„Ég einbeitti mér þá að vissri formfræði, skoðaði línur, liti, fleti og hlutföll,“ segir Inga Þórey um verkin á sýningunni.
„Ég einbeitti mér þá að vissri formfræði, skoðaði línur, liti, fleti og hlutföll,“ segir Inga Þórey um verkin á sýningunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á sýningu Ingu Þóreyjar Jóhannsdóttur eru verk sem spruttu af vinnu hennar í Nepal.

Sýning Ingu Þóreyjar Jóhannsdóttur myndlistarkonu, „Jarðhæð“, verður opnuð í fordyri Hallgrímskirkju klukkan 12 á sunnudag, eftir messu í kirkjunni. Inga Þórey segir verkin að vissu leyti byggjast á ljósmyndum sem hún tók þegar hún var með vinnustofu í Nepal um tveggja mánaða skeið í fyrra. Verk Ingu Þóreyjar hafa oft snúist um ferðalög, þar sem skúlptúrar og þrívíð rými hafa fengið á sig form farartækja eða farangurs og þannig fært áhorfandann huglægt á annan stað. Á þessari sýningu eru ákveðin umskipti; hér er það myndlistarmaðurinn sjálfur sem tekur á sig ferðalag og safnar efniviði.

„Í fyrra setti ég sjálfa mig í visst myndlistarlegt farbann og fór að vinna bara með tvívíða flötinn,“ segir hún. „Ég einbeitti mér þá að vissri formfræði, skoðaði línur, liti, fleti og hlutföll. Í fyrra ferðaðist ég síðan nokkuð og ákvað að halda þá áfram að vinna í þá veru en með ljósmyndavél. Ég hélt áfram að leita að og vinna með svipaða fleti og ég vann með á vinnustofunni hér heima.“

Í verkunum gefur að líta götumyndir sem byggjast á ákveðinni endurtekningu.

„Það eru myndir sem fólu í sér þessa fleti, línur og liti sem ég var að leita að,“ segir hún. „Líka ákveðna þætti sem tengjast tímanum, en ég hafði verið að vinna málverk sem ég ákvað að gefa mjög minn tíma. Þá vísar titillinn, „Jarðhæð“, í sjónarhornið sem ég beiti og gestir í kirkjunni munu upplifa,“ segir hún.

Inga Þórey Jóhannsdóttir stundaði myndlistarnám við Fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1984-1988, við Hochschule für Angewandte Kunst í Vínarborg frá 1988-1989 og lauk kennaranámi frá Listaháskóla Íslands 2004.