Akureyringarnir Helgi Rúnar Bragason og Inga Stella Pétursdóttir voru hæstánægð með hin fjölbreyttu salöt sem boðið var upp á.
Akureyringarnir Helgi Rúnar Bragason og Inga Stella Pétursdóttir voru hæstánægð með hin fjölbreyttu salöt sem boðið var upp á.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Léttur og skemmtilegur hópur hittist yfir hádegisverði í heimahúsi á Akureyri og snæddi alls kyns salöt. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is

Við vildum hafa matseðilinn fjölbreyttan en jafnframt að hægt væri að útbúa eitthvað fyrirfram þar sem um hádegisboð var að ræða. Þannig grillaði ég kjúklinginn og kjötið kvöldið áður og útbjó kökuna,“ segir Davíð Kristinsson heilsuþjálfari en hann og eiginkona hans, Eva Ósk Elíasardóttir, buðu góðum vinum í léttan hádegisverð á heimili sínu á Akureyri.

Hópurinn sem hittist eru vinir þeirra úr Roundtable 5-klúbbnum. Sá klúbbur er raunar strákaklúbbur sem starfræktur er víðsvegar um landið en makarnir hafa undanfarið tekið meiri þátt í starfseminni. Markmiðið er að sameina fólk úr ólíkum áttum og starfsstéttum en Roundtable er alþjóðlegt fyrirbæri.

„Svokallað vinahorn er látið ganga á milli meðlima klúbbsins og sá sem er með það hverju sinni á að bjóða þeim sem hann vill innan klúbbsins í heimsókn og helst er ætlast til að þú bjóðir fólki heim sem þú umgengst minna í klúbbnum. Þetta er mjög skemmtileg hefð og hefur þjappað hópnum enn betur saman.“

Gestum líkaði maturinn afar vel og Davíð merkti það meðal annars á því að það fór miklu meira af honum en hann bjóst við. Davíð leggur mikið upp úr því að nota hrein og lítið unnin hráefni í matinn en sjálfur tók hann mataræði sitt í gegn fyrir rúmlega tíu árum og tók þá meðal annars út mjólkurvörur og glúten úr sinni fæðu. Sjálfur hefur hann aðstoðað fólk við að ná betri tökum á mataræði og gaf nýverið út bókina 30 dagar.

Halda þau hjónin oft matarboð?

„Okkur finnst gaman að bjóða vinum og fjölskyldu í mat. Við eldum oft steikur og ýmiss konar meðlæti, sushi og svo bara bragð- og matarmiklar súpur. Matseldin gæti flokkast sem áhugamál en maður hefur ekki alltaf tíma. Ég held að lykilatriðið að góðu matarboði sé að bjóða skemmtilegu fólki sem hefur svipaðan húmor og maður sjálfur. Einnig að bjóða upp á mat sem fellur í kramið hjá sem flestum. Það er líka nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort einhver sé með fæðuóþol og hagræða uppskriftunum eftir því. Það er líka mikið atriði að enda á góðum eftirrétti en hann má auðvitað líka vera hollur,“ segir Davíð.

Lambakjötssalat

Fyrir 1

1 grilluð lambalærissneið

provencekrydd, til dæmis frá Himneskri hollustu, eftir smekk

1 avókadó

1 tómatur

½ paprika

1 bolli spínat

Kryddið kjötið og steikið eða grillið eftir smekk og skerið í litla bita. Skerið lárperuna í tvennt og takið steininn úr. Skafið innmatinn úr og skerið í teninga. Setjið hann í skálina. Skerið papriku og tómat í bita og bætið því og spínatinu saman við. Bætið ólífuolíu og sjávarsalti út á eftir smekk.

Bláberjakaka

Botn:

4 dl möndlur

3 dl döðlur

½ tsk. sjávarsalt

Setjið allt í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til blandan loðir vel saman. Setjið blönduna í sílikonform, þrýstið henni vel niður á botninn og upp með hliðum formsins og búið þannig til „skál“ sem nær vel upp á kantana.

Fylling:

3 dl kasjúhnetur

2 dl kókosolía

1 dl vatn

1 dl hunang

1 tsk. vanilluduft

½ tsk. himalajasalt

300 g bláber, jarðarber eða hindber

Setjið allt nema berin í matvinnsluvél eða blandara og látið vélina ganga þar til fyllingin verður silkimjúk. Blandið síðan berjunum varlega saman við og hellið öllu á kökubotninn sem búið er að móta. Setjið kökuna í frysti í a.m.k. 8 klst. Takið hana út 1-2 klst. áður en hún er borin fram.

Cobbsalat með sinnepssósu

Fyrir 4

1 stór ofnsteiktur kjúklingur

1 avókadó

2 stórir tómatar

2-3 harðsoðin egg

1 haus romainesalat, má nota aðra tegund af káli

3 msk. sinnepssósa (sjá uppskrift neðar)

pipar

Hamflettið kjúklinginn, takið hann af beinunum og skerið kjötið í væna bita. Setjið þá í stóra skál. Skerið avókadó í teninga og tómata, egg og salat í bita. Blandið öllu saman í skálina. Búið til sinnepssósuna og dreifið yfir salatið, bragðbætið með salti og pipar.

Sinnepssósa

lífrænt majónes

lífrænt sinnep

Blandið þessu saman í hlutföllunum 60% majónes og 40% sinnep.

Kjúklinga- og brokkólísalat

1 stór ofnsteiktur kjúklingur

1 spergilkálshaus

200 g spínat

4 msk. sýrður rauðlaukur (sjá uppskrift neðar)

2. msk sítrónusafi

3 msk. ólífuolía

salt og pipar

Hamflettið kjúklinginn, takið hann af beinunum og skerið kjötið í væna bita. Setjið þá í stóra skál. Skerið spergilkálið í bita. Setjið spínat og sýrðan rauðlauk í skálina. Blandið sítrónusafa og ólífuolíu saman, bragðbætið með salti og pipar og hellið yfir.

Sýrður rauðlaukur

1 l vatn

1-2 msk. eplaedik

1-2 msk. hunang

3 rauðlaukar

Setjið vatn í pott ásamt ediki og hunangi og látið sjóða. Skerið laukinn í sneiðar og hellið heitri blöndunni yfir. Laukurinn verður bestur ef þetta er gert nokkrum dögum áður en hann er notaður. Hann er svo hitaður upp í potti með svolitlu af leginum.