafs og vestan þá var fjölda þeirra einnig bjargað. Margt bendir nú til að ekki hafi allt verið með felldu innan þeirra banka sem bjargað var, en björgunaraðgerðirnar ná að breiða yfir það. Í Bandaríkjunum hefur seðlabankinn prentað dollara í stórum stíl og dælt fé inn í banka og þar með og þaðan inn á hlutabréfamarkað. Þessara fjármuna sér þó ekki stað alls staðar í þjóðlífinu og það lýsir sér m.a. í því að munurinn á milli ofsaríkra og fátækra hefur aldrei verið þar meiri en nú. Það var örugglega ekki það sem Obama átti við þegar hann kynnti sig til sögu sem mann breytinganna. Langflestir bankar, sem einhvers máttu sín í heiminum, óðu jafn gáleysislega áfram og þeir íslensku í hinu óvenjulega umhverfi lágra stýrivaxta í girðingarlausri alþjóðavæðingunni og flutningi fjármuna með hraða ljóssins. Það má meira að segja hafa það hinum íslensku til afsökunar, ef menn vilja, að alþjóðleg bankareynsla þeirra var á algjöru byrjendastigi ef horft er til annarra banka í hinum vestræna heimi, sem sumir höfðu aldarreynslu eins og Lehmans og aðrir enn lengri.

Alþjóðavæðingunni og hinum „nýja efnahagsveruleika með gerbreyttum lögmálum“ var mikið hrósað og helstu forkólfar bankaheims virtust standa í þeirri trú, að sá galdur og taumlaust framboð lánsfjár fyrir lítið, væri hluti af nýjum veruleika. Íslensk yfirvöld peningamála tóku ekki þátt í þeim leik, enda lágu þau undir stöðugum og óbilgjörnum árásum aðila vinnumarkaðar fyrir að elta ekki hina alþjóðavæddu lágvaxtastefnu á röndum, þrátt fyrir óvenjulega innlenda spennu.

Því ekki að skoða nýliðna sögu

Það væri mjög þarft fyrir núverandi aðstandendur samtaka atvinnulífs og viðskipta að fara yfir gáleysislegar yfirlýsingar helstu talsmanna þessara samtaka á árunum fyrir bankafall og draga af þeim nokkurn lærdóm. Það eru hagsmunir allra að taka megi slík samtök alvarlega og að þau veiti í senn forystu og aðhald, en taki ekki gagnrýnislaust undir með mestu glönnunum eins og gerðist í aðdraganda áfallsins. Það gæti verið góð aðferð hjá þessum samtökum að fara vandlega yfir framgöngu sína á árunum fyrir „hrun“. Ekki til þess að setja einn eða neinn í gapastokk heldur til að draga lærdóm af í eigin ranni. Þau mættu einnig kíkja á það sjálf, hvort síðastliðin fjögur ár hafi farið fram einhverjar samningaviðræður – raunverulegar samningaviðræður – um aðild Íslands að ESB. Það er hins vegar eins og hver önnur skrítla að spyrja Baldur Þórhallsson og félaga um slíkt. SA gæti rétt eins ákveðið að láta Vilhjálm Birgisson sjá um launaþáttinn fyrir sig framvegis.

Sérfræðingar í spurningunni

Hafi það í raun flögrað að þessum ágætu samtökum að raunverulegar samningaviðræður vegna aðildar hafi farið fram, væri skemmtilegt að heyra um dæmi þess. Og þá mætti í leiðinni upplýsa hvort nokkurs staðar fyndist stafkrókur um að Evrópusambandið hafi tekið á ný upp slíkt samningaferli gagnvart „umsóknarríkjum“. Slíkt ferli var formlega lagt af fyrir tæpum tveimur áratugum. Sambandið tekur sérstaklega fram í greinargerð sinni um það, hvernig stækkun ESB fari fram, að það hafi sett sér þá ófrávíkjanlegu reglu að eiginlegar samningaviðræður við ný aðildarríki fari ekki fram. Einungis sé farið yfir hvort og þá hvenær viðkomandi ríki hafi kyngt öllum 100 þúsund síðum regluverksins. ESB gengur reyndar svo langt að biðja „umsóknarríki“ um að láta algjörlega vera að gefa almenningi í sínum löndum í skyn að slíkar samningaviðræður eigi sér stað!

Nú vill svo til að t.d. Samtök atvinnulífsins eru í lykilaðstöðu til að svara sjálfum sér um þetta efni og í framhaldinu að upplýsa aðra. Þessi samtök eru jú sérstaklega kostuð af fyrirtækjunum í landinu til að standa fyrir samningaviðræðum og hafa síðustu áratugina öðlast mikla reynslu í því. SA gæti því upplýst hvort það hefði einhvern tímann gerst að eitthvert aðildarfyrirtæki hefði óskað eftir því, jafnvel með hávaða, að SA beitti sér fyrir að ljúka samningaviðræðum sem ekki hefðu hafist og aldrei hefði staðið til að hefja. Það væri fróðlegt að vita hvort slíkt hefði gerst og hvernig samtökin hefðu brugðist við slíkum skringilegheitum.

Frjáls viðskipti ríkja frábær hugmynd

Það var prýðileg hugmynd á meginlandi Evrópu að sameinast um að gera verslun og viðskipti aðgengilegri á svæðinu en verið hafði. Slík breyting gat ekki annað en verið hagfelld fyrir alla þá sem innan svæðisins búa og hlaut að leiða til ávinnings fyrir alla. Best hefði svo verið ef ríki álfunnar hefðu í framhaldinu bent á hve þetta hagræði hefði reynst þeim sjálfum vel og beitt sér fyrir því af sannfæringu að þess háttar breyting yrði gerð á heimsvísu, með hagsmuni veraldarinnar að leiðarljósi. En ESB er tollabandalag sem stefnir að því að breytast í eitt ríki innan ríkistollmúra, þótt einstökum þjóðum hafi ekki verið sagt frá því. Þess vegna fóru búrókratarnir út af beinu brautinni til opins markaðar á milli sjálfstæðra ríkja. Það sést best á því þegar í ljós kemur að þeir sem ætluðu að greiða fyrir frjálsum viðskiptum í meginatriðum eru búnir að setja 100 þúsund blaðsíður af opinberum fyrirmælum í kringum frelsið. Það segir sig sjálft að yfir 90 þúsundir þeirra eru örugglega óþarfar og iðulega skaðlegar.

Þarf ekki að skoða gamlar forsendur?

Þá hafa upphaflegu forsendurnar aldrei verið skoðaðar í ljósi fenginnar reynslu.

Ekki hefur verið rannsakað hvort galopnar reglur um flutning fólks á milli ríkja séu endilega forsenda þess að frjáls markaður á milli manna og þjóða þrífist. Sambandið sjálft og helstu talsmenn þess endurtaka frasa, rétt eins og þeir séu komnir úr helgiritum, ef um slíkt er rætt. Ekki nóg með það. Því spyrji menn slíkra spurninga þá er stutt í dylgjur um að þeir hinir sömu séu sennilega kynþáttahatarar eða þjóðernisofstækismenn og gott ef þeir séu ekki andlega skyldir þeim kónum úr nýliðinni sögu sem mest eru fyrirlitnir og verðskulda það. Innst inni vita þó allir að engin þjóð ber óhefta og skiljanlega ásókn fólks af fátækari svæðum inn til þjóðar sem byggt hefur upp örlátt velferðarkerfi á löngum tíma með háum sköttum. Ef fjölmennir hópar sem ekkert hafa til slíks kerfis lagt geta keypt sér miða í ferju eða flug og átt skömmu eftir landtöku sama rétt og heimamenn, þá gengur það dæmi ekki óbreytt upp. Annað hvort þarf þá enn að hækka skatta og öll iðgjöld og það upp úr öllu valdi eða draga snarlega úr þeirri þjónustu sem þeir sem fyrir eru héldu að þeir hefðu tryggt sér. Það þarf ekki Einstein til að fara með það dæmi upp á töfluna, svo að sá glöggi maður sé aftur dreginn að ósekju inn í umræður um innflytjendur. Þessi veruleiki er smám saman að verða þrúgandi í ýmsum ríkjum ESB. Og af því að þöggun ríkir og pólitískur rétttrúnaður bannar alla óþægilega umræðu um málið er hætt við því, að einmitt þeir sem færa málið í annarlegan farveg taki umræðuna yfir. Þá er orðið stutt í það sem allir þykjast vilja varast. Bresk yfirvöld eru að þokast í átt til þess að láta undan eigin áhyggjum og stórs hluta þjóðarinnar af þessari þróun. Þegar þeir anda því út úr sér heyrast stóryrt viðbrögð í Brussel. Kannski á það eftir að breytast. Hollendingar eru farnir að ókyrrast og Frakkar eru sennilega nær sömu hugsun en opinberlega er viðurkennt. Hollande forseti gæti því óvænt beint næsta framhjáhaldi sínu að rétttrúnaðarmönnum í Brussel.

Ókyrrð í Alpafjöllum

Sviss hefur ákveðið, með frægri niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu, að stíga skref til baka varðandi frjálsa för yfir landamæri, að þessu leyti. Pólitísk fyrirmenni í ESB og búrókratar þess brugðu ekki vana sínum. Þeir höfðu strax í hótunum við Svisslendinga. Það er þó sérkennilegt af ýmsum ástæðum. Þar á meðal þeirri að í ljós kemur, þegar textinn er skoðaður, sem var undir í kosningunum, að stigið var mjög varlega til jarðar. Yfirvöldum er gefinn góður tími til að laga sig að niðurstöðunni og hún er að auki fjarri því að vera afgerandi. En það skrítnasta er, að í Brussel virðast menn líta svo á að allur aðgangur að innri markaðnum sé aðeins í þágu ríkisins sem fær náðarsamlegast aðgang að honum. En þegar horft er til hagvaxtar og þróttar í Sviss annars vegar og öðrum hluta innri markaðarins hins vegar, eru beinharðar tölur mun hagstæðari Sviss. Þessi hroki fer því ESB illa. En hann kemur ekki Íslendingum á óvart. Þeir fengu að finna fyrir honum haustið 2008, þeir fengu að finna fyrir honum í Icesave málinu og í makrílmálinu. Það bjargaði því sem mátti, að menn stóðu í lappirnar fyrstu vikurnar eftir „hrun“. En frá og með vorinu 2009 var annars konar mannskapur kominn í brúna, bæði í ríkisstjórn og seðlabanka. Þó náði þjóðin að bjarga miklu eftir að forsetinn fól henni að fara með Icesave-málið í tvígang. En hún komst ekki að þegar sömu öfl beittum öðrum ráðum til að þóknast yfirgangssömum „kröfuhöfum“. Ekki heldur þegar þeim voru gefnir tveir af þremur viðskiptabönkum með óboðlegum aðferðum og enn síður þegar ótrúlegur aulasamningur var gerður um uppgjör á milli gamla og nýja Landsbankans.

Ekki skemma gott mál

Innri markaður í Evrópu er mjög gott mál. En slíku frjálsu samstarfi má ekki drekkja í 100 þúsund blaðsíðum fullum af fyrirmælum um stórt og smátt. Hinn frjálsi markaður er ekki forsendan fyrir svo útþrútnum ósköpum heldur óbifanleg ákvörðun ólýðræðislegrar forystu ESB um að koma drýgstum hluta fullveldis ríkja álfunnar yfir á skrifræðið, svo það megi enda í einu stórríki. Réttlætingar þess eru langsóttar. Því er haldið fram að Evrópusambandið hafi komið í veg fyrir stríð í álfunni eftir 1945. Nær allan þann tíma var annar hluti álfunnar undir stjórn stórfurstanna í Kreml. Hinn var nær allur í Nato. Bandaríkin höfðu 100 þúsund hermenn í Þýskalandi. Hverjir áttu að fara í stríð og við hvern? Hvaða styrjöld á meginlandinu kom ESB í veg fyrir? Hvaða endemis vitleysa er þetta? Og hvers vegna þarf að fara með slíkt fleipur? Víðtækt markaðssvæði á meginlandinu er prýðilegt. Frjáls viðskipti eru til þess fallin að ýta undir friðsamlega sambúð. Það segir okkur gömul reynsla og ný. Það þarf ekki fáránlegar furðusögur til að réttlæta eitt eða neitt í því sambandi. Hvers vegna þarf að fabúlera um það að búrókratar í Brussel hafi tryggt frið í álfunni frá árinu 1945? Innst inni vita allir að slíkt er uppspuni. Þeir meintu snillingar gátu ekkert, frekar en leiðtogar Evrópusambandsins, þegar eldar kviknuðu í bakgarði þess fyrir rúmum tveimur áratugum. Þeir héldu auðvitað marga neyðarfundi, eins og vant er, en ekkert gerðist. Mannfall óbreyttra borgara var ógurlegt og það breyttist ekki fyrr en Bandaríkjunum ofbauð aumingjagangurinn og Bill Clinton skarst nauðugur í leikinn. Og nú bendir margt til að næstu misseri og ár muni menn sækja ófriðinn til ESB.