„Ég nýt þess að takast á við ólíka hluti í menningarlífinu, enda trúi ég því að tími fílabeinsturna í listum sé liðinn undir lok,“ segir Tui Hirv.
„Ég nýt þess að takast á við ólíka hluti í menningarlífinu, enda trúi ég því að tími fílabeinsturna í listum sé liðinn undir lok,“ segir Tui Hirv. — Morgunblaðið/Einar Falur
Á dögunum hreppti tónverk Arvos Pärts, Adam's Lament, Grammy-verðlaunin. Söngkonan Tui Hirv, sem er búsett hér á landi, syngur sópranhlutverkið.

Á dögunum hreppti tónverk Arvos Pärts, Adam's Lament, Grammy-verðlaunin. Söngkonan Tui Hirv, sem er búsett hér á landi, syngur sópranhlutverkið. „Líklega eru rætur mínar orðnar sterkari hér en þar,“ segir hún þegar spurt er um muninn á tónlistarlífinu í Eistlandi og hér. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is

Á dögunum hreppti hljómplata hins heimskunna tónskálds Arvos Pärts, Adam's Lament , Grammy-verðlaunin í Bandaríkjunum fyrir bestan flutning kórs á liðnu ári. Kórnum stýrir kunnur stjórnandi, Tõnu Kaljuste, og einsöngvararnir í verkinu eru þau Tui Hirv og Rainer Vilu. Tui hefur verið búsett hér á landi síðan í sumar og þessi snjalla eistneska söngkona er farin að láta að sér kveða í íslensku tónlistarlífi. Á dögunum kom hún til að mynda fram með Caput-hópnum á Myrkum músíkdögum þar sem flutt voru verk eftir tónskáldin Helenu Tulve og Pál Ragnar Pálsson, sambýlismann Tui, sem margir þekkja sem gítarleikara hljómsveitarinnar Maus.

„Það var engin leið að sjá fyrir að flutningurinn á verkinum myndi fá Grammy-verðlaun,“ segir Tui og bætir við að það hljóti að kynna verkið fyrir stærri hlustendahópi. Það sé hins vegar langt síðan verkið var hljóðritað, árið 2011. „Og þá vorum við í raun að vinna með verkið í annað sinn. Arvo Pärt samdi það upphaflega fyrir sópran og átta selló. Nokkrum sinnum var reynt að hljóðrita verkið í þeirri mynd en það gekk ekki upp og var aldrei gefið út. Árið 2008 fór ég í tónleikaferð með Kammerkór eistnesku fílharmóníunnar um Bandaríkin og fyrir þá ferð var þetta verk Pärts útsett fyrir kammersveit, kvennakór og tvo einsöngvara. Við stjórnandinn, Tõnu Kaljuste, þekktumst þá þegar því ég hafði áður sungið með barnakór sem faðir hans stofnaði árið 1951, frá sjö ára aldri þar til ég lauk menntaskóla. Hann valdi mig til að syngja sópranhlutverkið.“

Verkið er sungið á frönsku og fjallar um holdsveikisjúkling sem ábóti nokkur fellst á að bera á markað og reynist vel að öllu leyti, þrátt fyrir að sá holdsveiki reyni á þolrif hans. Að lokum reynist sá veiki vera engill sem hafði verið að reyna trú ábótans. Tui ljær englinum rödd sína.

„Á sínum tíma fluttum við verkið á átta tónleikum í Bandaríkjunum. Það var síðan æft upp aftur þremur árum síðar og hljóðritað fyrir ECM-útgáfuna í kirkju heilags Nikulásar í Tallinn, sem er þekkt fyrir gríðarmikið bergmál.“ Á plötunni koma fram nokkrir kórar, einsöngvarar og hljóðfærahópar.

Hin ríka kórahefð í Eistlandi

Tui segir að útgáfunni hafi strax verið vel tekið, eins og öðrum með verkum Arvos Pärts. „Þetta er eins og vél sem malar áfram,“ segir hún. „Ég var einfaldlega beðin að stíga um borð í farartækið sem heldur ferðinni áfram. Fyrsti diskurinn með samstarfi Tõnu Kaljuste og Pärts, Te Deum , kom út 1993. Ég hlustaði mikið á hann sem unglingur.“

Tui segir að Kaljuste hafi ekki gert mikið með Grammy-verðlaunin. „Hann spurði á Fésbókinni hvort einhver tryði því virkilega að hægt væri að bera ólík tónverk saman til að veita einu þeirra verðlaun.

En hann ítrekar líka að verðlaun og viðurkenningar séu hluti af tónlistariðnaðinum.“

Hún segir að vissulega hafi Arvo Pärt haft mikil áhrif á eistneskt tónlistarlíf, þrátt fyrir að hann hafi ekki alltaf verið nálægur eða virkur þátttakandi í tónlistarlífi landsins. „Hann bjó lengi í Berlín en er nýfluttur aftur til Eistlands, býr í þorpi sem er álíka langt frá Tallinn og Eyrarbakki er frá Reykjavík,“ segir Tui. Hún bætir við að mörg yngri tónskáld semji í hans anda og svo hafi fjöldi kóra sprottið upp og þeir takist iðulega á við sömu verkin. Kórahefð er gríðarlega rík í Eistlandi.

„Þjóðlegur kórsöngur hefur skipt gríðarmiklu máli fyrir sjálfstæði og sjálfsmynd þjóðarinnar,“ segir Tui. „Fyrsta söngvahátíðin var haldin í Eistlandi árið 1869 og síðan hafa þær verið haldnar reglulega, oftast á fimm ára fresti. Eistland varð sjálfstætt árið 1918 og hátíðirnar voru haldnar áfram, einnig á sovéttímanum þótt reynt væri að láta þær þjóna sovéskri hugmyndafræði. Það gekk í raun ekki því Eistar notuðu tækifærið til að flytja ástsælustu þjóðernissöngvana, jafnvel þótt reynt væri að kæfa þá með háværum hergöngumörsum úr hátölurunum,“ segir hún og brosir. „Kórsöngurinn, og söngvahátíðin, er í kjarna sjálfsmyndar Eista.“

Þegar Tui er spurð hvenær hún hafi ákveðið að leggja sönginn fyrir sig ypptir hún öxlum og segir að þetta hafi hún alltaf viljað gera.

„Ég hef alltaf sungið. Ég tala ekki um það sem ég geri sem einhvern söngferil, heldur vil ég syngja með fólki sem syngur vel og ef maður syngur alltaf með góðum söngvurum, og góðum hljóðfæraleikurum, býst ég við að maður endi í einhvers konar atvinnumennsku. Ég vil einfaldlega fást við tónlist.

Ég er ekki dæmigerður klassískur söngvari því ég syng venjulega ekki óperur. Hvers vegna? Því röddin mín er ekki hin dæmigerða óperurödd. Það fer eftir hvaða hæfileika náttúran skammtar manni hvað hentar best að syngja. Ég hef áhuga á óperu og get ekki sagt að ég muni aldrei takast á við það form, en eins og eistneska módelið af óperusöng er – mótað af rússneskum hefðum mikilla radda – þá get ég ekki keppt við það, þar sem þarf að syngja hærra en hljómsveitir. Mín söngtækni er ekki þannig, hún er nær eldri tónlist og einnig tónlist kórhefðarinnar. Hins vegar syng ég mikið af samtímatónlist og mörg tónskáld hafa samið verk sérstaklega fyrir mig. Ég lít á sjálfa mig sem hljóðfæri. Um daginn kom ég fram með Caput og slíkir tónleikar eru eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri; að koma fram með litlum kammersveitum og vera eins og eitt af hljóðfærunum. Þegar ég syng með píanóleikara lít ég á hann sem jafninga, hann er alls ekki undirleikari minn.“

Skýtur nýjum rótum hér

Var erfitt fyrir Tui að flytja til Íslands og skilja við eistnesku ræturnar?

„Nei. Ég skýt nýjum rótum hér,“ segir hún ákveðin. „Ég hef verið að skjóta þeim frá 2008, þegar ég kom hingað fyrst, og síðan hef ég dvalið hér oft, í lengri og styttri tíma. Hér fann ég ýmislegt sem var ekki að finna í Eistlandi – og líklega eru rætur mínar orðnar sterkari hér en þar.“

Hún kom ekki hingað vegna tónlistarlífsins, heldur vegna fjölskyldunnar – þau Páll Ragnar eiga saman fjögurra ára dreng sem nú gengur hér í leikskóla. „En auðvitað er tónlistarlífið ólíkt í þessum löndum, hér er það alls ekki jafnmiðstýrt og í Eistlandi. Hér er frelsi til að hrinda hugmyndum í framkvæmd miklu meira. Í Eistlandi hættir fólki til að bíða eftir fyrirmælum að ofan.“

Tui er ekki með mörg verkefni í gangi í Eistlandi en nýlega var ákveðið að Adam's Lament -platan yrði flutt í heild sinni á tónleikum í Tallinn í haust.

„Ég vil helst komast þangað á sumrin, það er besti tíminn, en það er fátækt land og þótt einhver tónlistarverkefni gætu hentað mér þá er yfirleitt enginn peningur til að borga undir mig flugfar þangað. Hvað það varðar hef ég líklega verið strokuð út af listanum!“ segir hún og hlær. „Hins vegar er svo auðvelt að vera í sambandi við vini og starfsfélaga í dag yfir netið. Ég er líka tónlistarfræðingur að mennt og hef starfað sem menningarblaðamaður fyrir dagblað í Eistlandi; ég get sinnt því að hluta héðan. Ég nýt þess að takast á við ólíka hluti í menningarlífinu, enda trúi ég því að tími fílabeinsturna í listum sé liðinn undir lok. Allir sem starfa á þessu sviði eru jafnir, þurfa að kynna sig og koma sér áfram.

Faðir minn er ljóðskáld og ég hef líka skrifað alla tíð; nýt þess rétt eins og ég nýt þess að syngja.“