Gunnþórunn Jónsdóttir
Gunnþórunn Jónsdóttir
Mannskepnan hræðist það sem hún þekkir ekki. Spákonur, miðlar, skyggnigáfa og hinn andlegi heimur verður okkur ávallt hugleikið fyrirbæri. Hins vegar þekkjum við þetta fyrirbæri nú flest enda mikið rætt um þennan heim hér á landi.

Mannskepnan hræðist það sem hún þekkir ekki. Spákonur, miðlar, skyggnigáfa og hinn andlegi heimur verður okkur ávallt hugleikið fyrirbæri. Hins vegar þekkjum við þetta fyrirbæri nú flest enda mikið rætt um þennan heim hér á landi. Sögur af ýmsum spámiðlum og læknamiðlum ganga manna á milli um allt land. Flestir bera þeim söguna vel. Sumir eftir að hafa jafnvel fengið innsýn í framtíðina, styrk eða hjálp. Aðrir eru gjarnan sagðir fúskarar standist þeir ekki væntingar.

Það sem er áberandi í viðtölum við nokkra þekkta miðla hér á landi í blaðinu í dag er það að lengi vel voru þau ósátt við að hafa þessa óumbeðnu skyggnigáfu. Í mörgum tilfellum tók það sinn toll og tíma að sætta sig við sitt hlutskipti áður en þau hættu að streitast á móti. Ætla mætti að það væri síður en svo auðvelt að burðast með slíkt á lífsleiðinni og er miðlum gjarnan feimnismál. Oft heyrist hátt í efasemdaröddum þegar spákonur og miðlar ber á góma og trompið dregið fram, vísindin. Að vísu vilja sumir miðlar meina að þessir tveir heimar, hið veraldlega og hið andlega, séu að sameinast. Ekki verður lagður dómur á það hér.

Skiptar skoðanir eru á þessum málum og skiljanlegt að fólk hafi efasemdir. En hvort sem fólk trúir á hið andlega eður ei er aldrei verra að víkka sjóndeildarhringinn, enda er það ríkt í landanum að trúa því að fleira leynist í heiminum en það sem augað nemur.

Engin einhlít skýring er á tilgangi lífsins og enginn veit hvort það er líf eftir dauðann. Sennilega fáum við aldrei nein svör við því. Hvers vegna ættum við þá ekki að taka hlutunum með opnum huga?